Best að vakna fyrir sjö og fara að sofa fyrir tíu

Aðalsteinn Leifsson nýtur þess að stunda útivist. Hér er hann …
Aðalsteinn Leifsson nýtur þess að stunda útivist. Hér er hann með eiginkonu sinni, Ágústu Þóru Jónsdóttur. Ljósmynd/Aðsend

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari er duglegur að stunda útivist með fjölskyldu og vinum. Hann bjó meðal annars í Sviss þar sem hægt var að skreppa í Alpana um helgar. Hann segir ekki skipta máli að ferðast hratt yfir eða fara hátt, meira máli skiptir að njóta og hvíla sig fjarri áreiti hversdagsins. 

„Ég er hrifnastur af fríum þar sem við vöknum fyrir klukkan sjö og förum að sofa fyrir klukkan tíu! Allra bestu ferðalögin eru gönguferðir þar sem öll fjölskyldan gengur saman, annað hvort frá föstum gististað í dagsferðir eða - það sem er enn betra - frá einum gististað til annars. Síðan eru skíðaferðir þar sem við rennum okkur saman allan daginn og sofnum örmagna eftir kvöldmat alger snilld! Öll börnin lærðu á skíði stuttu eftir að þau fóru að ganga og við höfum rennt okkur saman á öllu sem rennur - skíðum, brettum, fjallaskíðum, sleðum og gönguskíðum - ekki síst þau sjö ár sem við bjuggum við rætur Alpanna í Sviss. Síðan er líka gaman að fara í krefjandi ferðir, til að mynda höfum við hjónin farið í fjallaskíðaferðir þar sem reynir á styrk, leikni og lofthræðsluna! Síðast fórum við saman á Hvannadalshnjúk á fjallaskíðunum með góðum hópi félaga,“ segir Aðalsteinn þegar hann er spurður hvernig ferðalögum hann er hrifinn af. 

Skiptir ekki máli að fara langt eða hátt

„Útivistin gefur hugarró, líkamlega vellíðan og ekki síst góða samveru með fjölskyldu og vinum fjarri spjaldtölvum og farsímum. Það er eitthvað sem gerist, oft á þriðja degi ferðalags þar sem öll þreyta hverfur og maður kemst í ákveðinn takt við nátttúruna, ferðafélagana og sjálfan sig. Það er gott að hafa ramma en ekki of þétta dagskrá og gefa sér tíma til að njóta. Ég hef ferðast talsvert mikið og verið í starfi þar sem ég fór milli landanna nánast í hverri viku. Eftir því sem ferðalögin verða fleiri því betur kann ég að meta að vera í lengri tíma á hverjum stað og kynnast fólki og umhverfi vel. Metnaðurinn minnkar líka með aldrinum og það skiptir ekki öllu máli hvað það er farið langt, hátt eða hratt heldur mikið frekar að staldra við og njóta,“ segir hann. 

Aðalsteinn ólst upp við tjaldferðalög með fjölskyldu sinni en segir að ferðir á frumlegri og fjarlægri slóðir hafi komið til á seinni árum. „Ég ólst upp við tjaldútilegur en hafði ekki farið langt frá hringveginum fyrr en á fullorðinsárum. Fjallgöngur, utanvegahlaup og fjallaskíðaferðir komu ekki til fyrr en á síðustu árum. Það er sífellt eitthvað nýtt og spennandi að gera og ég hlakka mikið til að kynnast betur vetrarferðum á Íslandi.“

Aðalsteinn ferðast mikið með fjölskyldunni.
Aðalsteinn ferðast mikið með fjölskyldunni. Ljósmynd/Aðsend

Hvers konar útivist stundar þú? 

„Ég er mikið á snjóbretti og skíðum - svigskíðum, gönguskíðum og fjallaskíðum. Síðan eru göngur og hlaup. Utanvegahlaup hafa bæst í síðustu ár og við hjónin höfum hlaupið talsvert í Júrafjöllunum, í nágrenni Genf þar sem við bjuggum, farið í fjallamaraþon og erum að byrja að hlaupa utanbrauta á Íslandi. Göngurnar eru skemmtilegastar og það standa upp úr rólegar göngur með fjölskyldunni. Við gengum til dæmis í kringum Mount Blanc með dóttur okkar sem var þá 18 ára og fórum næsta sumar hálfan hring með átta ára syni okkar. Þetta er ótrúlega falleg leið, um 175 km og farið upp og niður fjall á hverjum degi.“

Ætlar að ganga yfir England

Áttu þér uppáhaldsstað á Ísland?

„Vestfirðir eru í miklu uppáhaldi og ég fer þangað oft, enda er konan mín frá Ísafirði. Síðan er mikil vellíðan að koma á þær slóðir þar sem ég var í sveit í Öræfunum.“

Vestfirðir eru í uppáhaldi.
Vestfirðir eru í uppáhaldi. Ljósmynd/Aðsend

En erlendis?

„Við höfum átt stórkostlegar stundir í norskri náttúru, þar sem við bjuggum í Noregi í nokkur ár og höfum síðan þá farið til Noregs í fjallaskíðaferð. Síðan eru Alparnir í algeru uppáhaldi, enda héldum við til í fjöllunum meira og minna um allar helgar þegar við bjuggum í Sviss.“

Eru einhverjar spennandi ferðir á næsta leiti? 

„Við áformum að fara í sextán daga gönguferð þvert yfir England frá Írlandshafi til Atlandshafs næsta sumar með vinafólki. 11 ára sonur okkar ætlar að ganga alla leiðina og 18 ára bróðir hans fylgir okkur hluta ferðarinnar. Þegar við komum þaðan förum við beint í Laugavegshlaupið og síðan í nokkurra daga gönguferð með vinafólki.“

Hvert dreymir þig um að fara?

„Úff! Það eru svo margar ferðir sem mig dreymir um að fara og ætla að fara. Ég á til dæmis alltaf eftir að fara Haute Route á fjallaskíðum, frá Chamonix í Frakklandi til Zermatt í Sviss. Síðan eru gönguleiðir í Bandaríkjunum, Nepal og víðar sem við höfum skoðað og dagdreymt um að fara,“ segir Aðalsteinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert