Svolítið eins og að hlaupa þrjár Esjur á dag

Ása Björg Tryggvadóttir markaðsstjóri Bestseller á Íslandi.
Ása Björg Tryggvadóttir markaðsstjóri Bestseller á Íslandi.

Ása Björg Tryggvadóttir markaðsstjóri Bestseller á Íslandi fór í mikla ævintýraferð þegar hún hljóp í kringum Mont Blanc á dögunum. Leiðin kallast UTMB og mjög fræg göngu og hlaupaleið. Elísabet Margeirsdóttir afrekskona var fararstjóri ferðarinnar og segist Ása vera endurnærð eftir ferðina þótt hún hafi verið snúin á köflum. 

„Ég fór með hópi frá Náttúruhlaupum í skipulagða ferð á vegum íslenskra fjallaleiðsögumanna þar sem markmiðið var að hlaupa í Kringum Mont Blanc. Þetta er fjölfarin leið sem margir ganga en okkur langaði að hlaupa þessa leið þar sem þarna er að finna fræga hlaupaleið sem kallast UTMB.  Sú keppni er einmitt nú í haust og við mættum mörgum afrekshlaupurum þarna á ferð við æfingar. Við byrjuðum í Frakklandi í bænum Chamonix og hlupum yfir til Ítalíu, þaðan til Sviss og svo aftur til Frakklands. Dótið okkar var ferjað á milli staða a bílum en við vorum alltaf með smá nesti og aukaföt með okkur á daginn,“ segir Ása. 

Hvers vegna fórstu í þessa ferð?

„Þessi ferð sameinar bæði frí og áhugamál. Mér finnst rosalega gott að leyfa mér af og til að fara ein í frí og mér finnst gott að nýta frítímann minn í að gera það sem lætur mér líða vel. Að hlaupa úti í náttúrunni er það sem hjálpar mér helst að hlaða batteríin svo ég leit á þetta sem frábært frí fyrir mig ! Svo er gott að vera með eitthvað „hreyfimarkmið“ í gangi og þetta var mitt markmið á árinu, að vera í toppstandi í byrjun ágúst fyrir þessa ferð.“


Hvað stendur upp úr?  

„Gleðin í lok hvers dags þegar ég komst til byggða með bros á vor og fann að líkaminn var í góðu standi,“ segir hún. 


Hvernig undirbjóst þú þig fyrir ferðina?

„Ég er búin að vera að hlaupa síðastliðin ár með Náttúruhlaupum og æfi hlaup 2-3 x í viku. Ég undirbjó mig extra vel í sumar, bætti við mörgum Esjuferðum og lengri hlaupum en áður. Svo þurfti aðeins að bæta í græjupokann, kaupa silkisvefnpoka fyrir skálagistinguna,  nýja skó, hlífar og fleira enda margir dagar á hlaupum. Svo undirbjó ég matinn sem ætlaði að nota á hlaupum, gel, orkustykki og fleira enda ekki gott að borða eitthvað nýtt í svona aðstæðum.“


Var þetta erfitt?

„Já, auðvitað var þetta stundum erfitt. En sem betur fer var ég búin að undirbúa mig vel og gat því alltaf haldið áfram. Ég er hins vegar ekki vön svona skálalífi. Ég á til að vera gikkur varðandi mat og er smá háð góðu kaffi. Mér fannst því eiginlega erfiðast að eiga við óvissuna um náttstað kvöldsins! Hvort ég gæti borðað matinn, hvort ég kæmist í sturtu eftir 25 km hlaup í 25 stiga hita og þar fram eftir götunum. Við vorum mörg að lenda í því að geta ekki sofið á nóttunni og það var erfitt fyrir hausinn. Ég varð aðeins stressuð yfir því hvort ég gæti nokkuð hlaupið svona ósofin en svo hafðist það bara!“

Hvernig varstu búin fyrir ferðina?

„Ég tók með mér góð hlaupaföt sem ég er vön að hlaupa í. Aðalgræjan er hlaupavestið sem við notum alla daga til að geyma aukaföt ef það skellur á vont veður, drykki og mat. Svo eru góðir skór auðvitað aðal atriðið til að þola svona marga langa daga. HOKA skórnir mínir eru eina parið sem ég tók með og þeir voru jafn dásamlegir alla daga. Við vorum heppin með veður, oftast bara sumar og sól, en það kom fyrir að við lentum í íslensku slagveðri, þrumum og eldingum og þá var gott að vera alltaf með góðan jakka og vindbuxur á bakinu.“

Hvað þurfa svona fjallaskokkarar að hafa í huga?

„Það þarf að þekkja vel leiðina sem á að hlaupa. Ég var með Elísabetu Margeirsdóttur með mér sem þekkir leiðina vel svo ég gat elt hana. Annars þarf maður að vera með „track“ af leiðinni í úrinu til að koma í veg fyrir að villast. Svo er það bara nesti og nýir skór! Góð orka og rétt föt fyrir allskonar veður.“Hvað borðaðir þú í ferðinni?

„Við gistum í nýjum skála á hverjum degi. Við fengum því morgunmat og kvöldmat í skálum á kvöldin. Þar var bara einn réttur í boði og eins gott að borða vel. Við vorum ótrúlega heppin með mat, fengum ágætan mat öll kvöld. Kalkún, baunasúpu, pottrétti og fleira. Svo var mjög einfaldur morgunmatur í boði og misgott kaffi. Yfir daginn á meðan við vorum að hlaupa borðaði ég bara GU orkugel og allskonar „orkubari“. Svo er ég alltaf með litinn poka með hnetum og súkkulaðirúsínum til að maula á. Þegar við kláruðum ferðina og komum til Chamonix var dásamlegt að fá sér góðan mat því þar er allt fullt af flottum veitingastöðum.“

Þarf fólk að vera í mjög góðu hlaupaformi til að geta gert þetta?

„Já, ég myndi ekki ráðleggja neinum að fara í þetta ferðalag nema æfa vel. Það er auðvitað alltaf hægt að labba og mjög margir sem eru að gera það. En ef manni langar að hlaupa þarna yfir langa beina kafla og niður æðislegar brekkur, þá er eins gott að vera búin að æfa sig í því. Það er mikil hækkun alla daga, í samanburði við Esjuna til dæmis þá fórum við 1-3 Esjur á dag. Eftir mikið brölt upp þarf maður alltaf að vera vel stemmdur í að halda áfram og hlaupa langa kafla. Flesta dagana fórum við 22-26 km ásamt því að klifra langar brekkur. Svo er vandasamt að hlaupa niður langar brattar brekkur í lok dags þegar þreytan er farin að segja til sín.“


Hvað fékkstu út úr þessu ferðalagi?

„Ég fékk dásamlega góða hvíld fyrir hausinn, en mér finnst þetta besta leiðin til að hvíla hausinn og á sama tíma safna orku. Að hlaupa lengi úti í náttúrunni í marga daga í röð. Þetta er rosalega gott jóga, ef ég má nota það orð! Það var mjög gaman að sjá Alpana í sumarbúningi. Ég hef verið þar á skíðum en það er magnað að sjá alla þessa fjallafegurð í grænu litunum.“


Hefur þú farið áður í slíkar ferðir?

„Ég hef aldrei farið í hlaupaferð og hef ekki hlaupið svona marga km í marga daga í röð. Ég hef farið í hjólaferðir og skíðaferðir í viku og finnst það frábært. Mér datt satt að segja ekki í hug að þetta væri hægt, að hlaupa á hverjum degi í 6 daga! Það kom mér mjög á óvart hvað líkaminn var alltaf vel stemmdur fyrir ný ævintýri á morgnana.“

Hverjar eru þínar uppáhaldshlaupaleiðir á Íslandi?

„Ég er svo heppin að hafa stundað æfingar hjá Náttúruhlaupum síðastliðin tvö ár og sá hópur hefur dregið mig á nýjar slóðir. Mér finnst magnað að hlaupa á Reykjanesi, í sumar fór ég frá Hellisheiðavirkjun yfir á Nesjavelli sem er stutt frá bænum og rosalega falleg leið. Ég hef hlaupið hluta af Vesturgötunni sem er einstök leið og ég hlakka til að hlaupa aftur. Laugavegurinn er í uppáhaldi og svo auðvitað ríkishringurinn góði í Heiðmörk, hann klikkar aldrei.“


Hvert er næsta markmið

„Ég reyni að vera bara með eitt í gangi í einu. Þetta var mitt eina markmið á þessu ári og ég er voða glöð að hafa  náð því og að allt hafi gengið vel. Nú ætla ég að slaka aðeins á og kannski bara byrja að horfa aðeins á sjónvarpið! Ég er lítið fyrir öfgar og vil ekki hafa margt í gangi hverju sinni. En eg veit að það er stutt í að ég finni mér eitthvað nýtt til að æfa fyrir. Hvort það verði maraþonhlaup, þríþraut, gönguskíðakeppni, fjallahlaup eða bara eitthvað annað, það kemur í ljós á á næstu vikum eða mánuðum.“

mbl.is