Pílagrímsganga í kjölfar krabbameins

Margrét í sínu náttúrulega umhverfi.
Margrét í sínu náttúrulega umhverfi. Ljósmynd/Aðsend

Hún settist á skólabekk við Háskóla Íslands, þar sem hún stundar enn nám, og tekur svo að sér að leiðsegja ævintýraþyrstum Íslendingum um pílagrímssvæði í Austurríki. „Rétt fyrir jól 2015 greindist ég með brjóstakrabbamein og fór í aðgerð þar sem meinið í brjóstinu og eitlum var fjarlægt. Í framhaldi af því fór ég í lyfjameðferð og svo í geisla. Allt það ferli tók tæpt ár. Þá ætlaði ég bara að taka naglann á þetta og drífa mig aftur í vinnu en ég hef starfað sem grunnskólakennari í tæp 30 ár. Það var mér mjög mikilvægt að komast aftur í skólann og sinna krökkunum mínum. En það var hægara sagt en gert, orkan var mjög takmörkuð og margt hafði breyst. Ég átti erfiðara með að takast á við áreitið í kennslunni, fór í svakaleg hitakóf nokkrum sinnum á dag og svo skalf ég úr kulda þess á milli. Þetta voru afleiðingar lyfjanna sem ég fékk. Auk þess átti ég erfitt með svefn og var mjög gleymin. Það er kannski skrítið að segja það en meðan maður er í krabbameinsferlinu býr maður við ákveðið öryggi, það er alltaf fagfólk að fylgjast með manni og tilbúið að veita manni þjónustu og aðstoð en svo þegar því lýkur er maður á eigin vegum, þarf að fylgjast vel með breytingum á hinum og þessum einkennum ef vera kynni að eitthvað nýtt skyti upp kollinum og allt í einu er álíka erfitt að ná tali af fagfólkinu eins og að fá viðtal við páfann. Nei ég ýki nú kannski aðeins en tilfinningin var samt þessi,“ segir Margrét og rifjar upp ráð hjúkrunarfræðinganna á krabbameinsdeildinni þegar hún var sem verst af aukaverkunum lyfjanna. „Mér var ráðlagt að fara út og hreyfa mig, og þótt ég kæmist ekki nema hring í kringum húsið mitt þá munaði um það, öll hreyfing væri til góðs. Ég man að ég hálfhnussaði af vandlætingu, stútfull af hroka og fordómum og hugsaði með mér: „Þær gera sér ekki grein fyrir hvað ég er í góðu formi, ég skokka sko upp á Ingólfsfjall eins og ekkert sé og hér tala þær um að labba hringinn í kringum húsið. En þegar sá dagur rann upp að ég komst rétt svo fram úr rúminu og fram í stofu, þá komu mér þessi orð í hug. Ég var í alvöru komin á þennan stað, ég sem hafði farið alhraust inn í þetta ferli. „Veikindin“ voru í raun bara framkölluð af lyfjagjöfunum.“

Margrét fór eins fljótt af stað og hún treysti sér og byrjaði á því að hjóla og síðan ganga á hóla og smám saman komst hún á fell og loksins fjöll. „Mér fannst þetta allt ganga voða hægt, ég var óþolinmóð að komast aftur á minn upprunalega stað, þaðan sem ég hafði lagt af stað þegar ég greindist, barði hausnum hreinlega við steininn. Fjölskyldan mín og vinir voru dugleg að ganga með mér þegar ég treysti mér til og það var ómetanlegur stuðningur.“

Pílagrímsgangan þykir óendanlega falleg.
Pílagrímsgangan þykir óendanlega falleg. Ljósmynd/Aðsend

Stóra áfallið

Eftir að lyfjameðferð lauk komst Margrét fljótt að því að hún væri langt frá því að búa yfir fyrri kröftum í kennslu og olli það henni sárum vonbrigðum. „Það var eiginlega stóra áfallið í öllu ferlinu. Ég fékk aðstoð Virk við að koma mér á fætur eftir að hafa gefist upp sjálf. Þar fékk ég ómetanlega aðstoð við uppbyggingu og hvatningu til að byggja framtíðina á. Ég fór að meta hlutina á annan hátt, sá að gildismat mitt hafði breyst og langaði að finna mér nýja braut þar sem ég gæti notið mín þrátt fyrir takmarkaða orku.“ Í kjölfarið tók hún sér leyfi frá kennslu og settist á skólabekk við guðfræðideild Háskóla Ísland þaðan sem hún lýkur djáknanámi í vor. „Þetta hefur verið ótrúlega skemmtileg og gefandi reynsla. Að fara aftur í skóla, kynnast nýju fólki, læra nýja hluti og grufla svolítið í trúnni minni, sem alltaf var til staðar en hafði setið meira á hliðarlínunni megnið af lífi mínu.“

Á leiðinni verða fallegar kirkjur skoðaðar.
Á leiðinni verða fallegar kirkjur skoðaðar. Ljósmynd/Aðsend

Gengur í fótspor heilags Jakobs

Í sumar mun Margrét standa fyrir pílagrímsgöngu við Salzburg í Austurríki þar sem heilagur Jakob átti leið um. „Heilagur Jakob gekk þvers og kruss í Evrópu og vinsælt hefur verið á öllum tímum að feta í fótspor hans. Ein af leiðunum hans er um og í nágrenni við Salzburg yfir til Tíról og eftir henni verður gengið í þessari ferð. Leiðin liggur um fallegt landslag Salzburgar, Bæjaralands, Tíról og Alpanna á malbikuðum stéttum, skógarstígum og léttum fjallaslóðum. Þetta eru frekar léttar dagleiðir með lítilli hækkun, en heildarvegalengdin er samt upp á tæplega 120 km. Farangurinn er trússaður á milli gististaðanna og því þarf aðeins léttan bakpoka fyrir nauðsynjar dagsins. Ef einhver þarf á að halda er sums staðar hægt að stytta dagleiðir með því að notast við almenningssamgöngur á svæðinu. 

Salzburg í sinni fegurstu mynd.
Salzburg í sinni fegurstu mynd. Ljósmynd/Aðsend

Leiðin sjálf er markmiðið, og þar sem þetta er á pílagrímaslóðum verður kíkt í kirkjur þar sem þær verða á leiðinni og svo náttúrulega notið bæði landslags og félagsskapar. Tekinn verður einn aukadagur í Salzburg og farið í gönguferð í leiðsögn heimamanns um helstu söguslóðir þessarar miklu menningarborgar. Og rúsínan í pylsuenda þess dags er að sjálfsögðu Mozart-kvöldverðurinn, flott máltíð með skemmtilegum tónleikum þar sem nokkur af lögum meistarans eru leikin og sungin,“ segir Margrét. Aðspurð hvort djáknanámið komi að góðum notum í ferðinni segir Margrét það vera að vissu leyti. Ef fólk þarf á þekkingu minni í þeim efnum að halda í göngunni eins og bænum og spjalli. Við komum til með að íhuga saman, tala saman og þegja saman, hafa bænastundir og kannski fyrst og síðast vinna með okkur sjálf í þessu dýrðarumhverfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert