„Það er svo mikil orka í fjallaloftinu“

Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, elskar að fara í ferðalög þar …
Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, elskar að fara í ferðalög þar sem hún kemst á hjól eða snjóbretti. Ljósmynd/Aðsend

Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur ferðast víða um heiminn og farið í fjölbreytt ferðalög. Katrín er ekki týpan sem vill flatmaga í sólinni á Tenerife í tvær vikur heldur hafa eitthvað fyrir stafni í ferðalaginu, eins og til dæmis fara á snjóbretti eða hjóla.

Hvernig ferðalögum ertu hrifin af?

„Mér finnst skemmtilegast að fara í ferðalög þar sem er einhver náttúra að upplifa og einhver hreyfing innifalin í ferðalaginu. Ég er alls ekki týpan til að fara á sólarströnd að hanga. Snjóbretta- eða fjallahjólaferðir í Alpana eru alveg toppurinn, það er svo mikil orka í fjallaloftinu. Einnig fórum við hjónin með börnin okkar, þá tveggja og fimm ára, í hjólaferð til Frakklands, þar sem við hjóluðum á milli lítilla þorpa í Loire-dalnum, með þann fimm ára á tengihjóli og litlu stelpuna í hjólavagni. Við ætlum alveg klárlega að fara í svoleiðis ferð aftur.“

Áttu þér einhverja uppáhaldsborg?

„Ég upplifði Berlín rosalega sterkt þegar ég fór þangað í fyrsta skiptið um tvítugt í keppnisferð með badmintonlandsliðinu. Ég fór svo þangað seinna, akandi frá Kaupmannahöfn, með vinum mínum til að fara á Snoop Dogg- og The Game-tónleika. Nýlega fór ég þangað með besta vini mínum þar sem við nutum þessa fjölbreytta mannlífs, skemmtilegu verslana og frábæru matarmenningar sem er þar. Planið var að fara aftur í fyrra, sú ferð verður farin um leið og Covid-ástandið batnar.“

Hvert er eftirminnilegasta ferðalag sem þú hefur farið í?

„Við fjölskyldan fórum í þriggja vikna ferð 2019, að heimsækja foreldra mína í Kosta Ríka sem höfðu þar vetursetu. Þar áttum við yndislega tíma með þeim og bróður mínum og hans fjölskyldu. Kosta Ríka er stórkostlegt land. Náttúran er svo falleg og allt er svo grænt, það er erfitt að lýsa því. Að vakna við öskurapa og fuglasöng er svo upplifun út af fyrir sig, sérstaklega fyrir krakkana. Maturinn var góður og félagsskapurinn í þessari ferð enn betri.

Eins fór ég í þriggja mánaða ferð um Afríku með vinkonum mínum 2009, í miðju hruni, sem var alveg ótrúleg upplifun og varð til þess að ég fór ári síðar á Kilimanjaro.“

Ég er alls ekki týpan til að fara á sólarströnd …
Ég er alls ekki týpan til að fara á sólarströnd að hanga. Snjóbretta- eða fjallahjólaferðir í Alpana eru alveg toppurinn, það er svo mikil orka í fjallaloftinu. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér einhvern eftirlætismat sem þú hefur fengið á ferðalögum?

„Mér finnst gaman að borða á fínum veitingastöðum en líka að prófa eitthvað nýtt. Ætli ég verði samt ekki bara að segja að kebab í Köben sé eitthvað sem ég verð að fá mér í hvert skipti sem ég kem þangað, enda var það mín helsta fæða á námsárunum þar.“

Hvaða stað mælir þú með að fólk heimsæki?

„Kosta Ríka, ekki spurning. Óviðjafnanlegt land.“

Fjallahjólaferðir eru Katrínu að skapi.
Fjallahjólaferðir eru Katrínu að skapi. Ljósmynd/Aðsend

Hvað ætlarðu að gera um páskana?

„Njóta með fjölskyldunni, fara í hjólatúr og skokka og kannski kíkja einhverja daga í sumarbústað.“

Hvert langar þig að ferðast þegar heimsfaraldurinn er yfirstaðinn?

„Mig langar helst að fara í fjallahjólaferð til Moab í Bandaríkjunum. Merkilegt umhverfi og ótrúlega spennandi hjólaleiðir eru það sem kallar á mig á þar.“

Fjölskyldan í Kosta Ríka.
Fjölskyldan í Kosta Ríka. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert