Í leit að besta kaffinu í New York

Guðrún Valdís býr á Manhattan í New York. Hér er …
Guðrún Valdís býr á Manhattan í New York. Hér er hún við Brooklyn-brúnna sem tengir saman Manhattan og Brooklyn. Ljósmynd/Aðsend

Guðrún Valdís Jónsdóttir er tölvunarfræðingur frá Princeton-háskóla og býr og starfar í New York. Hún er búin að búa í New York í rúmt ár, en segir að hún sé aðeins búin að upplifa brotabrot af borginni. 

„Ég útskrifaðist sem tölvunarfræðingur frá Princeton-háskóla vorið 2018, og flutti til Manhattan í ágúst 2018 þar sem mér bauðst starf við öryggisprófanir hjá Aon. Starfið mitt felst í að prófa t.d. heimasíður, smáforrit/öpp, og tölvunet viðskiptavina okkar og leiðbeina þeim með það sem betur má fara til að minnka líkur á öryggisbrestum.

Guðrún Valdís í Hudson Yards ásamt vinkonu sinni.
Guðrún Valdís í Hudson Yards ásamt vinkonu sinni. Ljósmynd/AðsendMannmergð, fjölbreytileiki og hraður lifnaðarháttur einkenna borgina. Fjölbreytni New York heillaði mig einna mest þegar ég flutti hingað. Á Manhattan eru fjöldamörg hverfi, hvert með sinn sjarma og sína stemningu. Þau eru eins misjöfn og þau eru mörg, og yfirleitt verður maður þess var um leið og maður yfirgefur eitt hverfi og fer yfir í það næsta. SoHo, Chelsea og fjármálahverfið eru nokkur af mínum uppáhalds. SoHo er frábært fyrir búðaráp, í Chelsea er gaman að rölta High Line og í gegnum Chelsea Market, og svo eyði ég stórum hluta lífs míns hér úti í vinnunni í fjármálahverfinu - í nágrenni Kauphallarinnar og Wall Street.

Eins er maturinn í New York fjölbreytilegur. Dim sum í Kínahverfinu, New York-pítsa á 2 dollara, og New York-beyglur eru ómissandi, en hægt er að finna mat hér frá bókstaflega öllum heimshornum. Þá eru kaffihús á hverju horni þar sem gaman er að setjast niður og fylgjast með mannlífinu.

Í West Village á Manhattan.
Í West Village á Manhattan. Ljósmynd/Aðsend

Draumadagurinn minn í New York myndi byrja á lautarferð í Central Park, áður en haldið væri á safn (s.s. Whitney-safnið, Metropolitan-safnið, eða MOMA). Yfir daginn væri svo stoppað á eins mörgum kaffihúsum og hægt væri, sem liður í áframhaldandi leit minni að besta haframjólkur-cortado Manhattan. Dagurinn myndi svo enda á söngleik á Broadway og rölti yfir Brooklyn-brúna eftir sólsetur.

Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi í New York, leikhús, íþróttaviðburði, bari, söfn, næturklúbba o.s.frv. Sjálf hef ég ekki upplifað nema brotabrot af því sem borgin hefur upp á að bjóða á þessu eina ári sem ég hef búið hér. Ég reyni að forðast mjög fjölfarna staði eins og Times Square og Brooklyn-brúna um miðjan dag, og bendi ég flestum á að kaupa miða á söfn og í skoðunarferðir fyrir fram til að forðast biðraðir.“

Við Flat Iron-bygginguna.
Við Flat Iron-bygginguna. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is