Heillaðist af Slóveníu

Sigurður Bjarni hefur lengi heillast af fjöllum.
Sigurður Bjarni hefur lengi heillast af fjöllum. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef alltaf verið heillaður af fjalllendi og fór mikið með föður mínum í fjallaferðir, bæði til gamans og til að smala kindum. Árið 2007 heimsótti ég Nýja-Sjáland og sú heimsókn vakti hjá mér áhuga til þess að virkja heimabæ minn í ævintýraþjónustu.“ Þremur árum síðar stofnaði Sigurður ferðaþjónustufyrirtækið Midgard Adventure, þá 23 ára að aldri, en hefur nú selt sig út úr því og einbeitir sér að fjallaferðamennsku og því að halda áfram að rækta sína ástríðu, útivistina. „Það hefur alltaf gefið mér mikið að skapa upplifun og fylgja fólki í nýtt umhverfi. Á milli ferða og umstangs í fyrirtækinu hef ég reynt að rækta fjallaklifurreynslu og reynt að koma persónulegum leiðöngrum inn. Ég hef klárað ákveðinn grunn í fjallamennsku svo sem klifur á Denali, þverun ísbreiðu í Patagoniu, hæstu tinda alparíkjanna Mt. Blanc, Mt.Rosa, Grossglockner, Triglav og Grand Paradiso og svo ýmis verkefni hér á Íslandi.“

Langaði að kynna landið fyrir Íslendingum

Á ferðalagi um heiminn hefur Sigurður myndað sterkt tengslanet og stofnaði nýlega lítið fyrirtæki með Ales Cesen, slóvenskum félaga sínum. „Upplifun mín á Slóveníu varð mjög djúp og rík, fegurð alpanna, menningin, og sagan hefur heillað mig mikið og fljótlega varð Slóvenía í uppáhaldi hjá mér. Ég sá tækifæri í ferðaþjónustu, langaði að fleiri Íslendingar kynntust landinu og ákvað því að slá til og stofna ferðaþjónustufyrirtæki með Ales vini mínum.“

Fegurðin í Slóveníu er engri lík.
Fegurðin í Slóveníu er engri lík. Ljósmynd/Aðsend

Í lok ágúst mun Sigurður bjóða upp á ferð til Slóveníu í samstarfi við ævintýrafyrirtækið Tinda en þar munu ferðalangarnir þvælast um tvær helstu fjallaþyrpingar landsins. „Við munum annars vegar ganga um Kamnik-alpana, sem eru minna þekktir en í persónulegu eftirlæti hjá mér. Þar munum við ganga á milli skála út frá Logarska-dalnum upp á hrygg sem rís tignarlegur yfir höfuðborginni Ljubljana. Út frá þessum hrygg rísa hæstu tindar Kamnik-alpanna mjög tignarlegir og útsýnið er einstakt. Þaðan munum við svo ganga um þekktara svæði, Julian Alps-þjóðgarðinn. Við munum gefa okkur tíma til að skoða þekkta ferðamannastaði og ferðast í upp Triglav-dalinn sem einkennist af sjö alpavötnum og útsýni á Mt.Triglav, þaðan munum svo ganga niður í Trenta-dalinn í ævintýralega gistingu í hjarta þjóðgarðsins.“

Gengið er um fjölbreytt umhverfi.
Gengið er um fjölbreytt umhverfi. Ljósmynd/Aðsend

Sigurður segir ferðina vera fyrir þá sem hafa gaman af göngum og búa yfir reynslu á því sviði. Hann segir dagana ekki vera mjög langa því aðeins sé um að ræða 5-6 klukkutíma göngu á milli skála. „Til að tengja við Ísland þá verður enginn dagur erfiðari en dagur á Fimmvörðuhálsi. Þetta er svipuð uppsetning á ferðinni eins og að ganga Laugaveginn. Ferðin er fyrir þá sem vilja vera aktívir en njóta kyrrðar í einstöku fjallaumhverfi. Við munum ferðast á stígum sem eru góðir en í bröttu umhverfi, svo þeir sem eiga erfitt með hæð gætu þurft á smá hjálp að halda. En til þess erum við,“ segir Sigurður Bjarni að lokum. Nánari upplýsingar um ferðina má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert