33 ár frá því Dagur flutti frá Íslandi

Dagur Eggertsson starfar við hönnun mannvirkja og listaverka í Ósló …
Dagur Eggertsson starfar við hönnun mannvirkja og listaverka í Ósló Noregi. Ljósmynd/Jói Kjartans

Dagur Eggertsson arkitekt er þriggja barna faðir og starfar við hönnun mannvirkja og listaverka í Ósló Noregi. Hann rekur teiknistofuna Rintala Eggertsson Arkitekta ásamt Vibeke Jenssen eiginkonu sinni og Sami Rintala sem ættaður er frá Finnlandi. 

Dagur er fæddur og uppalinn í Þingholtunum en býr í Tåsen í Ósló í dag.

Það eru 35 ár síðan Dagur flutti frá Íslandi og segir hann að þótt Íslendingar og Norðmenn séu menningarlega séð náskyldir séu hefðirnar ólíkar í löndunum. Hann segir Norðmenn minni einstaklingssinna en okkur Íslendinga og það hafi komið honum á óvart þegar hann flutti frá Íslandi á sínum tíma.

Hvernig er heimilislífið?

„Fyrir utan þessa daglegu hluti sem allir þekkja er heimilislífið dálítið háð árstíðunum, því hérna í nágrenni Óslóar er dásamleg náttúra sem maður getur nýtt sér til gönguferða á vorin, sumrin og haustin og svo til skíðaferða á veturna. Við eigum líka sumarbústað við Óslóarfjörðinn sem við förum í um helgar frá því snemma á vorin og langt fram á haust. Þar erum við annaðhvort að flatmaga í leti eða stinga okkur í sjóinn frá klettunum sem eru dæmigerðir fyrir náttúruna við fjörðinn.“

Hvernig er dagurinn í þínu lífi?

„Dagarnir hjá arkitektum eru oft mjög mismunandi og háðir því sem við erum að gera hverja stundina. Ég var nýverið í Vadsø í Norður-Noregi þar sem við erum að hanna sýningu um sögu Kvænanna, sem fluttust búferlum frá Norður-Finnlandi og Svíþjóð til norðurstranda Noregs aðallega á 18. og 19. öld. Í gær var ég svo að dæma í arkitektasamkeppni í Stokkhólmi. Maður er því stundum dálítið á handahlaupum og því gott að komast inn í þetta venjulega daglega ferli aftur þar sem maður sendir yngsta afkvæmið í skólann á morgnana og hjólar svo niður í miðbæ þar sem við erum með teiknistofu. Við erum mjög miðsvæðis og getum því nálgast allt á stuttum tíma ef eitthvað þarf að útrétta eða farið í hádegismat á veitingastað í nágrenninu.“

Dagur Eggertsson rekur teiknistofuna Rintala Eggertsson Arkitekta.
Dagur Eggertsson rekur teiknistofuna Rintala Eggertsson Arkitekta. Ljósmynd/Jói Kjartans

Er borgin sem þú býrð í fagurfræðilega falleg að þínu mati?

„Á Íslandi var alltaf talað um Ósló sem stærsta þorp í heimi þegar ég flutti út, en borgin hefur tekið miklum stakkaskiptum. Mikið hefur verið byggt og fyllt í eyðurnar eftir smáiðnað sem var inni í borgarkjarnanum fram til aldamóta. Stór bílastæði eru orðin að görðum og gönguleiðir komnar meðfram strandlengjunni. Hún hefur því fengið betri heildarmynd, almenningssamgöngurnar hafa batnað og hjólabrautir komnar út um allan bæ. Enn þá er verið að bæta þær, framlengja og tengja við ný svæði. Það er því gaman að fara um bæinn á hjóli því umferðin hefur minnkað mikið síðustu árin. Í miðbænum er komið nútímalegt óperuhús hannað af norsku teiknistofunni Snøhetta og svo er verið að byggja nýtt ríkislistasafn og nýtt Edvard Munch-listasafn.

Sjarmur Óslóar er samt sem áður ekki tengdur þessu allra nýjasta, heldur frekar tengdur náttúruþáttunum sem hafa mótað bæinn. Hverfi hafa byggst upp á annan hátt en maður sér í til dæmis Kaupmannahöfn og Stokkhólmi sem voru stærri miðstöðvar verslunar enn Ósló var og fjárhagslegt bolmagn gerði það að verkum að nauðsynlegt var að skipuleggja vel. Hverfi Óslóar eru því meiri bútasaumur, en sem afleiðing af því eru þau að mínu mati betur aðlöguð náttúrunni enn víða annars staðar.“

Hvað er skemmtilegast að gera í borginni þinni?

„Það er kannski dálítið háð aldurshópi þeirra sem sækja borgina heim. Sjálf erum við meira á listasýningum og leiksýningum eftir að krakkarnir urðu eldri. Það er framúrskarandi dansflokkur sem starfar við óperuna, með sýningar á heimsmælikvarða sem við reynum að sjá. Það eru leikhópar sem við reynum að fylgjast með, en það sem sameinar alla aldurshópa er náttúran sem umlykur bæinn. Á veturna er farið á gönguskíðum langt inn í skóginn þar sem maður nýtur náttúrufegurðarinnar og kyrrðarinnar við bálköstinn, og á sumrin pökkum við nesti og tökum með okkur góða bók niður að sjó og njótum þess að dýfa okkur í sjóinn.“

Dagur kann að meta listræna hluti.
Dagur kann að meta listræna hluti. Ljósmynd/Jói Kjartans

Áttu þér upp­á­haldsveit­inga­hús?

„Það eru komin nokkur veitingahús með Michelin-stjörnur, tvær og þrjár, og flóran af stöðum er alltaf að aukast. Sushi-staðirnir hafa sprottið upp eins og gorkúlur og núna eru ramen-staðir að skjóta upp kollinum hver á eftir öðrum. Þó að mér finnist skemmtilegast að búa til matinn sjálfur er gaman að geta farið út og fengið sér sushi, ramen eða farið á einn af betri stöðum bæjarins. Það er kominn stór matarmarkaður á svæði sem heitir Vulkan þar sem kennir margra grasa og hægt er að fá sér mjög góðan mat. Þar er staður sem heitir Hitchhiker sem hægt er að mæla með og svo má líka kíkja inn á stað sem er búið að koma á fót í gamalli sundlaug, Torggata Bad, þar sem boðið er upp á „streetfood“ frá öllum heimshornum. Eftirlætisstaðurinn er samt sem áður Ekeberg-veitingahúsið í hlíðunum austan við miðbæinn, með góðum mat, frábæru útsýni yfir bæinn og listainnsetningum eftir heimsþekkta listamenn í garðinum umhverfis staðinn.“

Hvað kom á óvart við flutn­ing­ana út á sínum tíma?

„Þó að Norðmenn og Íslendingar séu menningarlega séð náskyldir hafa hefðirnar þróast á mismunandi hátt. Við erum lítil þjóð sem hefur alið manninn meira og minna við strandlengjuna í litlu landi sem gerir það að verkum að við þekkjum hefðir hvert annars. Noregur er sundurskorinn af fjörðum, fjöllum og dölum sem hefur gert það að verkum að byggðir og jafnvel stærri landsvæði hafa þróað eigin hefðir og mállýskur. Maður sá það strax að gamlar hefðir voru mjög mikilvægar fyrir einstaklinginn þar sem þær voru hluti af verðmætamati fólks sem maður hitti. Sjálfsmynd Norðmanna er því oft mótuð af þessu og gerir það að verkum að menn eru kannski minni einstaklingssinnar en við Íslendingar. Það kom mér kannski mest á óvart.“

Dagur saknar náttúrunnar mest þegar kemur að Íslandi.
Dagur saknar náttúrunnar mest þegar kemur að Íslandi. Ljósmynd/Jói Kjartans

Hvers sakn­arðu helst frá Íslandi?

„Ég held að það sé óhætt að segja að maður sakni náttúrunnar mest. Eftir að hafa alist upp á Íslandi og ferðast um landið sem barn, er það eitthvað úr náttúru Íslands sem maður tekur með sér hvert sem maður fer.“

Hvað ættu all­ir að kaupa í heim­sókn til borg­ar­inn­ar?

„Það er kannski helst að maður ætti að kaupa miða á sýningu í óperunni eða aðgöngumiða að víkingaskipasafninu á Bygdøy. Áður enn lagt er af stað ættu menn að fara á bókasafn og fá lánaða bók eftir Knut Hamsun sem lýsir Ósló á sérstakan hátt í bókinni Sultur, Jo Nesbø sem notar Ósló sem vettvang í sínum glæpasögum um Harry Hole, eða Lars Saabye Christensen sem notar Ósló sem bakgrunn í mörgum af sínum bókum og þá sér í lagi trílógíunni „Byens Spor“ sem ekki hefur komið út í íslenskri þýðingu.“

Hvað ættu ferðamenn að var­ast?

„Það er lítið sem þarf að varast í Ósló. Glæpatíðni er lág og lítið verið að svindla á fólki. Það er ágætt að varast það að koma hingað á mesta ferðamannatímanum í ágúst. Í júlí er lítið að gerast í bænum enda Norðmenn í fríi upp til hópa og sömuleiðis um páskana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert