New York ekki eins og hún var 1988

Jóhanna Methusalemsdóttir, gullsmiður, er á því að New York borg …
Jóhanna Methusalemsdóttir, gullsmiður, er á því að New York borg sé ekki sú sem hún var hér áður. Ljósmynd/Elísabet Davíðsdóttir

Jóhanna Methúsalemsdóttir gullsmiður er mikill náttúruunnandi. Hún er búsett í Catskills-fjöllunum í suðausturhluta New York. Þangað flutti hún nýverið eftir áralanga búsetu í New York-borg. Hún segir náttúruna dásamlega í Catskills þótt mikilvægt sé að vara sig á ýmsu þar líka. Jóhanna er eigandi Kria Jewlery-vörumerkisins. 

Hvers vegna fluttir þú þangað?

„Eftir 30 ár í borginni langaði mig að komast í umhverfi þar sem ég hefði meira pláss til að hugsa og vera til og í meiri ró og næði. New York-borg er ekki sama borgin og ég flutti til árið 1988. Hún hefur að mínu mati misst þann sjarma sem ég féll fyrir í byrjun. Búið er að loka litlum búðum og í stað þeirra komið mikið af verslunarkeðjum. Húsnæðið er orðið mjög dýrt og fólk annaðhvort mjög efnað eða mjög blankt og stressað. Mér finnst vanta milliveginn og tengingu á milli fólks.“

Það er smekklegt um að lítast í stofunni hjá Jóhönnu.
Það er smekklegt um að lítast í stofunni hjá Jóhönnu. Ljósmynd/Aðsend

Voru mikil viðbrigði að flytja?

„Já, ég verð að viðurkenna það, þar sem við búum í A-laga húsi uppi á fjalli sem er mjög fallegt á sumrin en snjóþungt á veturna sem getur gert mann svolítið einangraðan. En við erum dugleg að fá fólk til okkar og leika við vini okkar hér upp frá og í heildina erum við glaðari hér í fjöllunum en í borginni. Svo er alveg frábært að geta bara labbað út í stúdíó sem er úti í garði og farið að bauka eitthvað skemmtilegt. Það er alltaf nóg pláss bæði úti og inni og stórkostlegt útsýni þar sem við erum í enda dalsins og hátt uppi á fjalli. Við sjáum því endalaust út dalinn.“

Hvað er ómissandi  að gera á þeim stað þar sem þú býrð?

„Ég bý í dal, Denver Vega Valley, þar sem er eitt pósthús. Það er ómissandi að fara í göngur og horfa á sólarlagið og stjörnurnar á kvöldin. Það er voða gott fyrir líkama og sál. Oftar en ekki heyri ég í kýótum sem mér finnst alltaf rosalega spennandi. Svo er dásamlegt að synda í ánni eða í vatni hjá vinum. Síðan erum við að fara að opna Kríu Jewelry-búð í bæ hér rétt hjá og þá verður ómissandi að kíkja við þar reglulega.“

Áttu þér uppáhaldsveitingastað?

„Það er staður hér rétt hjá sem er bæði hótel og veitingastaður sem heitir Bull and Garland sem er svolítið í uppáhaldi núna. Í New York væri það helst Cafe Gitane. En þangað hef ég farið í mörg ár og reyni alltaf að koma við þar þegar við förum í bæinn.“

Hvernig er draumadagur þar sem þú býrð?

„Að kíkja á grænmetismarkaði, fara svo með nesti sem við á, synda og leika með vinum og fjölskyldu. Síðan er gaman að grilla og bara að hafa gaman saman.“

Er eitthvað sem ferðamenn þurfa að varast?

„Já bangsarnir. Að passa upp á að skilja ekki eftir mat úti eða að gefa dýrunum að éta.“

Hvað er að gerast hjá þér um þessar mundir?

„Við vorum að gefa út nýja línu, RESIDENT AILIEN, sem fæst bæði í vefbúðinni okkar og í  Aftur og Níelsen sérverzlun á Íslandi. Við erum að fara að opna Kríu-lífsstílsbúð hér í Catskills þar sem við munum selja Kríu-skartgripi en einnig vörur á borð við krem, olíur, kerti, plötur og leirvörur svo eitthvað sé nefnt. Einnig ljós fyrir heimilið og fleiri vörur frá vinum okkar. Í raun má finna margt af því sem við myndum kaupa sjálf í þessari verslun.“

Úr RESIDENT AILIAN línunni hjá Kríu Jewlery sem er hugarefni …
Úr RESIDENT AILIAN línunni hjá Kríu Jewlery sem er hugarefni Jóhönnu Methusalemsdóttur þessa dagana. Ljósmynd/Elísabet Davíðsdóttir
Ljósmyndir fyrir RESIDENT AILIAN línuna voru teknar í Catskills.
Ljósmyndir fyrir RESIDENT AILIAN línuna voru teknar í Catskills. Ljósmynd/Elísabet Davíðsdóttir
Ljósmyndir fyrir RESIDENT AILIAN línuna voru teknar í Catskills.
Ljósmyndir fyrir RESIDENT AILIAN línuna voru teknar í Catskills. Ljósmynd/Elísabet Davíðsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert