Starf leiðsögumannsins heillar

Einar Ólafur er leiðsögumaður sem hefur farið víða.
Einar Ólafur er leiðsögumaður sem hefur farið víða. Ljósmynd/Aðsend

Einar Ólafur Matthíasson er leiðsögumaður sem hefur farið með ferðamenn víða um landið. Hann fylgdi m.a. Gwyneth Paltrow um Ísland á dögunum. Hann segir stjörnuna rétt eins og aðrar konur hér á landi. Einar Ólafur er ekki bara einn prúðasti maður landsins heldur kann hann einnig frábærar sögur, af Íslendingum sem horfa í augun á ferðamönnum, sem og af útlendingum sem eru fastir í þeim draumórum að þeir komist hvert á land sem er á smábílum, bara ef þeir eru fjórhjóladrifnir. 

Einar Ólafur starfaði í áratug sem ljósmyndari áður en hann færði sig yfir í að vera leiðsögumaður. Hann er með dáleiðandi og þægilega rödd sem fær fólk til að slaka á og hlusta. „Það var í febrúar árið 2011 sem ég snéri mér alfarið að því að vera leiðsögumaður. Ég hef alltaf haft áhuga á því að ferðast um landið á jeppa og taka myndir. Nú starfa ég aðallega í lúxusferðum, þar sem ég reyni að sníða ferðalagið að þeirri persónu sem ég er með hverju sinni.“ Hann spilar íslenska tónlist sem passar við umhverfið hverju sinni. Ólafur Arnalds er í uppáhaldi hjá honum svo eitthvað sé nefnt.

Leiðsögumenn alltaf að læra

Hefurðu alltaf haft góða þekkingu á landinu?

„Ég hef haft góða þekkingu á landinu okkar, en ég geri ráð fyrir því að vera margfalt betri í dag en ég var hér áður. Eins geri ég ráð fyrir því að maður læri svo lengi sem maður lifir. Þannig er þessi atvinnugrein. Hún snýst ekki einungis um að finna fallega staði, heldur að lesa í þarfir og áhuga fólks og búa til ferðalag sem fólk kann að meta.“

Einar Ólafur segir fólk eins misjafnt og það er margt. „Sumir vilja heyra ævintýralegar sögur sem byggjast á tröllum og öðru yfirnáttúrulegu. Vilja heyra um jarðfræði og helstu staði. Á meðan aðrir vilja heyra sögur um nútíma Íslendinginn.

Eitt af því skemmtilega við vinnuna er einmitt þetta að lesa í fólk og tengjast fólki þó maður hafi stundum einungis einn dag til þess.“

Íslendingar horfa í augun á fólki

Hvað hefurðu heyrt sniðugt um okkur Íslendinga?

,,Það sem mjög margir segja er að við séum að rekast í þá. Það sem er þeim heilagt, þar eð plássið í kringum þá virðist minna virði fyrir okkur. En auðvitað eru til þjóðir sem eru ennþá verri en við í þessu. Svo er alltaf þetta klassíska, að við tölum á innsoginu, beina þýðingin yfir á ensku á „algjört rassgat“ og einfaldar samræður með mjög mörgum já-um.

Eins eru margir sem tala um að vegna þess hversu óhrædd við erum að líta í augun á hvort öðru, þá finnist þeim þeir minna einamana hér en í stórborgunum sem þeir koma úr. Við Íslendingar virðumst ekki veigra okkur við að horfa í augun á fólki þó við séum ekkert að tala við það. Þetta þykir fólki vinalegt og þægilegt hef ég heyrt. Ríkidæmi okkar er að sjálfsögðu hversu öruggt landið er. Hér getur fólk farið frekar frjálst um. Eins hef ég verið spurður um hvað fólk þurfi að gera til að verða Íslendingur.“

Listræn mynd á Vetrarhorni af ferðamönnum að njóta sín í …
Listræn mynd á Vetrarhorni af ferðamönnum að njóta sín í íslenskri náttúru. Ljósmynd/Einar Ólafur

Hvað manstu sniðugt um útlendinga?

„Það sem ég hef orðið var við oftar en einu sinni er að þegar maður segir útlendingum ótrúlegar sögur af tröllum og fleira þá kaupa þeir skrítnu hlutina við sögurnar, en eiga síðan erfiðara með að trúa staðháttaupplýsingunum í þeim. Sem dæmi segi ég stundum söguna af Bergþóri trölli í Bláfelli sem breytti laufi í gull og vildi láta jarða sig í garði kirkjunnar. Fólk á ekki erfitt með að trúa að til sé tröll með þessa hæfni, en að koma sér á milli staða á þeim forsendum sem ég gef þeim, stendur í mörgum.“

Auðmýkt fyrir náttúruöflum

Manstu fyndna sögu af útlendingi?

„Já ég man eina góða. Mér skilst að í sumum löndum sé það valmöguleiki að fara eftir umferðarreglum og skiltum. Eða það hefur maður oft á tilfinningunni þegar maður horfir á suma keyra. Eitt skipti var ég á fjallvegi um miðjan vetur í mjög vel útbúnum fullbreyttum jeppa að keyra frá hálendinu niður að láglendi þegar ég keyrði fram á bíl sem kom úr öfugri átt. Þetta var smábíll, en þó fjórhjóladrifinn. Ég komst ekki framhjá bílnum þar sem ökumaðurinn var stopp á miðjum veginum. Hann vindur sér úr bílnum og hleypur að mér, horfir upp til mín, þar sem minn bíll var svo hár að hann hefði nokkurn veginn getað keyrt yfir hans bíl án þess að skemma hann og tilkynnir mér vinalega að ég skuli varast snjóinn á veginum. Ég spyr hann þá hvað hann væri að gera á þessum stað á þessum bíl og hann svarar mér að hann hafi óvart tekið ranga beygju. Ég spurði hann þá hvort hann hefði ekki séð skiltið sem stóð á miðjum veginum, sem hann þurfti að snara sér framhjá til að klessa ekki á, sem sagði mjög skýrt að þarna væri ófært. Jú, hann tók eftir því en sagði mér að hann hefði bara ákveðið að hundsa þetta skilti.

Ég reyndi að telja honum trú um að hann hefði ekkert erindi upp á hálendið, en hann lét sér ekki segjast.

Þetta var eitt af þessum mögnuðu augnablikum þar sem ég skildi betur hvaða áhrif það hefur á fólk að vera alið upp í kassa. Við aftur á móti erum alin upp við allt þetta frelsi sem náttúran gefur okkur, sem gefur okkur aftur á móti meiri vörn fyrir því að vera vakandi fyrir hættum. Þessi náttúrulega auðmýkt gagnvart náttúruöflunum er okkur í blóð borin.“

Þessa mynd tók Einar Ólafur á Selatanga.
Þessa mynd tók Einar Ólafur á Selatanga. Ljósmynd/Einar Ólafur

Aðspurður hvað landið hefur upp á að bjóða fyrir útlendinga segir Einar Ólafur svo margt áhugavert sem hægt sé að sjá hér á landi. „Það er óhætt að segja að það sé ekki auðvelt að finna land sem er með eins mikla fjölbreytni í landslagi. Eina mínútuna ertu að keyra framhjá bóndabýli og það eru akrar beggja vegna. Síðan einni mínútu síðar verður allt í hrauni. Líkt og þú sért að koma á stað sem engin önnur manneskja hefur heimsótt.“

Paltrow eins og hver önnur kona

Hvernig var að ferðast með Gwyneth Paltrow og börnunum hennar um landið?

„Vanalega tala ég aldrei um þá sem ég ferðast með en af því hún birti sjálf grein um þetta ferðalag og myndir þá get ég sagt að það var bara mjög skemmtilegt að sýna henni um land og fjöru.“ Þar sem Einar Ólafur er mikill aðdáandi hljómsveitarinnar Coldplay fannst honum gaman þegar söngvarinn Chris Martin hringdi í Paltrow og hann fékk að tala við söngvarann í síma. „Ég varð smá „starstruck“ við það.“

Með bíladellu að eigin sögn

Einar Ólafur segir að jepparnir þrír sem hann notar í vinnunni séu verkfærin hans. „Þeir eru allir fullbreyttir ofurjeppar sem geta komist hvert sem er. Minnsti bíllinn er Toyota Land Cruiser 150 á 40" dekkjum. Það fer vel um þrjá farþega í honum. Millistærðin er Ford Excursion með stórri dísilvél. Hann er á 46" dekkjum. Í honum er pláss fyrir sex farþega. Nýjasti jeppinn er svo stór að það mætti segja að hann væri allavega einn og hálfur jeppi. Við tókum framenda af fjögurra dyra pickup. Skárum pallinn af og suðum afturenda af Ford Excursion þar aftan á. Útkoman er þessi ljómandi fíni sex dyra Ford Excursion sem rúmar níu farþega mjög vel. Ekki skemmir að hann rúllar fram veginn eins og óbreytt lúxusbifreið á nýju 44" radial dekkjunum frá Arctic Trucks. Þeir framleiða dekkin í samvinnu við Nokian dekkjaframleiðandann. Þegar best liggur á honum gefur hann 680 hestöfl og rúmlega tvöfalt það í snúningsvægi.

Þessi mikla drifgeta jeppanna er ekki ætluð til glæfrafara heldur frekar til að tryggja öryggi farþega þegar ekið er um landið okkar við oft ófyrirsjáanlegar aðstæður.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert