Keypti Spánarferð með 15 klukkustunda fyrirvara

Gunnar Sverrir Ásgeirsson og Gígja Þórðardóttir á Mallorca.
Gunnar Sverrir Ásgeirsson og Gígja Þórðardóttir á Mallorca.

Gígja Þórðardóttir deildarstjóri sjúkraþjálfunar Hrafnistu og eigandi Allra meina bót elskar ferðalög sem innihalda hreyfingu og útivist. Hún segir að fátt toppi það að sameina frí og hreyfingu. 

Hvernig ferðatýpa ert þú?

„Ferðalög mín hafa verið af ýmsum toga í gegnum ævina bæði innanlands og utan og ég held að áherslurnar hafi breyst töluvert. Áður en ég eignaðist börnin mín var mest um æfinga- og keppnisferðir en stærsta ferðin með foreldrum mínum var Evrópureisa sumar 1981 eftir ársdvöl í Noregi. Á fullorðinsárum tóku svo við þessar týpísku borgarferðir, útilegur, bústaðir og fjölskylduferðir en ég var svo heppin að foreldrar mínir bjuggu í 14 ár í Bandaríkjunum og Barbados og við fórum oft í heimsókn til þeirra og ferðuðumst innan þessara landa. Síðustu misseri hef ég leitað meira og meira í nærandi ferðir fyrir líkama og sál svo sem jóga á Bali og hjólaferðir á Spáni og ég myndi segja að ég sé að umbreytast í hreyfiferðafíkil. Það má ekki gleyma öllum töfrandi stöðunum hér heima á Íslandi og ég hef gert meira og meira af því að hjóla, ganga og skíða hér í geggjaðri náttúru. Náttúran núllstillir mig og heilar,“ segir Gígja. 

Skipuleggur þú ferðalög með miklum fyrirvara eða ertu hvatvís þegar þú ferð í ferðalög?

„Ég hef ekki oft skipulagt ferðir með miklum fyrirvara en það er þá helst ef maður er að fara með hóp eða á skipulagða viðburði erlendis eins og tónleika og þessháttar. Stuttur fyrirvari hentar mér alveg eins vel. Núna síðast keyptum við ferð til Spánar með 15 klukkustunda fyrirvara fyrir alla fjölskylduna og sú ferð var frábær. Oft eru lítið skipulagðar ferðir skemmtilegastar og ég hef tvívegis farið í algjörar óvissuferðir erlendis, aðra til Parísar og hina á Madonnutónleika í Frankfurt.“

Hvert er besta frí sem þú hefur farið í?

Það eru eiginlega 3 ferðir sem standa upp úr af mismunandi ástæðum.

„Fyrsta er fjölskylduferð til Barbados 2005 þar sem við eyddum jólunum á heimili foreldra minna, ferðuðumst á einkasnekkju, köfuðum í kóralrifjum, syntum með risaskjaldbökum og nutum þess sem þessi paradísareyja í karabíska hafinu hefur upp á að bjóða. Foreldrar mínir voru líka höfðingjar heim að sækja og stjönuðu við okkur.

Næsta er vinkonuferð til Bali 2016 þar sem við fórum í jóga og hugleiðslu, heimsóttum spákonu, létum dekra við okkur í mat, drykk og snyrtimeðferðum og nutum félagsskapar hverrar annarrar. Þetta var mín önnur ferð til Bali og ég vona að ég geti farið aftur til þessarar ævintýraeyju.

Síðast en ekki síst eru tvær hjólaferðir til Spánar síðasta vetur með kærastanum og fleira fólki sem voru orkumiklar, skemmtilegar og út fyrir boxið mitt. Ég fékk hjól á síðasta ári og þessar hjólaferðir kveiktu áhuga minn á þessu skemmtilega sporti og nú er ég búin að skrá mig í fleiri svona ferðir. Mér finnst alveg frábært að geta hreyft sig, heimsótt lítil þorp og fallega staði hjólandi og ögrað sjálfum sér. Maður kemur endurnærður heim.“

Hvað einkennir gott ferðalag?

„Góður félagsskapur, náttúra, gleði, gott veður, áskoranir og ekki of stíf dagskrá.“

Hver er þín flugrútína?

„Ég er svo sem ekki beint með rútínu en mér finnst mikilvægt að vera í þægilegum fatnaði og skóm og er alltaf með ullarsokka með mér, tannbursta, lesefni og heyrnartól og svo passa ég að drekka mikið af vatni. Í lengri flugum þá passa ég líka að standa upp og hreyfa mig eða gera léttar blóðrásaræfingar í sætinu.“

Kanntu að pakka létt?

„Ég er alltof gjörn á að taka of mikið með mér en er að læra smátt og smátt að taka með eins lítið og ég get og velja þá hluti sem ég get raðað saman, jafnvel notað bæði á daginn og kvöldin. Það er ótrúlega oft þannig að maður leitar í sömu fötin aftur og aftur og þá með þægindi í fyrirrúmi. Svo er ákveðið frelsi í að hafa lítið af snyrtidóti með og þar sem ég er farin að hugsa meira um andlega heilsu og jákvætt hugarfar þá hef ég tekið HAPPY BOXIÐ mitt með mér í ferðalög en það er ótrúlega gefandi að draga nýtt spil á hverjum degi og stilla hugann á gleði og jákvæðni.“

Hvert dreymir þig um að fara?

„Mér finnst ótrúlega gaman að ferðast og skoða nýja staði og drekka í mig stemmningu og menningu hvers lands og ég er svo hrifnæm að það er í raun alveg saman hvert maður fer. Maður getur alltaf upplifað eitthvað nýtt. Mig dreymir samt meira um þrjú lönd þessa dagana en aðra og þau eru Japan, Ítalía og Indland. Japan vegna framandi menningar, sögu og landslags. Ítalíu vegna matarins, hreyfimöguleika (hjóla, fjallgöngur og skíði) og tungumálsins en ég hef alltaf verið heilluð af ítölsku. Indland er mekka jóga og núvitundar og ég myndi vilja fara þangað í heilsuferð og læra meira í jóga og læra fleiri aðferðir til að núllstilla hugann og endurheimta orku. Svo má ég nú til með að bæta því við að mig langar mikið að fara í gönguskíðaferð til Norðurlandanna og er þessa dagana að skoða hvað er í boði fyrir byrjanda eins og mig.“

Hér er Gígja með dætrum sínum í Bandaríkjunum.
Hér er Gígja með dætrum sínum í Bandaríkjunum.
Hér er Gígja á Balí með vinkonum sínum.
Hér er Gígja á Balí með vinkonum sínum.
Það er hægt að stunda jóga allsstaðar. Líka á fjalli.
Það er hægt að stunda jóga allsstaðar. Líka á fjalli.
Gígja á hjólinu á Spáni.
Gígja á hjólinu á Spáni.
Gígja tekur Happy boxið með sér á ferðalög.
Gígja tekur Happy boxið með sér á ferðalög.
Á Balí með vinkonum sínum.
Á Balí með vinkonum sínum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert