Fór í óvænta brúðkaupsferð til Lanzarote

Margrét Rósa er í óvæntri brúðkaupsferð um þessar mundir.
Margrét Rósa er í óvæntri brúðkaupsferð um þessar mundir.

Margrét Rósa Einarsdóttir hótelstjóri er á Lanzarote í brúðkaupsferðalagi um þessar mundir. Hún er ekki vön að vera erlendis á þessum árstíma og alls ekki vön að vera gift kærastanum sínum sem hún hefur verið með í áratugi. Því kom það henni skemmtilega á óvart þegar ferðalagið breyttist í brúðkaupsferð skyndilega. 

„Ég hélt að ég myndi aldrei giftast en sem sagt þegar ég kom heim frá Hótel Glym um þar síðustu helgi þá fór ég um miðnættið að strauja og pakka fyrir ferðina sem við ætluðum í. Þá færði kærastinn minn til 26 ára mér hring og bað mín. Ég var náttúrlega í skýjunum, orðin trúlofuð. Þá sagði hann mér að presturinn og okkar nánasta fólk kæmi á eftir. Klukkan þrjú um nóttina birtist svo fólkið okkar til að vera viðstatt giftinguna. Skemmtilegast var að hann var búinn að hanna og láta gera brúðartertu handa okkur.“

Margrét Rósa segir gott að vera komin út í sól og sumaryl enda árið verið ólíkt því sem hún er vön. 

„Árið hefur verið mjög skrítið. Vinnulega hefur það verið mjög strembið að halda öllu gangandi og á ég eftir að sjá fyrir endann á því. Ég er hins vegar mjög bjartsýn fyrir árið sem er að koma. Ég hef samt sennilega aldrei unnið jafn lítið inn á milli þótt stressið hafi verið mikið yfir ástandinu. Mikil ábyrgð fylgir því að vera með fullt af fólki í vinnu og allt að hrynja. Öll vinnan sem lögð var í markaðssetningu á Hótel Glym og Englendingavík fór fyrir lítið en hún nýtist bara á nýju ári vona ég og vonandi held ég flotta starfsfólkinu mínu en það er hrikalegt að missa það allt út í óvissuna.“

Hvað ætlarðu að gera á áramótunum?

„Ég ætla að finna einhverja huggulega sýningu hér úti og vonandi finn ég grísaveislu einnig.“ 

Hvernig sérðu árið 2021 fyrir þér?

„Ég sé það fara rólega af stað en er mjög bjartsýn á að við náum að gera árið gott þegar allt fer af stað. Eins held ég að þótt árið 2020 hafi verið hræðilegt ár, þá séum við búin að læra að meta rólegheit og kunnum betur að meta okkar fólk.“

Hvernig er að ferðast á þessum tímum?

„Það er lífsreynsla. Að sjálfsögðu er grímuskylda og ekki margir á ferli. Hér er maður laus við allt stress ef maður er tilbúinn í hvað sem er.“

Margrét er nýgift og glæsileg í útlöndum.
Margrét er nýgift og glæsileg í útlöndum.

Hefurðu áður verið erlendis á þessum tíma?

„Nei, það hef ég ekki gert. Ég hef alltaf viljað vera heima með stórfjölskyldunni á jóladag og drengjunum mínum og þeirra fólki á aðfangadag en maðurinn vill helst vera í útlöndum á jólunum. Svo núna notum við tækifærið þegar ekki verður hægt að hitta fólkið sitt og annar sonurinn og tengdadóttirin eru í Svíþjóð og komast ekki heim.

Sól og sumar gerir mikið fyrir andlegu hliðina. Oft fattar maður það ekki fyrr en maður kemst af landi brott.“

Var ekki áþreifanlegt að komast úr ástandinu í sólina núna?

„Jú, ég er voða mikil sólarkona og æðislegt að sóla sig um jólin verð ég að segja. Mig langar bara að óska öllum farsældar á komandi ári og vona að allt fari vel og muna að lífið og heilsan er það mikilvægasta sem við eigum.“

Margrét Rósa tók þessa mynd nýverið úr brúðkaupsferðinni.
Margrét Rósa tók þessa mynd nýverið úr brúðkaupsferðinni.
Það var skilið eftir fallegt hjarta á Íslandi áður en …
Það var skilið eftir fallegt hjarta á Íslandi áður en lagt var á stað í sólina.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert