Sveitt og skítug á Spáni

Spartan-hlaupið er haldið víðs vegar um heiminn. Alltaf er hlaupið …
Spartan-hlaupið er haldið víðs vegar um heiminn. Alltaf er hlaupið í náttúrunni en þrautir og aðstæður misjafnar. Hlaupið í Barcelona endaði í viðbjóðslegum drullupolli.

„Það skilur klárlega meira eftir að hafa afrekað eitthvað en bara að liggja á sundlaugarbakkanum í nokkra daga,“ segir Kristín Dröfn Einarsdóttir sem tók þátt í Spartan-hlaupinu í Barcelona í haust ásamt fleiri Íslendingum.

Spartan Race er eins konar hindrunarhlaup (e. Obstacle Course Race, OCR) og felst í því að hlaupa ákveðna vegalengd og leysa ýmsar þrautir á leiðinni. Þrautirnar eru mjög fjölbreyttar og breytilegar á milli hlaupa. Til dæmis að bera sandpoka eða trédrumba upp brekkur, klifra yfir háa veggi eða klifurgrindur, vaða drullu, spjótkast, klifra upp kaðal, fara yfir apastiga og margt fleira. Hlaupið er úti í náttúrunni og þar sem þessi hlaup eru haldin úti um allan heim eru þau mjög mismunandi á milli staða. Hægt er að velja um nokkra flokka og vegalengdir, allt frá 5 km upp í 50 km. Svo er hægt að keppa í aldursflokkum og oft er líka í boði hlaup fyrir börn þannig að þetta er mjög fjölbreytt og skemmtilegt,“ segir Kristín Dröfn þegar hún er beðin um að lýsa Spartan-hlaupinu, en Kristín og eiginmaðurinn hennar, Þórarinn Örn Andrésson, tóku þátt í hlaupinu í Barcelona í haust ásamt fleira fólki. Hlaupið gekk svo vel að Kristín er að hugsa um að fara í hlaupaferð til Týrol á næsta ári.

Kristín og æfingavinkonur frá Kettlebells Iceland á leið í mark. …
Kristín og æfingavinkonur frá Kettlebells Iceland á leið í mark. Kristín er lengst til hægri síðan Sigríður Helga Sigurðardóttir, Lilja Jónsdóttir, Ásdís Arnalds og Kirstín Lára Halldórsdóttir.

Hvernig kom það til að þú tókst þátt í þessu hlaupi?

„Við hjónin æfum hjá Kettlebells Iceland í Mosfellsbæ og þar kom upp hugmynd að taka þátt í Spartan-hlaupi sem haldið var í Hveragerði í desember 2018. Einhverjir úr hópnum skelltu sér í það og fengu bakteríuna. Þessi ketilbjölluhópur hefur farið í æfingaferðir í Bjarnafjörð á Ströndum á haustin sem eru alltaf mjög skemmtilegar en eftir hlaupið í Hveragerði var ákveðið að næst yrði farið í Spartan-hlaup erlendis. Þá var í framhaldinu ákveðið að fara til Barcelona að ári og taka þátt í hlaupi þar. Ég var nú ekkert eitthvað brjálæðislega spennt fyrir þessu en ákvað að láta slag standa, hugsaði með mér að það yrði a.m.k. gaman að fara í ferðalag með þessu skemmtilega fólki ef ekki annað. Það var svo langt í þetta þá en svo leið árið auðvitað hratt og allt í einu voru bara örfáir mánuðir í ferðina. Þá fór ég að skokkrölta á fellin hér í kringum Mosó með hundinn og það var það eina sem ég gerði aukalega svona undirbúningslega séð.“

Hjónin Kristín og Þórarinn sveitt en sátt að hlaupi loknu. …
Hjónin Kristín og Þórarinn sveitt en sátt að hlaupi loknu. Ferðin var viðburðarrík á marga vegu því þau misstu af fluginu heim vegna mótmælenda sem hertekið höfðu flugvöllinn. Mynd úr einkasafni


Hvernig gekk svo keppnin? 

„Við vorum 23 manna hópur sem fór til Barcelona. Flestir voru að hlaupa svokallað Super-hlaup sem var u.þ.b. 14 km, nokkrir hlupu Sprint (5 km) á laugardeginum og svo Super á sunnudeginum og ein úr hópnum tók Beast-hlaup sem er u.þ.b. 20 km. Reyndar höfðu nokkrir úr hópnum klárað þá veglengd fyrr í sumar, bæði í Ungverjalandi og Skotlandi. Í þessu Spartan-dæmi er hægt að vinna sér inn svokallað Trifecta ef maður klárar öll þessi þrjú hlaup á almanaksárinu, svona svipað og margir kannast við úr Landvættunum, og nokkrir úr hópnum höfðu sett stefnuna á það strax þarna í Hveragerði. Ég var nú meira bara að einblína á að komast í mark í þessu eina hlaupi og vera ekki langsíðust. Hlaupið gekk annars bara mjög vel og ég var alls ekkert síðust, heldur endaði einhvers staðar fyrir miðju. Mér fannst þetta reyndar frekar erfitt. Það var mjög heitt og mikil hækkun, manni fannst maður alltaf vera að hlaupa upp brekku. Við vorum nokkrar í samfloti og hvöttum hver aðra, við hjálpuðumst líka að í sumum þrautunum, t.d. að komast yfir veggi og slíkt, en í opnum flokki má fá aðstoð í þrautunum, það má hins vegar ekki í svokölluðum aldursflokkum sem eru meira keppnis. Við vorum tæplega fjóra og hálfan tíma að klára þessa 14 km.“

Á meðan félagarnir voru að tapa sér úr gleði þegar …
Á meðan félagarnir voru að tapa sér úr gleði þegar komið var í mark segist Kristín hafa verið alveg brjáluð innra með sér og hreytt út úr sér: „Þetta geri ég ALDREI aftur!“


Hvað kom mest á óvart?

„Það kom mér ekkert endilega margt á óvart, ég var búin að vera að fylgjast með þessum keppnum á Instagram og vissi svona nokkurn veginn við hverju átti að búast. En það var pínu fyndið hvernig ég brást við þegar ég loksins komst í hið langþráða mark. Á meðan félagarnir voru að tapa sér í gleði og fagnaðarlátum var ég alveg brjáluð inn í mér. Það fyrsta sem ég hreytti út úr mér var „Þetta geri ég ALDREI aftur!“ Síðasta þrautin fyrir marklínuna var að kafa í einhverjum ógeðslegum drullupolli og þá var mér nú bara allri lokið held ég.  En svo rjátlaðist þetta af mér og þegar mér var runnin mesta reiðin þarna í markinu þá var ég nokkuð kát og ánægð með mig og var alveg til að gera þetta aftur.“

Kristín lauk 14 km á fjórum og hálfum tíma. Hún …
Kristín lauk 14 km á fjórum og hálfum tíma. Hún segir að hlaupið hafi verið erfitt, það var mjög heitt og mikil hækkun.

Náðuð þið að gera eitthvað annað í ferðinni en bara taka þátt í keppninni? 

„Já já við gátum alveg skoðað okkur um og gert vel við okkur. Við gistum reyndar aðeins fyrir utan borgina sem var bara mjög fínt. Ég hef komið nokkrum sinnum til Barcelona og finnst hún mjög skemmtileg en hún er alveg mettuð af túristum. Við lentum svo í því þegar við vorum á leið út á flugvöll til að fara heim að gríðarleg mótmæli brustu út vegna dómsins yfir leiðtogum sjálfstæðissinna í Katalóníu. Þannig að við sátum föst í umferð og misstum af vélinni, flugvöllurinn var hreinlega tekinn yfir af mótmælendum og þetta var dálítið ástand.“

Hvað með framhaldið? Verða næstu ferðalög þín eingöngu hreyfiferðir?

„Áður en ég tók þátt í Spörtunni hafði ég ekki sérlega mikinn áhuga á íþróttakeppnum. Ég hafði ekki tekið þátt í neinni slíkri keppni áður fyrir utan að hafa hlaupið 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. En þetta er pottþétt eitthvað sem mig langar að gera meira af. Ég væri til að mynda til í að prófa að fara í eitthvað af þessum náttúrhlaupum sem eru í boði út um allt land núna. Ég fer með tíkina mína nokkrum sinnum í viku að hlaupa hér í kringum Mosó, það eru endalausar leiðir upp og niður þessi fallegu fell í kringum bæinn og mér finnst það mjög gaman, bara við tvær vinkonurnar. Það er frábær leið til að slaka á.  Æfingahópurinn er svo að stefna á hlaup í Týrol næsta haust og ég fer örugglega með í þá ferð. Ég segi ekki að öll ferðalög héðan í frá verði hreyfiferðir. Hreyfiferðir eru auðvitað frábært frí, bara eins og fara í skíðaferð eða gönguferðir. Þetta er allt gott í bland held ég. Mér finnst líka mjög gott að liggja í leti á sundlaugarbakkanum í nokkra daga en það skilur klárlega meira eftir að hafa afrekað eitthvað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert