Miðaldra konan stefnir á hálfan járnkarl

Hjalti G. Hjartarson hjólaþjálfari og Ásdís Ósk Valsdóttir.
Hjalti G. Hjartarson hjólaþjálfari og Ásdís Ósk Valsdóttir.

„Um leið og Jökulsárhlaupinu lauk tók við ákveðið tómarúm. Ég var ekki byrjuð að æfa með Þríþrautafélagi Kópavogs þannig að til að halda mér við efnið ákvað ég að setja upp mjög metnaðarfullt plan í excel með hlaupum, fjallgöngum og sundi. Ég prófaði loksins sjósund fyrir alvöru og fann mig mjög vel í því, reyndar mun betur en ég átti von á því,“ segir Ásdís Ósk Valsdóttir, fasteignasali og miðaldra kona, í sínum nýjasta pistli: 

Fyrst þegar ég fór í sjósund þá var það með Landvættum fyrr á þessu ári. Ég var eitthvað illa stemmd, fannst alltof kalt, og bleytti mig í svona 30 sekúndur. Ákvað að þetta væri ekki alveg fyrir mig og best væri að leita annarra leiða til að æfa mig fyrir Urriðavatnssundið. Ég fór tvisvar í sund og synti bringusund þar sem skriðsund og ég eigum ekki alltaf samleið.  Skellti mér líka nokkrum sinnum í fjallgöngu, bæði með kærastanum og krökkunum. 

Reykjavíkurmaraþonið var framundan og ég tók nokkur æfingarhlaup. Það verður hins vegar að játast að frábæru excel-skjölin mín með metnaðarfullu æfingarplönunum urðu aldrei meira en tölur í fallegum dálkum og röðum. Sannleikurinn er sá að ég á gífurlega erfitt með að halda æfingafókus ef það er ekkert plan.  Ég þarf að hafa einhverja gulrót á endanum.  Ég fer á æfingu af því að það er skipulögð æfing eða það er einhver keppni framundan.  Ég fékk nett áfall þegar ég áttaði mig á því að járnaginn sem ég var búin að sannfæra mig um að ég hefði tileinkað mér var meira í orði en á borði. Litla stálmúsin var frekar lin inn við beinið eftir allt saman. 

Reykjavíkurmaraþonið gekk mjög vel, mun betur en ég reiknaði með og ég náði mínum allra besta tíma í 10 km hlaupi eða 58.49 sem þýddi hækkun um 1.621 sæti á milli ára.  Eftir Reykjavíkurmaraþonið tók síðan aftur við ákveðið tómarúm og ég átti frekar erfitt með að halda mig við efnið.  Þetta tómarúm er víst vel þekkt meðal keppnisfólks og heitir einfaldlega hlaupaþunglyndi eða „post race depression.

Hvernig er hægt að undirbúa sig andlega undir æfingar fyrir hálfan járnkarl?

Það voru enn þá nokkrar vikur þar til æfingar með Þríþrautafélagi Kópavogs myndu hefjast og ég ákvað að nýta tímann í andlegan undirbúning.  Pantaði mér einkatíma hjá Hákoni Jónssyni sundþjálfara, sem er snillingur á sínu sviði enda þekktur sem sundhvíslarinn.

Ég var orðin ansi stressuð fyrir tímann. Ég var ekki búin að synda skriðsund í marga mánuði og sannfærð um að ég væri búin að tapa kunnáttunni. Ég var svo sannfærð að þegar ég byrjaði að synda aftur eftir að ég losnaði við gifsið þá synti ég bara bringusund. Nennti ekki að göslast um eins og drukkinn hvalur. Ég mætti í fyrsta tímann. Skildi 10 ára dóttur mína eftir heima sem var búin að bjóða 10 vinkonum sínum í stelpupartí og vonaði að húsið myndi enn þá standa þegar ég kæmi heim. 

Tíminn hjá Hákoni gekk vonum framar. Hann leiðrétti nokkrar sundvillur og lagfærði tæknina. Ég fann sundgleðina og allt í einu hlakka ég til að fara í sund. Eitthvað sem ég hélt að myndi aldrei gerast. Það er ár í hálfan járnkarl og ég er peppuð. Þvílíkur lúxus sem það er. Ég hlakka til að fara að æfa, eitthvað sem ég var orðin ansi stressuð fyrir. Ég er búin að vera að ströggla við sundið í heilt ár og sannfæra mig um að ég geti það ekki þegar það eina sem ég þurfti að gera var að panta nokkra einkatíma hjá Hákoni til að finna gleðina. Þarna gæti einhver spurt, hvers vegna fannstu ekki gleðina í sundtímunum hjá Hákoni? Hann er jú sundþjálfarinn hjá Breiðablik og þú varst í tímum hjá honum þrisvar í viku í allan vetur. Jú, það er mögulega vegna þess að ég mætti ekkert sérstaklega vel. Ég þurfti að selja mér að mæta í hvern einasta tíma. Ég mætti ekki af því að mig langaði svo mikið að synda heldur af því að ég varð að læra að synda fyrir Urriðavatnið. Ég fór tilneydd en ekki af löngun. Þegar þú nærð að sjá ljósið þá verður allt svo miklu léttara, alveg eins og með allt annað.  Hákon vildi reyndar meina að hluti af mínu árangursleysi síðastliðinn vetur tengdist eitthvað lélegri mætingu.

Fyrstu helgina í september keppti mjög stór hópur af Íslendingum í hálfum járnkarli í Austurríki. Ég þekkti svona helminginn af þeim. Það segir nú ansi mikið um í hvernig félagskap ég er komin. Fyrir nokkrum árum vissi ég ekki einu sinni hvað hálfur járnkarl var, hvað þá að ég myndi þekkja fólk sem keppti. Ég þekkti jú ekkert skrýtið manískt fólk. Ég er búin að lesa keppnissögurnar þeirra, fylgjast með undirbúningnum þeirra og get ekki beðið eftir að verða ein af þeim.

Ásdís Ósk ásamt Sigrúnu Tinnu og Viktori Loga í Globathon …
Ásdís Ósk ásamt Sigrúnu Tinnu og Viktori Loga í Globathon hlaupinu.

Þetta er ekki mín keppni, þetta er þín keppni

1. september skellti ég mér í Globathon-hlaupið með Sigrúnu Tinnu 10 ára dóttur minni og Viktori Loga 17 ára syni mínum. Við ákváðum að hlaupa 5 km og hlaupa saman sem fjölskylda. Ég var ennþá á bleiku skýi eftir Reykjavíkurmaraþonið og vildi ná góðum tíma.  Sigrún Tinna var að hlaupa sitt annað 5 km hlaup á ævinni. Fyrsta hlaupið hennar var Litahlaupið þá um sumarið. Við lögðum af stað og ég fann að ég átti nóg inni. Viktor stakk okkur fljótlega af enda þarf hann bara að taka 1 skref á meðan Sigrún Tinna tekur 10 skref, a.m.k. þegar lappalengd er borin saman. Eftir smátíma fór sú stutta að finna fyrir hlaupasting. Mamman, enn þá mjög peppuð, sagði, gefum bara allt í þetta. Þú getur svo miklu meira en þú heldur. Eftir smátíma leit sú stutta á mig og sagði, mamma þetta er þín keppni, ekki mín keppni. Þetta var heldur betur góð áminning. Við ætluðum nefnilega að njóta en ekki þjóta.  Af öllum ætti ég að skilja hvernig er að byrja. Vita að þú þarft þinn tíma, sérstaklega ef planið er að fá þig til að koma aftur seinna.

Loksins byrja hjólaæfingarnar aftur

24.9. 2019 var svo loksins komið að því. Fyrsta innihjólaæfingin og ég var meira en tilbúin að mæta.  Ég er nefnilega þrusugóður hjólari með frábært úthald eftir öll hlaupin í sumar og þó að ég hafi misst af nokkrum hjólaæfingum í sumar eftir að ég fór óvart í gifs þá vissi ég að það var nú ekki að fara að hafa nein áhrif.  Ég beið við tölvuna kl. 12.30 á mánudeginum og skráði mig á hjól.  Vissi reyndar strax að það yrðu ákveðin vandamál þar sem hjólið sem ég notaði í fyrra var komið á annan stað og ég nennti ekki að vera út í horni.  Ákvað að það yrði nú lítið mál að tengja þetta blessaða Garmin-úr við nýtt hjól og fór að telja niður í tímann.

Það var lítið mál að vakna kl. 05.00 og græja mig fyrir æfingu. Fann reyndar ekki salinn strax þar sem það var búið að flytja hann en við vorum nokkur týnd saman þannig að þetta reddaðist.  Fór á hjólið sem ég pantaði og reyndi að stilla úrið.  Það gekk ekki neitt.  Spurði ráða hjá nokkrum en enginn gat tengt blessað úrið.  Ég íhugaði að tengja mig bara samt við hjól nr. 7 og sjá hvað viðkomandi hjólari gæti. Þetta var hjólið sem ég notaði í fyrra og úrið mitt var tengt því.  Ég gæti svo notað það sem viðmið í bætingu í vetur.  Það plan fauk út um gluggann á núll einni þegar ég sá að Hjalti hjólaþjálfari var á hjóli nr. 7.  Ef ég vildi drepa niður allt sjálfstraust þegar kemur að bætingu og úthaldi þá kannski væri það pottþétt góð hugmynd.  Ég gæti svo sem líka hækkað líftrygginguna mína því ég myndi án efa drepa mig ef ég ætlaði að bæta mig nógu mikið til að ná Hjalta.  Hvorugt virkaði sem góður kostur og mig langaði minna en ekkert að bera saman hjólatímana okkar Hjalta og slökkti því á úrinu.  Ég settist á hjólið og skórnir festust sjálfkrafa.  Það sem þetta var allt að ganga dásamlega vel.  Þegar ég byrjaði í fyrra, þá tók það mig mánuð að læra að festa skóna.  Svo yrði fyrsti tíminn þægilegur, það er alltaf svona létt upprifjun.  Fara yfir hvað við heitum og svona, rifja upp hjólatækni og almenn gleði. Já einmitt. Ég var eitthvað að misskilja þennan rólega tíma.

Þegar tíminn var hálfnaður var ég alveg búin á því. Mig fór að gruna að það væru of margir skráðir í hjóladeildina og því hefði verið brugðið á það ráð að hafa útsláttarkeppni, einhvers konar Survivor.  Þeir sem geta ekki klárað fyrsta tímann detta út.  Held að sama tækni sé notuð í læknadeildinni og lögfræðinni. Ef þú nærð ekki klásus þá færðu ekki að vera með.  Ég ákvað því að hanga út tímann og reyndi að rýna í skjáinn sem er þarna hinum megin í salnum. Ég er sko aftast í salnum.  Miðaldra konur hafa um tvennt að velja. Vera fremstar og sjá á skjáinn og leyfa öðrum að njóta bakendans eða vera aftast og giska hvað stendur á skjánum. Það er svo skrýtið að því eldra sem fólk verður því minna letur er notað á öllum skjáum. Hef aldrei skilið þetta. Hins vegar sá ég um miðjan tíma að það stóð stórum stöfum, 9 km „left of trial. Þetta gladdi mig ógurlega. Það var engin leið að við gætum klárað tímann, prufuútgáfan væri löngu búin með kílómetrana sína. Allt í einu stoppar kerfið og ég gladdist mikið en það var í svona 20 millisekúndur, þá setti Guðmundur hjólaþjálfari allt í gang aftur.  Stóra planið féll heldur betur þarna.  Daginn eftir æfingu áttaði ég mig svo á því að ég var ekki bara búin að detta úr formi að hjóla. Ég var líka búin að detta úr formi að sitja á helvítis hjólahnakknum.

Hvernig er hægt að detta úr formi á núlleinni?

Ég náði að klára tímann og fór aðeins yfir stöðuna. Hvernig í ósköpunum gat ég hafa dottið svona niður í formi. Þetta voru örfáar vikur, eða hvað? Ég datt 2. júní og var sett óvart í gifs. Ég fór úr gifsi 14. júní. Þá tóku við nokkrar vikur í endurhæfingu út af gifsinu.  Það var svo ekki fyrr en um miðjan júlí sem ég fór aftur að hjóla. Fyrsta daginn var ég keyrð niður. Ég var að hjóla niður götuna mína þegar bíll sem var einn á götunni keyrir upp að mér og þvingar mig upp að gangstétt þannig að ég féll. Ég lét það nú ekki trufla mig og fór aftur að hjóla 19. júlí.  Þá datt ég hressilega á leiðinni upp brekku og leit á það sem merki um að taka mér útihjólapásu og einbeita mér frekar að hlaupum þannig að þessar örfáu vikur sem ég missti út voru þegar upp var staðið 16 vikur. Lexían er að það er miklu auðveldara að fara úr formi en að koma sér í form. Hinsvegar er fljótlegra að koma sér aftur í form en að byrja frá grunni þannig að ég hef litlar áhyggjur af vetrinum.  Ég hef nefnilega reynsluna núna, ég kann að koma mér í form og ég veit að það er ótrúlega fljótt að koma, sérstaklega þegar kona á grunn til að byggja á.  Eina sem ég þarf að gera er að púsla saman, krökkunum, vinnunni, æfingum, kærastanum og félagslífinu og þá reddast þetta allt saman.  Er nú ekki kölluð excel-drottningin fyrir ekki neitt.

Best að vera verst á hlaupaæfingu

Fyrsta hlaupaæfingin var svo daginn eftir. Þetta var fyrsta formlega hlaupaæfingin með íþróttafélagi sem ég mæti í á ævinni. Hákon Hrafn er hlaupaþjálfari Þríþrautadeildar Breiðabliks.  Það er smágetumunur á okkur Hákoni. Hann hefur hlaupið síðan hann fæddist og ég hef hlaupið í rúmt ár. Á þessum tíma hef ég þó náð að bæta mig miklu miklu meira en Hákon á sama tíma og það er alltaf kostur.  Þar sem þetta var fyrsta hlaupaæfingin ákvað Hákon að þetta yrði rólegt og þægilegt hlaup.  Þarna kom berlega í ljós að skilgreiningin okkar Hákonar á rólegt og þægilegt er mögulega ekki alveg sú sama.  Ég náði að hanga í hópnum svona að mestu þar til við komum að himnastiganum.  Þetta verður rólegt.  Við tökum bara FIMM ferðir. Uss, ekkert mál, hugsaði ég. Ég á best 10 ferðir. Hákon talaði um að það væri best að taka aðra hverja tröppu. Þarna kom berlega í ljós annar smá munur á okkur Hákoni. Lappahlutfallið okkar er 1:2. Sem sagt ég næ honum eiginlega bara upp að hnjám.  Ég tók því hverja tröppu og hann aðra hverja. Eftir að hafa tekið hálfa ferð upp þá var ég eiginlega alveg búin á því þannig að ég breytti aðeins planinu. Ég gekk rösklega upp þar til rauði hlauparinn mætti mér í stiganum (hann var á leiðinni niður) og þá hljóp ég niður samhliða þeim. 

Við vorum að ræða aðeins um hlaupara á miðjum aldri. Þeir sem eru svakalega góðir og hafa verið lengi í hlaupum, þeirra helsta barátta er að missa ekki niður hraðann. Þeir sem byrja á miðjum aldri og jafnvel síðar, þeir eiga hins vegar inni gífurlega mikla bætingu, bæði í úthaldi og hraða. Ég á því fastlega von á því að vera valinn nýliði ársins hjá Þríþrautafélaginu, sá sem náði bestri hlutfallslegri bætingu á einu ári.  Ég tel ofmetið að velja alltaf þann sem er í alvörunni bestur.  Hann á hvort sem er nóg af verðlaunapeningum.

5 góð ráð fyrir allskonar íþróttafólk

1. Hvað sem þú gerir, ekki missa niður formið

2-5, endurtaka nr. 1

 

Októberæfingaplanið

 

 

01.10.19

ÞRI

05:55 - HJÓL OG BRICK

02.10.19

MIÐ

17:30 HLAUP

 

03.10.19

FIM

05:55 - HJÓL OG BRICK

19:30 - SUND

11:45 - SJÓSUND

04.10.19

FÖS

05.10.19

LAU

09:00 RUN

11:00 - SUND

06.10.19

SUN

09:00 - HJÓL OG BRICK

10:30  - FOAM FLEX

07.10.19

MÁN

19:30 - SUND

08.10.19

ÞRI

05:55 - HJÓL OG BRICK

OPIN HÚS

09.10.19

MIÐ

17:30 HLAUP

10.10.19

FIM

05:55 - HJÓL OG BRICK

19:30 - SUND

11:45 - SJÓSUND

11.10.19

FÖS

12.10.19

LAU

09:00 HLAUP

11:00 - SUND

13.10.19

SUN

09:00 - HJÓL OG BRICK

10:30  - FOAM FLEX

14.10.19

MÁN

OPIN HÚS

15.10.19

ÞRI

05:55 - HJÓL OG BRICK

16.10.19

MIÐ

17:30 HLAUP

17.10.19

FIM

05:55 - HJÓL OG BRICK

18.10.19

FÖS

FRÍ

19.10.19

LAU

FRÍ

20.10.19

SUN

FRÍ

21.10.19

MÁN

FRÍ

22.10.19

ÞRI

FRÍ

23.10.19

MIÐ

17:30 HLAUP

24.10.19

FIM

05:55 - HJÓL OG BRICK

19:30 - SUND

11:45 - SJÓSUND

25.10.19

FÖS

26.10.19

LAU

09:00 HLAUP

11:00 - SUND

27.10.19

SUN

09:00 - HJÓL OG BRICK

10:30  - FOAM FLEX

28.10.19

MÁN

19:30 - SUND

29.10.19

ÞRI

05:55 - HJÓL OG BRICK

OPIN HÚS

30.10.19

MIÐ

17:30 HLAUP

 

31.10.19

FIM

05:55 - HJÓL OG BRICK

19:30 - SUND

11:45 - SJÓSUND

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert