Hjólar um landið með ungum syni

Feðgarnir Haukur Eggertsson og Eggert Hauksson við upphaf ferðar um …
Feðgarnir Haukur Eggertsson og Eggert Hauksson við upphaf ferðar um Suðurland sumarið 2018. Ljósmynd/Aðsend

Haukur Eggertsson iðnaðarverkfræðingur er duglegur að hjóla um landið og oftar en ekki tekur hann fjögurra ára son sinn Eggert með í ferðalagið. Hann segir mikilvægt að átta sig á að ferðalög með börnum snúast fyrst og fremst um samveru í fallegu umhverfi en ekki afrek.

Utanlandsferðin verður að bíða

Áætlanir Hauks röskuðust lítillega út af kórónuveirunni. „Ögn, ópöntuð og óskipulögð utanlandsferð í sumar verður að bíða betri tíma. Þá fóru gönguskíðaferðir fram í fámennari hópum, skipulag þeirra, sérstaklega tengd ferðum til upphafsstaðar og frá lokastað flóknari,“ segir Haukur.

Þá hefur Haukur tileinkað sér afslappað viðhorf gagnvart sumrinu fram undan og segist skipuleggja ferðalögin með stuttum fyrirvara. „Kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða. Innanlandsferðir mínar eru flestar skipulagðar með stuttum fyrirvara (þegar þokkalegar langtímaveðurspár liggja fyrir), og ef farið er á fæti en sérstaklega hjóli, er gott að hafa vindinn í bakið, og þokkalegt veður framundan í nokkra daga, en mér finnst varla taka því að fara langt út fyrir borgarmörkin nema fyrir nokkra daga,“ segir Haukur.

Kemur ekki sligaður í náttstað

Haukur segir að kostirnir við að ferðast á hjóli séu margir. „Sem samanburð við gönguferðir, sem ég stunda einnig, þá ber maður aldrei neitt, öll þyngdin er á hjólinu þannig að maður kemur ekki sligaður í náttstað eins og eftir göngu með allt á bakinu. Þá eru álagsmeiðsli eins og bak, hné, tær og hælar nær óþekkt en hafa spillt gönguferðum fyrir mörgum. Þá kemst maður hraðar yfir, sem þýðir að hægt er að verja hlutfallslega meiri tíma á áhugaverðu stöðunum, m.v. göngu, og komist er upp með að hafa minni mat með sér.

Þá þarf göngumaðurinn oft að reiða sig á flutning til og frá gönguleið inni á hálendinu, á meðan hægt er að hjóla á skömmum tíma af hálendinu niður á láglendi hvaðan taka má rútu í bæinn. Og þegar ferðast er með börn, sem ekki geta gengið sjálf lengri vegalengdir þá er mjög erfitt að hafa barnið, farangur þess og sinn á bakinu, en á hjólinu, með krakkann í kerru, þá eru okkur flestir vegir færir.

Sem samanburð við jeppaferðir, sem ég stunda einnig, þá er engin hætta á að festa sig, hægt er velja úr miklu fjölbreyttari leiðum, og tengja saman tvo botnlanga, og fá fullt, fullt af hreyfingu út úr þessu. Ókostirnir eru að sum landssvæði henta síður til ferðalaga á hjóli, svo sem Hornstrandir, ýmsar leiðir á Tröllaskaga, hraun og ýmis fjöll. Það þýðir að ef að búast má við lágskýjuðu verði er oft betra að velja hjólreiðar en metnaðarfullar fjallaferðir.
Til samanburðar við jeppaferðir, þá skortir skjól fyrir veðri og vindum þegar svo ber undir, stórar ár geta verið erfiðar á fæti en færar jeppum, og auðvelt að klára ferðina heim í borgina á ný.

Gera skal ráð fyrir hinu óvænta

Þegar ferðast er með börn ráðleggur hann öllum að gera ráð fyrir hinu óvænta. „Það er mikilvægt að gera ráð fyrir hinu óvænta, að dagleiðir geti orðið umtalsvert styttri en ella, og að mótvindur, mjög slæmir vegir, einstigi og kerrur fara ekki vel saman. Og átta sig á að ferðalög með börnum snúast fyrst og fremst um veru ykkar saman í fallegu umhverfi en ekki afrek.“

Spurður um hvað sé nauðsynlegt í ferðalagið leggur Haukur áherslu á að fólk taki ekki of mikið með sér. „Spurningin er frekar hvað er ónauðsynlegt að taka með í ferðalagið, en reynsla mín sem ferðamanns á fæti, hjóli eða á skíðum, er að fólk er gjarnan að taka með sér of mikið. Á reiðhjóli er nauðsynlegt að hafa með sér viðgerðarsett, aukaskrúfur, slöngur og bætur, og getuna til að ráða fram úr algengustu bilunum. Þá er góður svefnpoki, helst dún, nauðsynlegur þannig að hægt sé að hvílast vel, en íslenskar sumarnætur á hálendinu eru oft skuggalega nálægt frostmarki. Þá mæli ég með léttum og lagskiptum klæðnaði þannig að þegar kalt er, sé hægt að klæðast honum öllum, frekar en þykkar yfirhafnir sem nýtast bara við takmarkaðar aðstæður.

„Margar perlur að Fjallabaki“

Spurður um eftirminnilegasta ferðalagið nefnir Haukur sjö daga hjólaferð um landið. „Það ferðalag sem mér er efst í huga nú um stundir er sjö daga hjólreiðatúr frá Möðrudalsöræfum um Öskju og niður á Rangárvellina sem ég fór í fyrrasumar, og hvers frásögn um má finna á vef íslenska fjallahjólaklúbbsins. Þetta var lengsta samfellda óbyggðaferðin mín á reiðhjóli, en ég á lengri þar sem farið er um byggðir a.m.k. að hluta til, en við feðgar vorum að koma úr einni slíkri átta daga ferð.

Haukur á sér marga uppáhaldsstaði á Íslandi. „Það eru margar perlur að Fjallabaki og í Jökulsárgljúfrunum, svo sem Forvöð og Vígabjarg, þá hafa Vonarskarð, Herðubreið og Askja stóran sess í mínu hjarta. Sá staður sem ég hjóla samt oftast um á hálendinu er Arnarvatnsheiðin. Ef litið er út fyrir Ísland þá væri gaman að heimsækja Patagóníu, Grænland og Nýja Sjáland,“ segir Haukur að lokum.

Tjaldað á Mýrum sumardaginn fyrsta 2019.
Tjaldað á Mýrum sumardaginn fyrsta 2019. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is