Halda í óbyggðir með allt á bakinu

Salome Hallfreðsdóttir ætlar að smita ungt fólk af áhuga sínum …
Salome Hallfreðsdóttir ætlar að smita ungt fólk af áhuga sínum á náttúru Íslands á loftslagsleiðtoganámskeiði næstu mánuðina. Ljósmynd/Aðsend

Salome Hallfreðsdóttir stendur fyrir námskeiðinu Loftslagsleiðtoganum ásamt Hafdísi Hönnu Ægisdóttur og Everest-faranum Vilborgu Örnu Gissurardóttur. Salome heldur upp á marga staði á hálendi Íslands en á námskeiðinu fær ungt fólk einmitt að kynnast hálendinu bæði fræðilega en líka fótgangandi. 

Salome starfar sem ráðgjafi á sviði umhverfismála og sjálfbærni. Hún segist hafa lært að hugsa upp á nýtt þegar hún stundaði meistaranám í umhverfisfræðum og sjálfbærnivísindum í Lundi í Svíþjóð fyrir rúmlega tíu árum. 

„Námið hafði gríðarlega mikil áhrif á það hvernig ég hugsa enda var lögð rík áhersla á að auka skilning á kerfishugsun gagnvart vistfræðilegu, félagslegu, efnahagslegu, pólitísku og menningarlegu samspili sjálfbærrar þróunar. Það sem þetta kenndi mér helst er að nálgast viðfangsefni umhverfismála þverfaglega, enda geta viðfangsefnin oft verið flókin og margir þættir geta verið þar að baki, svo sem hagsmunir, skortur á þekkingu, tregða í kerfinu eða annað,“ segir Salome

Hugsunarháttur Salome og þekkingin sem hún hefur öðlast setur svip sinn á námskeiðið Loftlagsleiðtogann sem er fyrir fólk á aldrinum 18 til 25 ára. „Þetta er fyrsta námskeiðið sem við bjóðum upp á og vonumst til þess að geta boðið upp á fleiri námskeið á komandi sumrum. Þetta er útivistar-, fræðslu- og leiðtoganámskeið sem felur meðal annars í sér fjögurra daga leiðangur með allt á bakinu um suðursvæði Vatnajökuls; frá Núpsstaðaskógi og yfir í Skaftafell. Leiðin er tæpir 60 kílómetrar utan alfaraleiðar þar sem gengið er yfir jökul, skógi vaxið svæði og jökulsorfið landslag,“ segir Salome. 

Kverkfjöll mögnuð

„Ég hef í raun alltaf verið í útivist. Ég ólst upp á Austfjörðum, nánar tiltekið á Eskifirði, og var því umkringd fjöllum og hafinu alla barnæskuna. Einnig var ég með annan fótinn á Héraði með móann og fagurgræna Lagarfljótið fyrir augunum. Ég flutti suður þegar ég var 18 ára og því má segja að mótunarárin hafi algjörlega verið á Austurlandi og í austfirskri náttúru. Ég stundaði hestamennsku sem barn ásamt því að æfa skíði í Oddsskarði. Útivistin þróast svo með árunum og ég hef stundað fjallgöngur, skíði og almenna útivist um árabil. Um þessar mundir eru fjallgöngur, útihlaup og fjallaskíðamennska í miklu uppáhaldi. Svo kynntist ég gönguskíðum fyrir tveimur árum og finnst virkilega gaman að spreyta mig á þeim.“

Salome kynntist gönguskíðaíþróttunum fyrir tveimur árum.
Salome kynntist gönguskíðaíþróttunum fyrir tveimur árum. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er fallegasti staðurinn á Íslandi sem þú hefur komið á? 

„Ég held upp á svo óskaplega marga staði á Íslandi, sérstaklega á hálendinu, að það er erfitt að velja úr. Ég get þó sagt með hreinni samvisku að Kverkfjöll eru líklega það allra magnaðasta svæði sem ég hef komið á á Íslandi. Það er mögnuð tilfinning að vera búin að ganga yfir Kverkjökul, Löngufönn og upp í Efri-Hveradali, sem eru í 1.760 metra hæð, og horfa yfir allt það magnaðasta við Íslandi á einum og sama staðnum. Þarna er eitt stórkostlegasta jarðhitasvæði landsins, einhvern veginn mitt í jökulísnum, og útsýnið sem þú hefur eru svartir sandar hálendisins og hraunbreiður Holuhrauns, ásamt frábæru útsýni á Herðubreið og Snæfell, sem jafnan eru kölluð drottning og konungur fjallanna. Orð geta ekki lýst þessu nægilega vel og mæli ég bara með því að fólk skrái sig í slíkar ferðir. Ferðafélag Íslands býður til dæmis upp á ferðir í Kverkfjöll en einnig finnst mér líklegt að Ferðafélag Fljótsdalshéraðs eða ferðafélögin fyrir norðan bjóði upp á það líka.“

Í leiðangri í Kverkfjöllum.
Í leiðangri í Kverkfjöllum. Ljósmynd/Aðsend

Ungt fólk er meðvitað um loftslagsmál

Salome segir ungt fólk í dag hugsa á annan hátt um náttúruna en hún og jafnaldrar hennar gerðu.

„Það er alveg klárt mál að áhugi á umhverfismálum hefur aukist gríðarlega mikið á undanförnum árum. Þetta skýrist meðal annars af því að aðgengi að upplýsingum er mun einfaldara í dag en til dæmis þegar ég var að alast upp. Þegar ég var á þessum aldri voru ekki til samfélagsmiðlar og alveg nokkur ár í að Facebook færi í almenna notkun. Umræðan um auðlindir og auðlindanotkun hefur alltaf verð viðkvæm og upplifði ég það sterklega fyrir austan í allri umræðunni um Kárahnjúkavirkjun. Sem betur fer er þetta að breytast og ég hef trú á að við munum sjá enn hraðari og jákvæðari breytingar varðandi náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda með þeirri kynslóð sem nú er að koma fram. Ég hef þó alltaf verið þannig þenkjandi að við eigum ekki bara að treysta á unga fólkið heldur verða þau sem eru við stjórnvölinn nú að taka sterkari afstöðu með náttúrunni.

Hvað útivistina varðar hefur einnig orðið mikil jákvæð þróun og sífellt fleiri eru komin í alls konar útivistarsport. Þetta er bara jákvætt. Útivistin gefur manni svo mikið á öllum sviðum, bæði andlega og líkamlega, og þess vegna hvet ég alla til að finna sínar eigin leiðir í henni.“

Salome á toppi Herðubreiðar.
Salome á toppi Herðubreiðar. Ljósmynd/Aðsend

Brennandi áhugi eina skilyrðið

„Ég myndi segja að stóri leiðangurinn sé öðruvísi en hefðbundin fjallganga að því leyti að hann er hluti af stærri mynd, það er námskeiði sem hefst í byrjun júní og endar í janúar á næsta ári. Leiðangurinn sjálfur verður í seinni hluta júlí og munu þátttakendur því vera búnir að undirbúa sig fyrir leiðangurinn, hittast á fjarfundum og gera ýmislegt skemmtilegt saman áður en að leiðangrinum kemur,“ segir Salome. 

„Allt námskeiðið samanstendur af fjórum fjarfundum, fjögurra daga leiðangri og þremur vinnustofum, auk þátttöku í miðlun með ýmsum hætti á samfélags- og ljósvakamiðlum. Fjarfundirnir eiga sér stað fyrir leiðangurinn og vinnustofurnar eftir leiðangurinn. Fyrsta vinnustofan verður strax í kjölfar leiðangursins og mun fara fram í Skaftafelli. Síðan munum við hittast aftur eftir þrjá mánuði og svo eftir aðra þrjá á nokkurs konar uppskeruhátíð. Í leiðangrinum sjálfum fá þátttakendur fræðslu um það sem við sjáum og upplifum, snertum á og finnum fyrir. Rannsóknir sýna að náttúruupplifun af þessu tagi hefur jákvæð áhrif á umhverfisvitund, sem er sú aðferðarfræði sem við vinnum eftir.

Okkar von er að geta veitt þátttakendum upplifun, fræðslu, tól og tæki til að finna sínar eigin leiðir til að hafa áhrif. Við leggjum áherslu á sterka liðsheild og gildi samvinnu. Við viljum koma okkar þekkingu áfram og hvetja til beinna og óbeinna aðgerða í umhverfis- og loftslagsmálum því við getum öll haft áhrif. Við þurfum bara að finna okkar eigin rödd.“

Salome fer með ungu fólki ásamt öðru reyndu fjallafólki í …
Salome fer með ungu fólki ásamt öðru reyndu fjallafólki í langa ferð í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Er námskeiðið fyrir allt ungt fólk? 

„Við gerum ekki kröfu um mikinn bakgrunn á sviði útivistar heldur er svona námskeiði einmitt ætlað að þjálfa fólk í henni. Eina skilyrðið er að hafa brennandi áhuga á málefninu og geta tekist á við krefjandi fjögurra daga leiðangur um óbyggðir með allan búnað á bakinu þar sem gist verður í tjaldi. Allir einstaklingar á aldrinum 18-25 ára geta sótt um þátttöku í Loftslagsleiðtoganum. Við viljum hafa hópinn fjölbreyttan og hvetjum því ungt fólk með alls konar bakgrunn, hæfileika og áhugamál til að sækja um,“ segir Salome en umsóknarfrestur er til og með 24. maí. 

mbl.is
Loka