Vinkonuferðir eru nauðsynlegar

Soffía segir vinkonuferðir nauðsynlegar
Soffía segir vinkonuferðir nauðsynlegar Ljósmynd/Aðsend

Hvert ferðaðist þú síðast?

„Ég var að koma heim úr vinkonuferð á Taílandi sem var algjör draumaferð.“

Hver var forsaga ferðalagsins?

„Ég heillaðist af Taílandi þegar ég kom þangað fyrir fjölmörgum árum. Ég er nýbúin að eiga afmæli og fékk vinkonurnar með í smá afmælisferð.“

Hvað voruð þið að gera?

„Við vorum í 11 daga á ferðalagi, byrjuðum í Krabi á Suður-Taílandi. Við gistum á yndislegu hóteli, Villa Thalanena í Thalanena Bay. Þaðan fórum við á milli eyja í skoðunarferðir á taílenskum svokölluðum long tail-bátum eða spíttbátum, fórum í sjókajakferð, snorkluðum o.fl., skoðuðum Railay Beach, Phi Phi-eyjurnar, Bamboo Island og Monkey Island.

Frá Krabi flugum við til Koh Samui þar sem við gistum á Six Senses á norðurhluta eyjunnar sem var algjör draumur. Hugmyndafræðin þeirra snýr að sjálfbærni en þeir t.a.m. rækta mikið af matnum sem er í boði á hótelinu.

Í ferðinni okkar byrjuðum við alla daga á jógatíma og þarna kynntumst við líka thai chi, qi gong og phran jóga. Við hjóluðum um eyjuna og fórum út á sjókajak og heimsóttum helstu búddamusterin á eyjunni og fengum blessun frá munkum. Á leiðinni heim stoppuðum við í Bangkok og nýttum tímann til að fara í siglingu á ánni sem rennur um miðja borgina. Maður kynnist vel borginni á þennan hátt. Síðan var himneskt að labba um Grand Palace og Wat Po, Wat Traimit, en þar eru fjölmörg búddalíkneski sveipuð gulli og gersemum.“

Soffía í góðra vinkvenna hópi
Soffía í góðra vinkvenna hópi Ljósmynd/Aðsend

Er mikilvægt að taka sér tíma og ferðast með vinkonum?

„Algjörlega nauðsynlegt, svo nærandi og óheyrilega skemmtilegt að eiga svona stundir með vinkonum sínum. Það er svo auðvelt að ferðast með vinkonunum, auðvelt að plana og gera hluti, við þekkjumst svo vel og eigum sömu áhugamál.“

Hvað kom á óvart?

„Það sem kom mér á óvart var þessi gríðarlega náttúrufegurð á Suður-Taílandi og ég bjóst einnig við að sjá fleiri ferðamenn. Það var ánægjulegt að sjá að Taílendingar eru að sinna umhverfisvernd í verki og eru ekki smeykir við að loka ströndum til að hlífa lífríki sjávar.

Við sigldum að Maya Beach sem er lokuð vegna ágangs ferðamanna í kjölfar bíómyndarinnar the Beach og fengum að vita að hákarlar væru komnir á ný í flóann eftir lokun strandarinnar.“

Þú ert dugleg að ferðast um landið gangandi,

hvað getur þú sagt mér um það?

„Ég elska að ferðast um Ísland enda eitt fallegasta land í heimi. Ég elska að vera á fjöllum, gangandi, hlaupandi eða á skíðum. Það er einhver heilun í því að vera á fjöllum og ég fæ mikla orku á því að labba eða hlaupa á fjöllum. Nú er ég að prófa vetrarfjallamennsku líka, sem er mjög gaman. Ég kynntist gönguskíðum fyrir um ári síðan á námskeiði hjá Hólmfríði Völu á Ísafirði og féll alveg fyrir sportinu. Það er yndislegt að fara einn hring á heiðinni í Bláfjöllum í vetrarstillu líkt og maður sé uppi á jökli. Ég er búin að skrá mig í Fossavatnsgönguna í maí þannig að það er eins gott að æfa sig.“

Hver er uppáhalds borgin þín?

„Ég hef bundist böndum við þær borgir sem ég hef búið í, þannig að Dublin, París og London eru alltaf í uppáhaldi. Marrakech og Oaxaca eru geggjaðar borgir og síðan finnst mér einnig Róm, Flórens og New York frábærar.“

Hvert er gaman að fara með fjölskylduna?

„Við erum búin að ferðast mikið saman og Ítalía og Frakkland eru í uppáhaldi. Við vorum síðast á Cinque Terre-svæðinu og þar á undan á Amalfi-skaganum en það er æðislegt að vera þar með krakka. Auðvelt að fara út á kajak eða snorkla með þeim og fara í skoðunarferðir. Við elskum líka öll að vera á skíðum og reynum að fara mikið í fjöllin hér heima og í eina ferð erlendis árlega. Í vetur er ferðinni heitið til Madonna á Ítalíu. Það skíðasvæði er mjög fjölskylduvænt.“

Fjölskyldan á skíðum
Fjölskyldan á skíðum Ljósmynd/Aðsend

Hvað elskar þú mest að gera í þessu lífi?

„Ég elska að eiga stundir með fjölskyldunni minni og vinum og helst utandyra. Ég er með mikla hreyfiþörf og elska að vera úti í náttúrunni að leika. Ég á stóran vinkonuhóp og það toppar fátt að vera með vinkonunum uppi á fjöllum. Ég elska einnig sjóinn, að vera á kajak, snorkla og kafa er algjör draumur. Ég er að reyna byggja upp þol fyrir kalda sjóinn okkar.“

Hvað hefur þú lært með aldri og meiri þroska?

„Trúlega meiri þolinmæði og að sinna sjálfri mér betur og gera meira af því sem mér finnst skemmtilegt með skemmtilegu fólki. Það er ómetanlegt að vera með skemmtilegu fóki sem gefur af sér og kanna að njóta lífsins. Enda á ég skemmtilegustu vinkonur í heimi.“

Hvert langar þig næst að ferðast?

„Það eru margir staðir á listanum og Asía og Afríka heilla mikið. Nepal er á óskalistanum. Mig langar að labba upp að grunnbúðum Everest og upplifa töfrana þar.“

Hvað keyptir þú þér í síðustu ferð?

„Ég keypti kímonó-silkisloppa, búddastyttu, söngskál frá Tíbet og taí-box buxur fyrir strákana mína.“

Hvernig nærðu að halda svona góðu jafnvægi í lífinu?

„Lykillinn að jafnvægi er að sinna sér vel og sínum áhugamálum, á þann hátt færðu orku til að gefa og sinna þínum nánustu. Hugarfarið er svo mikilvægt. Að byrja daginn og ákveða að dagurinn verði góður. Ég hef mikla trú á „self-fulfilling prophecy“, það getur virkað á báða vegu, jákvætt og neikvætt. Þetta er nefnilega svolítið mikið í þínum höndum, hamingjan og jafnvægið í lífinu.“

Soffía fær kraft og orku úr náttúrunni
Soffía fær kraft og orku úr náttúrunni Ljósmynd/Aðsend

Nú varstu búsett erlendis þegar þú varst ung, hvernig var það?

„Þegar maður hefur átt heima erlendis þá verður heimurinn svo miklu minni sem er alveg stórkostlegt. Ég átti heima fyrst erlendis 17 ára, þá í Austin í Texas, og síðan fluttist ég til Parísar 19 ára og bjó í Los Angeles, var við störf í Saudi-Arabíu og námi í Dublin og London. Ég held að ég hafi þroskast hratt við að búa ein erlendis. Það er svo nauðsynlegt að kynnast annarri menningu og hugsun til að öðlast frekari skilning á lífinu og mannfólkinu. Við erum ólík en við erum samt svo ótrúlega lík. Það sem ég hef lært af öllum mínum ferðalögum um heiminn er að fólk er upp til hópa ótrúlega fallegt og gott.“

Soffía segir að mantran hennar sé að lifa í núinu. „Segja já við tækifærum og skemmtilegum hlutum. Það er ljóst að dagurinn í dag er það sem skiptir máli og að njóta hans með manninum mínum, börnum og vinum er það besta í lífinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert