Tók u-beygju í lífinu og flutti til Íslands

Gunnar Freyr Gunnarsson ólst upp í Danmörku en flutti til …
Gunnar Freyr Gunnarsson ólst upp í Danmörku en flutti til Íslands á fullorðinsárum. Ljósmynd/Aðsend

Gunnar Freyr Gunnarsson heldur úti vinsælum Instagram-reikningi undir nafninu Icelandic Explorer og vinnur við að ferðast um landið. Áður en Gunnar Freyr tók ákvörðun um að starfa sem ljósmyndari, áhrifavaldur og skapandi frumkvöðull vann hann á skrifstofu hjá fínu fyrirtæki í Danmörku og hélt að hann væri kominn í draumavinnuna. 

„Síðan ég var barn hef ég verið heillaður af íslenskri náttúru, óbyggðunum, ákafanum og  ófyrirsjáanleikanum í íslenska veðrinu. Ég er fæddur og uppalinn í Danmörku þar sem landslagið er allt flatt svo fjöllin á Íslandi virkuðu gífurlega heillandi á mig. Ég man eftir því að hafa verið að útskýra það sem ég kallaði „Íslandslyktina“ fyrir foreldrum mínum. Það var lyktin sem ég fann þegar við stigum út úr Leifsstöð og var blanda af köldum ferskum vind,  hveralykt og lyktinni frá hafinu.“

Gunnar Freyr segir að hann hafi heimsótt Ísland einu sinni til tvisvar á ári sem barn. Hann fór annaðhvort um jól eða hásumar og upplifði því miklar andstæður í árstíðum. Tíminn á Íslandi var nýttur til þess að vera með fjölskyldum og vinum á höfuðborgarsvæðinu og því lítið kannað. 

„Ég man samt alltaf vel eftir ferð sem ég og pabbi minn fórum sumarið 1996 norður í land og til Siglufjarðar þar sem hann ólst upp og bjó til 10 ára aldurs. Við gengum saman upp í Hvanneyrarskál og ég fann fallega steina eða kristalla sem ég tók með mér heim til Danmerkur. Ég sagði vinum mínum að ég hefði fundið demanta í fjöllunum á Íslandi!“

Þakklátur fyrir að hafa ekki flutt til Íslands sem barn

Ísland var alltaf ofarlega í huga Gunnars þegar hann var barn og reyndi hann stundum að sannfæra foreldra sína um að flytja aftur til Íslands svo hann gæti fengið að búa í þessu töfrandi landi. Í dag er hann þakklátur fyrir að hafa flutt til Íslands sem fullorðinn maður, þegar hann var sjálfur tilbúinn og segir það gera sér kleift að sjá landið í öðru ljósi en ella. 

„Sem Íslendingur alinn upp í Danmörku hefur það klárlega áhrif á hversu mikið ég kann að meta íslenska náttúru. Ef ég á að vera hreinskilinn er engin sérstaklega áhugaverð náttúra til í Danmörku fyrir utan kannski örfáa staði. Landið er flatt og það er erfitt að finna svæði sem ekki eru mótuð af manninum á einn eða annan hátt. Sumum Íslendingum finnst það skrýtið ef ég segi þeim að mér líki veðrið og lífið svo miklu betur hér en í Danmörku. Fyrir mér er Ísland landið þar sem þú getur látið drauma rætast.

Þegar ég kom fyrst til Íslands sá ég allt með augum þess sem kemur utan frá. Ég leyfði mér að sjá landið með augum útlendings en upplifði mig sem Íslending. Ég held að lykillinn að velgengni minni sem ljósmyndari á Instagram sé að ég hef auga fyrir því hversu einstakt og stórbrotið landið er, eitthvað sem margir Íslendingar taka sem sjálfsögðum hlut. Hlutir eins og norðurljósin, snjóbylir, jöklar, hraunið, hverasvæði og heita vatnið sem kemur upp úr jörðinni er töfrum líkast fyrir mér.“

Hið raunverulega ferðalag hófst á Íslandi

Gunnar stefndi þó ekki alltaf á að flytja til Íslands. 

„Árið 2012 byrjaði ég að vinna, í því sem ég áleit vera draumastarfið, hjá PwC endurskoðun og ráðgjöf í Kaupmannahöfn. Fljótlega fannst mér lífið aðeins ganga út á að vinna þar sem vinnuframlagið var oft vanmetið og vinnustundir ekki greiddar aukalega. Álagið var mikið, stress og endalaus tímapressa, langir vinnudagar og þrýstingur varðandi starfsframa einkenndi lífið. Mér fannst bara einhvern veginn að ég væri ekki á réttri hillu í lífinu.

Mig hafði lengi langað að ferðast um heiminn og í byrjun ársins 2014 byrjuðu ég og kærasta mín að hugsa um hvernig við gætum breytt tilveru okkar í þá átt sem okkur dreymdi um. Draumurinn um að búa á Íslandi vaknaði á ný og við ákváðum að selja allar eigur okkar og ganga á vit ævintýranna. Smátt og smátt án þess að segja neinum frá byrjuðum við að tæma íbúðina sem við bjuggum í og safna peningum sem gerði okkur mögulegt að ferðast um heiminn í þrjá mánuði og enda heimsferðina á Íslandi, þar sem hið raunverulega ferðalag okkar hófst. Eftir komuna til Íslands starfaði ég hjá Icelandic Group við innri endurskoðun og gerði það okkur mögulegt að koma undir okkur fótunum. Allir auka peningar og frítími fór í að ferðast um Ísland. Hugmyndin var að ljósmynda og skrásetja upplifanir mínar á Íslandi á Instagram, þar sem ég sem Íslendingur var að upplifa landið í fyrsta sinn. Þannig fæddist hugmyndin „Icelandic Explorer“. 

View this post on Instagram

Icelandic camouflage outfit. #iceland

A post shared by GUNNAR FREYR (@icelandic_explorer) on Feb 22, 2020 at 4:32am PST

Hvernig gengur að afla tekna með því að ferðast um landið og taka myndir?

„Þegar ég byrjaði að vinna sem ljósmyndari og sem persóna á samfélagsmiðlum árið 2015, var enginn sem hafði trú á því að að væri hægt að lifa á því, slík atvinnugrein var eiginlega ekki til. Í byrjun árs 2016 eftir að hafa unnið í rúmt ár á Íslandi hjá Icelandic Group tók ég stökkið sem sjálfstæður ljósmyndari. Í byrjun vann ég líka sem endurskoðandi en smátt og smátt fékk ég fleiri verkefni og gat tekið skrefið til fulls. Í byrjun voru þetta mörg smá verkefni. Allt frá því að stýra samfélagsmiðlum fyrir aðra, sinna stefnumótun fyrir fyrirtæki á samfélagsmiðlum yfir í ljósmyndaverkefni fyrir bæði íslensk og erlend fyrirtæki og ljósmynda vinnuhópaferðir bæði hér á Íslandi og í ferðum til Grænlands.

Það er kostnaðarsamt að ferðast um og taka myndir á Íslandi, þú þarft góðan bíl, það þarf að fjárfesta í bestu græjunum og ferðakostnaður er hár. Mjög fljótt tókst mér að samnýta ferðir og gera þær sjálfbærar. Mér hefði aldrei dottið í hug að ég myndi geta þénað meira í þessu starfi en ég gerði meðan ég vann fyrir stærsta endurskoðunarfyrirtæki í heimi. Ég er minn eigin herra, er frjáls bæði fjárhagslega og frjáls til að vinna hvaðan sem er.  Allt þetta var sem fjarlægur draumur fyrir mig í byrjun ársins 2015.

Einnig var það stór heiður fyrir mig þegar Canon Nordic hafði samband við mig og bað mig um að gerast svokallaður „Canon Nordic Ambassador”. Það sagði mér að ég væri að gera eitthvað rétt.“

Tók Instagram alvarlega og nýtti sér miðilinn

Gunnar er með 339 þúsund fylgjendur á Instagram. 

Hvernig varðstu svona vinsæll á Instagram? 

„Árið 2015 var Instagram sem samfélagsmiðill lítið þekktur á Íslandi. Ég var einn af þeim fyrstu hér á landi til að taka þennan miðil alvarlega og nýta mér hann. Í lok 2015 var ég með 15 þúsund fylgjendur en frá því var þetta eins og snjóbolti sem rúllaði af stað. Aðrir Instagram-notendur fóru að deila efninu mínu sem gaf mér fleiri fylgjendur. Enn fremur hafa verið nokkur mikilvæg móment þar sem myndirnar mínar hafa farið á flug og bætt við fylgjendum. Besta dæmið er Hallgrímskirkjumyndin mín í snjókomunni í lok febrúar 2017 sem var birt í fréttablöðum og fréttasíðum um allan heim. Hún varð til þess að ég fékk 10 þúsund fylgjendur á bara einum degi.

Það er gífurlega tímafrekt að sinna samfélagsmiðlasíðu svo vel sé og láta hana vaxa og dafna. Á tímabilinu 2016 til 2018 var það að byggja upp Instagram-prófílinn minn stór hluti af lífi mínu. Ég vann mjög hart að því að heimsækja einstaka staði og mynda þá á annan hátt en fólk hafði áður séð. Samfara góðri stefnumótun varðandi samfélagsmiðla tókst mér að láta það borga sig. Til að vaxa á samfélagsmiðlum þarf það að vera hluti af þínu lífi og það getur tekið marga klukkutíma að undirbúa bara eina færslu og innihald, samskipti við fylgjendur og að fínstilla stefnumótunina. Ég hef reynt að láta íslenska sögu, menningu og lífsstíl vera hluta af myndunum mínum þegar ég er að setja þær upp á Instagram og er að semja texta, þannig hef ég reynt að skapa mér minn eigin stíl.  

View this post on Instagram

Lets all do the snow-dance so we can get a little bit more of this in our lives! #Iceland #giveussnow

A post shared by GUNNAR FREYR (@icelandic_explorer) on Dec 12, 2018 at 7:47am PST

„Í byrjun voru flestir fylgjendur mínir frá Bandaríkjunum en Instagram varð fyrst vinsælt þar vestra. Í dag koma fylgjendur mínir alls staðar frá. Fleiri og fleiri Íslendingar nota Instagram þannig að sá hluti hefur vaxið upp á síðkastið. Í dag er ég oft stoppaður úti á götu, bæði af Íslendingum og ferðamönnum og spurður að því hvort ég sé ekki  ljósmyndarinn Gunnar „Icelandic Explorer”.

Fylgjendahópur Gunnars dreifist víða.
Fylgjendahópur Gunnars dreifist víða. Ljósmynd/Aðsend

Það er alltaf eitthvað sem maður á eftir að sjá“

Gunnar segir erfitt að velja einn stað sem er í uppáhaldi en hann er fljótur að skipta um skoðun eftir því hverju hann er að leitast eftir. Stundum langar hann að vera einn og vill ekki mynda fólk. Stundum sækir hann hins vegar í fólk, sögu og menningu. 

„Ég er yfirleitt mjög hrifinn af fáförnum stöðum eins og Vestfjörðum, Vestmannaeyjum og Austfjörðum. Eitt af því besta sem ég geri er að ferðast einn um Vestfirði og upplifa töfrana í umhverfinu, heimsækja fallega staði og enda ferðina með hamborgara á Vegamótum í Bíldudal. Annar stórkostlegur staður er Klifbrekkufoss í Mjóafirði. Fegurðin er ótrúleg og  leiðin inn að fossinum er töfrandi og ævintýraleg.“

Áttu enn eftir að heimsækja einhverja staði?

„Það besta við Ísland er að það er alltaf eitthvað sem maður á eftir að sjá og heimsækja. Annaðhvort hefur þú ekki komið þangað enn þá eða aðstæður, birta eða annað hefur ekki verið eins og þú óskaðir og þú verður að fara aftur. Eða þú átt eftir að heimsækja staðinn á öðrum árstíma. Þótt ég hafið séð meira af Íslandi heldur en margir þá á ég enn þá ýmislegt eftir. Það eru staðir á hálendinu sem ég á eftir að rannsaka og einnig staðir á Austurlandi og Norðausturlandi. Mér finnst tilhlökkun í því að eiga enn eftir að heimsækja staði þar sem það viðheldur spennunni og ævintýraþránni.

Mig langar mikið til að heimsækja Þrídranga við Vestmannaeyjar og einnig aðrar eyjar sem ég hef ekki heimsótt, eins og norðausturhlið Hornstranda og ýmis svæði á Austurlandi.“

Hvað ætlar þú að gera í sumar?

„Einmitt núna er ég að ferðast um hefðbundna íslenska ferðamannastaði sem erfitt hefur verið að ljósmynda vegna þess hve margt fólk er þar alltaf. Nýlega fór ég í Reynisfjöru og að Skógarfossi og það var ekkert fólk! Það var ótrúleg upplifun.

Ég og konan mín eigum von á tvíburum um miðjan júlí og á sama tíma erum við að flytja í nýtt hús. Sumarið mun að mestu leyti fara í þetta svo það er nóg að gera. Ég vonast til að geta farið í smá ferð á Vestfirðina seinni partinn í sumar með allan hópinn. Sá elsti sem er þriggja ára er mjög spenntur að fara í ferðalag og taka myndir á sína eigin myndavél og ég get ekki beðið eftir að fara með honum og mynda úti í íslenskri náttúru.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert