Jöklaferðir geta verið fyrir alla

Ragnar Þór Þrastarson segir almenning sífellt áhugasamari um jökla Íslands. Hann segir jöklaklifur geta verið dásamlega upplifun, sér í lagi ef fólk er með góða leiðsögn og markmið sín á hreinu. 

Ragnar Þór hefur starfað við afþreyingar- og ævintýraleiðsögn í að verða 16 ár. Hann hefur einnig komið á laggirnar námsbrautum í ævintýraleiðsögn, bæði á háskóla- og menntaskólastigi og starfað sem leiðbeinandi og verkefnastjóri í eigin fyrirtæki og háskólum.

Ástríða Ragnars hefur fyrst og fremst verið á fjöllum en hefur einnig smitast út í að hann hefur skrifað neyðaráætlanir og áhættumöt fyrir fyrirtæki og stofnanir. Í dag stundar hann MBA-nám við Háskólann í Reykjavík ásamt því að leiðbeina fólki um fjöll og firnindi.

Ragnar Þór er einn þeirra sem hafa sérstaklega gaman af útivist á jöklum.

„Við sem höfum áhuga á jöklum höfum fyrst og fremst áhuga á að kynnast þessum náttúrufyrirbærum sem jöklar eru og njóta þeirra á einn eða annan hátt.“

Hann segir hefðbundna borgarbúa eiga erfitt með að nálgast jöklana okkar en séu í auknum mæli að nýta sér leiðsögn frá jöklaleiðsögumönnum. „Jöklaleiðsögumenn hafa margir sótt sér sérhæfða menntun sem gerir þeim kleift að taka við fólki úr sínu hefðbundna umhverfi, fólki sem er óvant jöklum, og fara með það af öryggi inn á þessi svæði. Það er einstakt að njóta náttúrunnar með þessum hætti, bæði fyrir leiðsögumenn sem og fyrir áhugafólk um náttúruna og jökla.“

Ekki hættulaust að klifra jökla

Ragnar Þór segir að sjálfsögðu aukna hættu fólgna í því að ferðast á jökli og í flestu fjalllendi.

„Þar eru fyrirsjáanlegar hættur, auk ófyrirsjáanlegra. En það sem er mikilvægt er fyrst og fremst að vera tilbúinn að takast á við þau verkefni sem við kjósum að taka okkur fyrir hendur. Hversu stór eða lítil sem þau eru. Þannig takmörkum við hættuna. Ferðalag í jöklalandslagi er ekki hættulaust, en því fleiri tól sem þú hefur til að takmarka hættuna því betur ertu í stakk búinn til að takast á við verkefnið.“

Hverjir sækja aðallega í jöklaferðir?

„Það má segja að það sé þríþætt. Í fyrsta lagi er þetta fólk sem við getum skilgreint sem hefðbundið göngufólk og náttúruunnendur. Svo er það fólk sem vill meiri áskorun og gengur enn lengra í sínum jöklaferðum. Að lokum er það fagfólk, sem kýs að vinna í því landslagi sem það hefur tekið ástfóstri við.

En ég held að við getum sagt að allir þessir einstaklingar séu vissulega einstaklingar sem njóta útivistar og vilja læra um og njóta jökla.“

Ragnar Þór segir söguna á bak við það að hann starfar við leiðsögn á jöklum vera þá að hann hefur alltaf haft það að markmiði að starfa við það sem hann hefur gaman af.

„Ég byrjaði ungur að ganga á fjöll og ferðast og er satt best að segja bara lánsamur að hafa kynnst framúrskarandi fólki sem deildi áhuga mínum á náttúru og leiðsögn. Eftir að hafa menntað mig í þessum fræðum varð áhuginn meiri og í dag kenni ég fjölda fólks jöklaleiðsögn og get þar af leiðandi gefið af mér. Þetta er allt ástríða og metnaður fyrir því að verða betri í því sem maður gerir.“

Góður leiðbeinandi hvetur fólk áfram

Hvað ætti fólk að athuga áður en það fer af stað á námskeið hjá þér?

„Fyrst og fremst ætti fólk að gera upp við sig á hvaða forsendum það kemur á námskeiðið. Vill það vinna við jöklaleiðsögn eða er það að afla sér þekkingar til þess að ferðast sem áhugamaður um jökla, eða sem viðbragðsaðili?

Þessu er mikilvægt að geta svarað sjálfum sér. Við viljum að allir þeir sem koma á námskeið nái sínum persónulegu eða faglegu markmiðum og verði þannig betur búnir undir að nálgast viðfangsefni sín. Fagfólk hefur alltaf verið duglegt að sækja námskeiðin okkar, en nú sjáum við aukningu hjá áhugamönnum og viðbragðsaðilum líka.“

Hvað gerir góður leiðbeinandi?

„Að mínu viti er það leiðbeinandans að hvetja fólk áfram og kveikja hjá því áhuga. Ef leiðbeinandi er faglegur, einlægur og áhugasamur um viðfangsefnið þá sjálfkrafa kveikir það áhuga hjá þeim sem námskeiðið sitja. Sumir kolfalla fyrir þessu en svo eru aðrir sem sjá það mjög fljótlega á námskeiðinu að þetta er mögulega ekki fyrir þá. Þetta er jafn mismunandi og við erum mörg en vissulega falla flestir fyrir þessu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »