Miðaldra konan æfði 200 sinnum 2019

„Laugardaginn 2. nóvember 2019 náði ég því frábæra markmiði að vera búin með 200 æfingar á þessu ári.  Markmiðið er að klára 250 æfingar í ár og taka síðan 300 æfingar á næsta ári.  Það verður að viðurkennast að fyrir tveimur árum hefði ég flokkað fólk sem æfir oftar en þrisvar í viku undir maníska einstaklinga. Síðan breyttist ég í eina af þessum manísku manneskjum. Fleiri virðast deila þessari skoðun sem gamla ég hafði. Ég hef að minnsta kosti ekki lengur tölu á því hversu oft ég fékk þessa spurningu á fyrsta deiti.  Er örugglega allt í lagi með þig? ertu ekki pínu geðveik eða brjálæðislega manísk? æfir þú ekki alltof mikið? Þau deit gengu ekkert rosalega vel. Mér fannst það alltaf hálfgerður forsendubrestur þegar það var búið að greina mig geðveika á 5 mínútum,“ segir Ásdís Ósk Valsdóttir miðaldra kona og fasteignasali í sínum nýjasta pistli á Ferðavefnum:

Árið hefur að mestu verið frábært. Sumar vikur verið fullkomnar og allt gengið upp. Aðrar hafa verið strembnari og svo hafa komið vikur þar sem allt hefur klikkað. Þar má líklega hæst nefna þegar ég datt á hjóli og var ranglega greind með handleggsbrot og sett í gifs í 12 daga. Ég var fjórar vikur að jafna mig eftir gifsið þannig að í sex vikur æfði ég lítið. Sumarið fór því í aðra hluti en að æfa daglega. Það sem kom mér mest á óvart í því ferli, var hversu rosalega erfitt það var að koma sér aftur í gang. Ég fór t.d. ekki aftur á útihjól. Ákvörðun sem ég sé stórkostlega eftir núna þar sem ég veit að það verður átak að koma mér aftur í útihjólaform. Ég veit það því ég gerði það í vor og það var átak. Það þýðir hins vegar ekkert að ergja sig á mistökum fortíðar.  Þau eru liðin og á hverjum degi koma ný tækifæri sem við getum valið að nýta okkur eða ekki.

Ekki bera þinn fyrsta kafla við kafla tuttugu hjá næsta manni

Áður en ég tók ákvörðun um að breyta um lífstíl var ég stöðugt að bera mig saman við aðra.  Ég sá eiginlega engan tilgang í því að byrja, þar sem ég vissi að ég myndi aldrei verða nógu góð til að geta eitthvað af neinu viti. Auk þess var ég í engu formi og alltof þung. Þegar ég þó byrjaði (sem var ansi oft) þá setti ég mér rosalega háleit markmið sem kolféllu alltaf.  Ég ætlaði að sigra heiminn á núlleinni, komast í kjólinn fyrir jólin á 9 vikum þó að ég hefði tekið tíu sinnum lengri tíma í að bæta þeim á mig. Mér fannst nefnilega ekki taka því að gera eitthvað ef það tæki lengri tíma. Hver nennir að hreyfa sig daglega út ævina og borða alltaf hollt? Ég hef eiginlega ekki tölu á því hversu oft ég byrjaði að hlaupa. Reyndar gæti ég alveg tekið þetta saman þar sem Facebook Minningar minna mig mjög reglulega á öll skiptin sem ég byrjaði að hlaupa eða stunda aðra hreyfingu.

Nokkrum sinnum kláraði ég meira að segja 5 km hlaupaprógramm en svo ekki söguna meir.   Ég náði aldrei að halda áfram. Ég held að innst inni hafi mig bara ekki langað nógu mikið.  Það var ekki fyrr en ég vildi ekkert meira en að ná tökum á lífinu að þetta fór að ganga. Það var líka þá sem ég hætti að hlusta á aðra sem vissu betur. Aðra sem sögðu mér hver ég væri og hvað ég gæti. Aðrir voru samt ekki verstir. Ég var alltaf sjálfri mér verst. Ég var sú sem taldi mér trú um að ég gæti ekki gert þetta, að það þýddi ekki að reyna. Ég var sú sem var „góð“ við mig. 

Veistu, það er rigning úti, ég held að það sé betra að fara ekki út að hlaupa. Það er brjálað að gera í vinnunni, þú þarft að vinna áfram. Þú getur ekki farið í hlaupahóp seinni partinn, þú þarft að vinna.  Ég var sú sem laug mest að mér.  Það er allt í lagi að sleppa þessari æfingu, þú getur alltaf farið á morgun.  Eins og hendi væri veifað liðu svo 3 mánuðir og á morgun kom aldrei. Þá tók við tímabil þar sem ég sannfærði mig um að það þýddi ekkert að fara aftur af stað, ég væri hvort sem er búin að klúðra þessu.  Auk þess væri miklu notalegra að kúra undir teppi og slaka á. Ég var hvort sem er of þreytt til að byrja að æfa. Það er of mikið að gera í vinnunni. Ég byrja á morgun. Í dag spyrja margir hvernig ég nenni að æfa svona mikið. Svarið er einfalt. Af því að ég get það. Það er alltaf gjald sem þarf að borga.  Gjaldið að leggja vinnuna á sig núna eða gjalda með lélegri lífsgæðum seinna meir.  Mig langaði ekki lengur að vera þreytta fúla mamman sem hafði enga orku. Geta ekki sinnt barnabörnunum þegar þau kæmu. 

Í dag vildir þú óska að þú hefðir byrjað fyrir ári

Tíminn liður hratt á gervihnattaöld. Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt og það eru einhvern veginn alltaf að koma jól. Ansi oft hugsaði ég, oh, ég vildi óska þess að ég hefði byrjað að hreyfa mig fyrir ári síðan, þá kæmist ég pottþétt í kjólinn fyrir jólin. Hætti svo að pæla í þessu, fékk mér aðra kökusneið og ákvað að byrja strax eftir áramót. Það er miklu betra að gera fyrst góð áramótheit og byrja svo. Vita hvert ég er að stefna. Einmitt, eins og það megi ekki alveg eins gera nóvemberheit.

Það var eitthvað svo viðeigandi að æfing nr. 200 væri með Möggu vinkonu. Hún var kletturinn minn þegar ég var að byrja að hlaupa. Hún fór með mér í fyrsta 5 km hlaupið mitt sem var Suzukihlaup í júní 2018. Hún fór líka með mér í fyrsta Reykjavíkurmaraþonið mitt þar sem ég hljóp fyrstu 10 km mína. Það hlaup er eitt það erfiðasta sem ég hef gert á ævinni (og ég hef fætt þrjú börn...) Mér leið illa megnið af hlaupinu. Ég var andstutt og með hlaupasting og mér fannst hlaupið vera óendanlegt. Ég náði reyndar að taka smá lokasprett þegar ég sá að það yrði raunhæft að fara undir 70 mínútur og gaf í. Þegar ég kom í mark þá hefði mátt taka mig upp með kíttisspaða. Mér var flökurt og það voru úttútnaðar æðar á enninu á mér sem ég vissi ekki einu sinni að ég hefði.  

Laugardagsæfingin sem við Magga tókum var hægt og rólegt hlaup í Heiðmörkinni.  Við hlupum 10 km á 70 mínútum. Ég fór að hugsa um vegferð mína á einu ári. Á rétt rúmlega ári þá fór ég úr því að æla næstum því þegar ég var rúmlega 66 mínútur að hlaupa 10 km á malbiki í það að flokka utanvegarhlaup (sem er erfiðara) í hægt og rólegt á 70 mínútum. Ég er gífurlega þakklát fyrir að hafa farið í þessa vegferð og allt sem ég hef náð að gera á einu ári. Það var samt fullt sem ég náði ekki að klára.  Ég kláraði ekki Landvættinn.  Ég synti ekki Urriðavatnssundið.  Ég mætti ógeðslega sjaldan á sundæfingar.  Ég hætti að hjóla úti.  Ég borða ekki alltaf rétt.

Þú getur svo miklu meira en þú heldur

Þegar ég skráði mig í Þríþrautardeild Breiðabliks í fyrra tók ég strax ákvörðun að mæta ekki á eina einustu hlaupaæfingu. Ég sá engan tilgang í því. Þau eru nefnilega miklu miklu betri en ég. Ég hljóp ein og það gekk alveg ágætlega. Ég mætti í Garpasundið (eiginlega sorglega sjaldan samt) og hélt mig á byrjendabrautinni. Til hvers að fara á aðra braut.  Ég er ekki nógu góð. Skort á framförum mátti samt að mestu leiti rekja til æfinga- og áhugaleysis.  Mér fannst skriðsund alveg drepleiðinlegt. Mér fannst þetta erfitt og ég gat þetta ekki. Það tók mig 3 mánuði að geta synt 50 metra skriðsund án þess að þurfa að stoppa á leiðinni, 3 mánuði. Eina ástæðan fyrir því að ég gafst ekki upp var sú að ég var búin að skrá mig í Landvættina og ég yrði að geta synt skriðsund ef ég ætlaði að klára Urriðavatnssundið.  Í haust þegar prógrammið byrjaði aftur hjá Þríþrautafélaginu þá mætti ég á allar æfingar hjá þeim (eða sko flestar). Ég mæti á hlaupaæfingar og það eru flestir betri en ég. Það er samt allt í lagi því ég er ennþá að bæta mig. Ég geri mitt besta og allt í einu áttar þú þig á því að þú getur miklu meira en þú hélst. Þetta minnir mig á þegar ég bjó í Honduras og horfði á sápuóperur með litla bróður mínum daglega eftir skóla.  Ég skildi aldrei orð af því sem var sagt.  Einn daginn áttaði ég mig á því að ég skildi þáttinn og hafði líklega skilið í einhvern tímann. Það bætti samt ekki gæði þáttanna. Það tekur einfaldlega stundum smá tíma að tengja saman. Það voru 2 æfingar þennan laugardag. 

Fyrst 10 km hlaup og svo var sundæfing. Ég ákvað að synda á þríþrautabrautinni.  Þau eru líka öll miklu betri en ég.  Ég er ennþá að berjast við smá eymsli í hendinni eftir gifsið (ég veit, pínu klikkað) þannig að ég mæti og geri mitt besta.  Núna ákvað ég að taka mjög létta æfingu, langaði að sjá hvar ég stend.  Ég er búin að setja mér markmið að geta synt á pace 2.50. Hvers vegna? Af því að ég hef aldrei komist undir 3,0 og það fer óskaplega í taugarnar á mér.  Ég synti því 1 km til að sjá hvar ég var hraðalega. Ég var mjög hæg. Ég synti 1 km á 37.09 mínútum sem þýðir pace 3:42. EN fyrir ári síðan gat ég ekki synt 50 metra án þess að stoppa. Núna gat ég synt 1 km. Í dag vildir þú óska að þú hefðir byrjað fyrir ári.  Ég verð að viðurkenna að mér finnst Hákon Jónsson sundþjálfari hafa fengið stutta stráið í þessu máli.  Þríþrautadeildin er komin með nýjan þjálfara Sigurð Ragnarsson.  Hann fær konu sem er full áhuga og vill bæta sig.  Hákon hafði konu sem mætti þegar hún fann ekkert annað betra að gera.  Ekki alveg samanburðarhæft.

Þarf ég að vinna hálfan járnkarl?

Þríþrautadeildin er að fara í æfingaferð í júní á næsta ári til Þýskalands.  Ég ætla með, því ég er sannfærð um að þetta sé frábært stöðutékk á því hvað ég get.  Síðan ég byrjaði að æfa þá hef ég nýtt allar keppnir sem ég kemst í sem undirbúning fyrir aðalkeppnina.  Þetta er í raun æfing í að læra að keppa.  Ég ætla í Ólympíska þríþraut þar sem ég held að hún sé frábær undirbúningur fyrir hálfan járnkarl.  Ólympísk þríþraut er ekki nema 1.500 m sund, 36 km hjól og 10 km hlaup á meðan hálfur járnkarl er 1.900 m sund, 84 km hjól og 21 km hlaup. Ef ég mætti ráða þá myndi ég stytta sundið og lengja hjólið og hlaupið en það er víst ekki hægt að stjórna öllu.  Ég var að ræða þetta við eina í pottinum. Málið er að ég er ekki að gera mér væntingar um einhverja sigra í hálfum járnkarli. Eina manneskjan sem ég ætla að sigra er ég sjálf.  Þó að ég yrði í síðasta sæti í keppninni þá yrði ég samt sigurvegari því ég er að geta meira en ég hefði nokkurn tímann ímyndað mér að ég gæti þegar ég lagði af stað í þessa vegferð. Það er held ég sorglega algengt að fólk leggur ekki af stað af því að það vill ekki vera síðast. Mitt markmið er reyndar alltaf þegar ég legg af stað í nýjar áskoranir að vera ekki í hópi neðstu 10% og ég ætla að halda mig við það. 

Er glasið hálf fullt eða hálf tómt.

Ég er með mjög metnaðarfull markmið fyrir næsta ár. Ég ætla að klára Landvættinn. Ég ætla að hlaupa Laugaveginn. Ég ætla að klára hálfan járnkarl. Ég ætla að hlaupa maraþon. Eru þetta raunhæf markmið?  Ég hreinlega veit það ekki. Ég veit hinsvegar að þau eru raunhæfari en þegar ég skráði mig í Landvættinn og framundan var 50 km skíðaganga þegar ég hvorki átti gönguskíði né hafði nokkurn tímann stigið á þau. 60 km fjallahjólakeppni þegar ég átti hvorki hjól né hafði hjólað úti í áratugi. 33 km utanvegahlaup þegar ég hafði mest hlaupið 10 km og 2.500 m vatnasund þegar ég kunni ekki skriðsund. Ég veit hins vegar af eigin reynslu að það að taka ákvörðun er 80% af verkefninu.  Mantran mín, ekki hugsa, bara gera hefur komið mér ansi langt. Taka ákvörðun, skrá mig í mótið og finna svo út úr þessu seinna.  Eins og Hilda vinkona segir svo oft.  Við leggjum af stað, setjum annan fótinn fram fyrir hinn og endurtökum það þar til við komum í mark. 

Það eru alltaf 2 leiðir til að skoða allt. 

Horfa á hálftóma glasið og öll mistökin. Allt sem þú náðir ekki að gera. 

Horfa á hálffulla glasið og vera sáttur við allt sem þú náðir að gera. 

Stundum nenni ég ekki á æfingar, jafnvel 2 daga í röð. Það er allt í lagi vegna þess að ég tek ákvörðun um að gera það ekki. Stundum borða ég ruslfæði allan daginn. Það sem ég passa að gera er að fara ekki í massíft sjálfsniðurrif hvers konar aumingjaskapur þetta er að fara ekki á æfingu eða borða vitlaust. Enginn er fullkominn en ef við reynum okkar besta og munum að það kemur alltaf nýr dagur á morgun þá gengur allt betur. 

Það sem skiptir máli er að vita hver þú ert og hvert þú vilt stefna. Álit og skoðanir annarra skipta engu máli. Þú skrifar þína bók og þinn kafli getur aldrei verið eins og kafli næstu manneskju. Alveg sama hver fortíðin er þá færð þú nýtt tækifæri á hverjum degi til að endurstilla þig. Okkar á milli þá má alveg byrja upp á nýtt eins oft og þarf.  Það er alltaf betra en að sannfæra sig um að það sé of seint að gera breytingar. 

Það er aldrei of seint og við erum aldrei of gömul.

HÉR er hægt að fylgjast með Ásdísi á Instagram:

 

 

 

mbl.is