Ísbjarnavaktir það óvenjulegasta

Sólveig Anna Þorvaldsdóttir býr í návígi við ísbirni á Svalbarða.
Sólveig Anna Þorvaldsdóttir býr í návígi við ísbirni á Svalbarða. Ljósmynd/Aðsend

Sólveig Anna Þorvaldsdóttir tannlæknir flutti til Noregs árið 2009, ári eftir útskrift frá tannlæknadeild Háskóla Íslands. Þegar hún hélt hún kæmist ekki norðar en til Tromsø flutti fjölskyldan til Svalbarða þar sem hún hefur búið í þrjú ár. Sólveig smitaðist af Svalbarðabakteríunni og eru snjósleðar, skíði og fjallgöngur daglegt brauð. 

„Okkur hefur lengi dreymt um að eiga heima á norðlægum slóðum, og áður skoðað bæði Grænland og Svalbarða. Bjuggum fjögur ár í Tromsø í Noregi og héldum að norðar kæmumst við ekki. Ég sá svo auglýsingu í norska tannlæknablaðinu um að eina tannlæknastaðan hér væri að losna. Þá hafði sami tannlæknirinn sinnt henni síðastliðin 14 ár, eftirsótt staða og margir umsækjendur. Ég held að það hafi ekki sakað að vera í íslenskri lopapeysu í viðtalinu í stað hárra hæla,“ segir Sólveig þegar hún er spurð hvernig það kom til að hún flutti til Svalbarða. 

Sólin lætur sjá sig í febrúar

„Daglegt líf hér á Svalbarða er eiginlega eins og annars staðar, og hér er allt til alls, stór matvörubúð, kaffihús, bókasafn, sundlaug, íþróttahús og bíósalur. Tannlæknastofan er staðsett á sjúkrahúsinu hérna, sem er titlað sem neyðarsjúkrahús og þarf ég því að vera viðbúin að taka þátt í neyðaraðstoð ef einhver stórslys verða, en annars sinni ég öllum hefðbundnum tannlækningum. Strákarnir, Þorvaldur Kári 12 ára og Bjarki Rafn bráðum sex ára, eru í skóla og leikskóla, og sambýlismaður minn, Kristján Breiðfjörð Svavarsson, er með heimaskrifstofu sem landslagsarkitekt og eigandi Svavarsson Design Lab.“

Ísbjarnavaktin er ef til vill það óvenjulegasta við það að búa á Svalbarða. Sólveig segir að hún sé nauðsynleg á leiksvæðinu við skólann á veturna þegar það er dimmt allan sólarhringinn. Einnig er nauðsynlegt að vera við öllu búin þegar farið er út fyrir bæinn. „Það var spennandi í byrjun að þurfa að taka riffil og neyðarblysbyssu með, en núna er það eiginlega bara kvöð, enda eru þetta auka þyngsli í þegar þungan bakpoka,“ segir Sólveig. 

Krakkarnir kvarta aldrei undan frostinu.
Krakkarnir kvarta aldrei undan frostinu. Ljósmynd/Aðsend

„Annað sem sker sig kannski úr er að það er lögð mikil áhersla á hina gömlu veiðimannahefð og krakkarnir fá að vera með á hreindýraveiðum og við verkun, fara í fjallgöngur, gönguskíði og einstaka útilegur. Þá eru foreldrar á ísbjarnarvakt alla nóttina. Krakkarnir hérna kvarta aldrei undan kulda þó svo að hitastigið fari oft undir -30 gráður.

Á veturna er dimmt allan sólarhringinn og þá er oftast mikið að gerast í menningarlífinu innanbæjar til að halda andanum uppi. Þegar sólin lætur loks sjá sig í lok febrúar er brunað út á snjósleða eða á skíði við öll tækifæri. Á sumrin hefur fólk varla tíma til að sofa. Þetta er frekar opið samfélag og allir mjög huggulegir og vinalegir. Það er talað um að þegar þú stígur út úr flugvélinni í fyrsta skipti þá annaðhvort kolfellur þú fyrir Svalbarða eða þú getur alls ekki ímyndað þér að búa hérna.“

Sólveig ferðast mikið um á snjósleða á veturna og vorin.
Sólveig ferðast mikið um á snjósleða á veturna og vorin. Ljósmynd/Aðsend

Aldrei keyrt snjósleða áður

Sólveig segir að vetraríþróttir hafi alltaf heillað hana. Hún var þó aldrei sérstaklega góð í þeim og fór í fyrsta skipti á skíði í menntaskóla.

„Nú er ég á gönguskíðum, fjallaskíðum og keyrandi um á snjósleða, enda kallar snjórinn á mann og sérstaklega þegar miðnætursólin lætur sjá sig. Ég er samt alls ekki að fara á hæstu tindana eða bröttustu brekkurnar, lofthrædd með meiru, en ég reyni að fara út fyrir þægindarammann og þrífst í áskorunum – eftir á.

Svalbarði er samt algjört ævintýraland fyrir hörðustu skíðakappa enda ótal toppar sem hægt er að bruna niður. Flestir sem flytjast hingað gera það vegna ævintýraþrár og stunda mikla útiveru allt árið. Það eru margir sem æfa sig allan veturinn að draga dekk til að búa sig undir lengri skíðaferðir um vorið, eins og til dæmis að ganga þvert yfir eyjuna Spitsbergen eða mánaðarferð suður til norðurs.“

Ljósmynd/Aðsend

Gönguskíðaferðir eru í miklu uppáhaldi hjá Sólveigu. Hún segir íþróttafélagið í bænum leggja frábært skíðaspor að sólarsíðunni Hiorthamn. Fátt toppar það að ganga þá leið á gönguskíðum í logni og miðnætursól. Drekka heitt kakó á hreindýraskinni og horfa yfir bæinn Longyearbyen.

Hefur þú tekið upp nýja lífshætti eða nýtt áhugamál eftir að þú fluttir út?

„Heldur betur. Ég hef alltaf haft gaman af að ganga á fjöll, en eftir að ég flutti hingað líður varla sú vika að ég hef ekki farið í fjallgöngu, þar sem það eru svo margir fjallatoppar í göngufæri við heimili mitt. Snjósleða hafði ég aldrei keyrt áður en ég flutti hingað, og nú er hann aðalfarartækið á veturna og vorin. Allt í einu er ég líka komin á kajak á sumrin, það hef ég aldrei stundað áður!

Á hverjum miðvikudegi bíð ég spennt eftir því hvort við vorum svo heppin að vera dregin út úr bústaðalottói fyrir komandi helgi en veiðifélagið hérna er með nokkra bústaði til útláns í hverri viku. Að fara í gamlan óeinangraðan bústað án símasambands, rafmagns og klósetts marga kílómetra í burtu frá Longyearbyen er ólýsanlegt. Bara kyrrðin og einangrunin er allt öðruvísi hér en alls staðar annars staðar – og algjörlega ómetanleg.“

Gönguskíðaíþróttin er vinsæl á Svalbarða.
Gönguskíðaíþróttin er vinsæl á Svalbarða. Ljósmynd/Aðsend

Stórkostleg ævintýri úti í náttúrunni eru oft handan við hornið hjá Sólveigu og fjölskyldu á Svalbarða.

„Við höfum lent í þó nokkrum ævintýrum hérna, misskemmtilegum, og á veturna tengist það oftast snjósleðavandræðum. Veðrið hér breytist hraðar en það sem við erum vön frá Íslandi, og við getum keyrt af stað í glampandi sólskini og logni og lent í stórhríð og svokölluðu „white-out“ á leiðinni heim. Við höfum þurft að breyta ferðaleið okkar vegna snjóflóðahættu og ófærð.

Við höfum líka verið bara á venjulegu kvöldi úti að grilla pylsur í fjörunni vestur af Longyearbyen og allt í einu erum við komin í félagsskap heimskautarefs og hreindýra, og á sama tíma horfandi á um tuttugu mjaldra syndandi nánast í flæðarmálinu, þvílík dásemd.

Svo höfum við farið í nokkrar skipulagðar ruslatínsluferðir á strendur lengst í norðri, og er þá ferðast með báti og gist í tjaldi, og allir skiptast á að standa ísbjarnarvakt á næturnar. Ein slík ferð var algjör lúxus, en þá var farið á skútu og gist um borð, hoppað í tveggja gráðu kaldan sjóinn með ísjökum á víð og dreif, og svo beint í sjóðandi heita gufu – gerist ekki betra!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert