Hilda Jana sigraði sjálfa sig og lofthræðsluna

„Ég var í algjöru tilfinningauppnámi, orðin andstutt og þreytt og …
„Ég var í algjöru tilfinningauppnámi, orðin andstutt og þreytt og fór hreinlega að hágrenja. Þetta var sambland af bugun og stolti og ég þurfti nokkrar mínútur að jafna mig," segir Hilda Jana um það hvernig það var að koma á toppinn á Half Dome. Hér fagnar hún með eiginmanninum Ingvari. Ljósmynd/Aðsend

„Ég veit ekki alveg hvernig ég á að lýsa tilfinningunni sem ég fékk þegar ég kom þarna, það voru bara andköf. Mér fannst eins og ég væri stödd í teiknimynd eða hreinlega í himnaríki, þvílík náttúrufegurð.“ Svona lýsir Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri, upplifun sinni af Yosemite-þjóðgarðinum í Kaliforníu.

Þjóðgarðinn heimsótti hún í haust og fór þar í sína erfiðustu göngu á lífsleiðinni, á Half Dome-fjallið. Gangan var 27 km löng með 1.440 m upphækkun. Gangan var mikil þrekraun fyrir Hildu Jönu sem segist ekki hafa verið mikill göngugarpur fram að þessu. Hún hafi síðastliðin tvö ár verið að stríða við langvarandi veikindi og hægt og rólega verið að byggja sig upp. Fjallgöngur voru því ekki á listanum hjá henni enda segir hún það lengsta sem hún hafi gengið, þegar hún var hvað verst, verið hringinn í kringum raðhúsið hjá sér.

Landslagið í Yosemite-þjóðgarðinum var svo ævintýralegt að sögn Hildu að …
Landslagið í Yosemite-þjóðgarðinum var svo ævintýralegt að sögn Hildu að henni dettur helst í hug teiknimynd eða himnaríki til þess að lýsa því .Hér er vinahópurinn allur samankominn. Frá hægri; Ágúst, Hilda Jana, Eva og Ingvar. Ljósmynd/Aðsend

Unnu miða á fjallstoppinn í lottói

„Í apríl heimsóttum við hjónin vinafólk okkar sem hafði verið í námi í Bandaríkjunum. Þau fóru að segja okkur frá hinni heillandi náttúru Bandaríkjanna og þjóðgörðunum þar. Við settum upp fordómafullan svip, enda hef ég aldrei hugsað um Bandaríkin sem eitthvert náttúruundur, heldur tengt þau frekar við stórborgir og Trump.“ Það er skemmst frá því að segja að vinafólkið, þau Ágúst Torfi Hauksson og Eva Hlín Dereksdóttir, náðu að sannfæra Hildu Jönu og eiginmann hennar Ingvar Már Gíslason um að koma með sér í barnlausa ferð til þess að njóta náttúru Bandaríkjanna. Ferðinni var heitið til San Francisco og í þjóðgarðinn Yosemite þar sem meðal annars átti að klífa fjallið Half Dome, en efsti tindur þess stendur í 2.695 m hæð yfir sjávarmáli. „Það er aðgangsstýring á fjallið og maður tekur þátt í hálfgerðu lottói til þess að fá leyfi til þess að klífa það. Ágúst Torfi og Eva Hlín höfðu unnið fimm miða á fjallið og hvöttu okkur til þess að koma með.“ Við tóku því miklar æfingar fyrir gönguna hér heima sem Hilda Jana segir að hafi ekki síður verið skemmtilegt verkefni en ferðalagið sjálft.

Vinapörin sváfu saman í þessu tjaldi. Þar voru uppábúin rúm …
Vinapörin sváfu saman í þessu tjaldi. Þar voru uppábúin rúm en alls konar gistimöguleikar eru í boði í þjóðgarðinum. Ljósmynd/Aðsend

Sambland af stolti og bugun

„Gangan á Half Dome var erfiðari en við áttum von á, það voru mjög brattar hækkanir á leiðinni og síðustu 200 metrarnir voru rosalegir. Það var kaðall þar til þess að halda sér í en annars var snarbratt niður. Ég hef sjaldan verið jafn skíthrædd. Þarna nagaði ég mig í handarbökin fyrir að hafa ekki fjárfest í öryggislínu, en við töldum það vera ameríska fyrirhyggju og slepptum því. En við hefðum betur gert það því línan hefði komið sér vel þarna á síðustu metrunum.“ Hilda Jana segir að tilfinningarnar hafi algjörlega borið sig ofurliði þegar á leiðarenda var komið og ljóst að hún hafði sigrað lofthræðsluna og sjálfa sig. „Ég var í algjöru tilfinningauppnámi, orðin andstutt og þreytt og fór hreinlega að hágrenja. Þetta var sambland af bugun og stolti og ég þurfti nokkrar mínútur að jafna mig. Á síðustu metrunum var þetta eins í einhverri bandarískri bíómynd, fólk sem var á leiðinni niður var þvílíkt að hvetja mann áfram og þetta var bara alveg magnað. Útsýnið af toppnum var líka ólýsanlegt, þvílík fegurð. Það sem stóð samt upp úr var þakklæti fyrir heilsuna því það er ekki langt síðan líkami minn gat þetta ekki vegna heilsuleysis.“

Gangan á Half Dome tók 14 klst. Hér eru þær …
Gangan á Half Dome tók 14 klst. Hér eru þær Hilda og Eva á góðri stund. Ljósmynd/Aðsend

Gistu í tjaldi með rúmum

Gangan á Half Dome tók í heildina 14 klst. og á leiðinni var ýmislegt fallegt að sjá eins og skóglendi og fossa. Þótt gangan hafi vissulega verið eitt það eftirminnilegasta úr ferðinni segir Hilda Jana að heimsóknin í þjóðgarðinn hafi í heildina verið alveg mögnuð upplifun. „Við gistum öll saman í einu tjaldi í uppábúnum rúmum og fylgdumst svo að á klósettið á næturnar,“ segir Hilda hlæjandi og bætir við að þetta hafi verið frekar spaugilegt. Í þjóðgarðinum er annars boðið upp á fjölbreytta gistingu, allt frá tjöldum upp í lúxushótel, svo allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Eins eru verslanir og veitingastaðir á svæðinu. „Þótt þjóðgarðurinn sé vinsæll þá leið manni aldrei eins og það væri troðið þarna af ferðamönnum enda fagmannlega staðið að allri stígagerð og fjöldatakmörkunum um svæðið. Það voru stígar neðst í garðinum sem voru hjólastólafærir og eins keyrði strætó um garðinn með leiðsögumanni sem sagði frá því helsta sem fyrir augu bar. Eins voru ekki vegir um allt heldur fékk náttúran líka að halda sér óröskuð. Við Íslendingar getum sannarlega lært mikið af Bandaríkjamönnum hvað þetta varðar en þarna leið mér eins og Ísland sé mörgum ljósárum á eftir í náttúruvernd.“

Síðustu metrar leiðarinnar reyndu virkilega á og hélt Hilda Jana …
Síðustu metrar leiðarinnar reyndu virkilega á og hélt Hilda Jana á tímabili að þetta yrði hennar síðasta. Allir komust þó heilir á toppinn. Ljósmynd/Aðsend

Komin með þjóðgarðabakteríuna

Ferðina endaði hópurinn svo í San Francisco þar sem þau ferðuðust um borgina á rafmagnshjólum. „Við náðum því bæði náttúru- og borgarferð í einum pakka því Yosemite-þjóðgarðurinn er aðeins í nokkurra klukkustunda akstursfjarlægð frá San Francisco,“ segir Hilda Jana og ráðleggur þeim sem sem hafa áhuga á því að heimsækja þjóðgarðinn að skipuleggja heimsókn þangað tímanlega. „Það þýðir ekkert bara að mæta þangað því þá eru engin bílastæði fáanleg o.s.frv. Það þarf að bóka allt fyrir fram.“ Hún segir að í ferðinni hafi augu hennar algjörlega opnast fyrir því hversu spennandi áfangastaður Bandaríkin eru. „Við höfum hingað til ekki haft mikinn áhuga á Bandaríkjunum en það er sannarlega þröngsýnt að halda að Bandaríkin séu einsleitt land. Bandaríkin eru alls konar alveg eins og Evrópa og þar eru algjörir demantar sem gaman er að heimsækja. Við erum a.m.k. komin með þjóðgarðabakteríuna eftir þetta og langar til þess að fara aftur og þá með börnin, í þennan þjóðgarð eða einhvern annan. Ég held jafnvel að ég sé komin með alveg nýtt áhugamál líka. Hingað til hef ég verið dugleg að setja mér metnaðarfull markmið en hef ekki sett mér eins háleit markmið utan vinnunnar. En ég fann þarna hvað súrefni, útivera og hreyfing gerir manni gott.“

Hilda Jana segist vera komin með þjóðgarðabakteríuna eftir ferðina í …
Hilda Jana segist vera komin með þjóðgarðabakteríuna eftir ferðina í Yosemite-þjóðgarðinn og vill heimsækja fleiri þjóðgarða Bandaríkjanna. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert