Þolkappreið yfir Kjöl talin góð landkynning

Sigurlið Riding Iceland Saltvík. Frá vinstri: Hesturinn Moldi, Iðunn Bjarndóttir, …
Sigurlið Riding Iceland Saltvík. Frá vinstri: Hesturinn Moldi, Iðunn Bjarndóttir, Hjörtur Skúlason, Hekla Ýr og Elsa Björk Skúladóttir. Ljósmynd/Landssamband Hestamannafélaga

Þolkappreið á vegum Landssambands hestamannafélaga lauk um helgina á Þingvöllum eftir að keppendur höfðu riðið 240 kílómetra leið þvert yfir Ísland á fjórum dögum. Þessi keppnisgrein er þekkt um allan heim og nýtur mikilla vinsælda víða. Því má reikna með að kappreiðin geti vakið enn frekari athygli og áhuga á íslenska hestinum, ferðalögum á íslenska hestinum og Íslandi almennt.

Fjögur lið tóku þátt í keppninni og hvert lið samanstóð af einum knapa, tveim aðstoðarmönnum og þremur hestum. Keppnin hófst síðastliðinn miðvikudag á Lýtingsstöðum í Skagafirði, þaðan var riðið yfir Kjöl. Komu keppendur í mark á Skógarhólum á Þingvöllum síðdegis á laugardag. 

Annie Whelan (t.h.) frá Bandaríkjunum var í öðru sæti, en …
Annie Whelan (t.h.) frá Bandaríkjunum var í öðru sæti, en hún keppti fyrir lið Íslandshesta. Ljósmynd/Landssamband Hestamannafélaga

Kappreiðin fór þannig fram að tveir hestar voru notaðir hvern dag og einn hvíldur. Hverjum hesti var riðið um 25-35 kílómetra leið í senn og aðrir hestar keyrðir á milli áfangastaða. Dýralæknir fylgdi keppnisliðunum og fylgdist vel með ástandi hestanna allan tímann. Á hverjum áfangastað var mæld öndun, púls og líkamlegt ástand hestanna.

Aníta Aradóttir er helsti hugmyndasmiður keppninnar, ásamt Helga Sigurðssyni dýralækni sem var liðunum innan handar. Aníta tók þátt í Mongólíukappreiðinni árið 2014 þar sem keppendur ríða yfir 1.000 kílómetra á 10 dögum.

Þrír kvikmyndatökumenn fylgdu keppninni eftir frá upphafi til enda og tóku upp mikið af efni sem mun án efa rata fyrir augu áhorfenda fyrr en síðar.

Í fyrsta sæti var Iðunn Bjarnadóttir á 18 klukkustundum og 40 mínútum, en hún keppti fyrir lið Riding Iceland Saltvík.

Í öðru sæti varð Annie Whelan frá Bandaríkjunum á 18 klukkustundum og 52 mínútum, en hún keppti fyrir lið Íslandshesta.

Iðunn Bjarnadóttir kom fyrst í mark fyrir lið Saltvíkur.
Iðunn Bjarnadóttir kom fyrst í mark fyrir lið Saltvíkur. Ljósmynd/Landssamband Hestamannafélaga

Samkvæmt fréttatilkynningu Landssambands hestamannafélaga var almenn ánægja meðal þátttakenda með hvernig til tókst og ánægjulegt að segja frá því að engin meiðsl eða áverkar urðu á hestum eða mönnum.

Erlendu keppendurnir, sem báðir hafa keppt víða um heim, höfðu orð á því að með þetta umhverfi, náttúru og þennan sterka hest hefðu Íslendingar alla möguleika til að gera góða hluti með þessa keppnisgrein í framtíðinni.

Um var að ræða alþjóðlegt prufumót í alþjóðlegri þolkappreið sem Landssamband hestamannafélaga hefur verið með í undirbúningi undanfarna mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert