Ferðast alltaf á afmæli sínu

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir í Selárdal.
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir í Selárdal. Ljósmynd/Aðsend

Aðalheiður Eysteinsdóttir listakona býr og starfar á Siglufirði. Sumarið er annasamur tími hjá henni og því er haustið og veturinn hennar helsti tími til ferðalaga. Hún leggur mikið upp úr því að njóta augnabliksins og vera þakklát fyrir frelsið.

Ferðaðistu mikið í sumar?

„Sumarið er annasamur tími hjá mér þegar kemur að listum og menningu og ekki gefst mikill tími til ferðalaga. Þá tek ég á móti hinum fjölmörgu ferðamönnum sem leggja leið sína um Siglufjörð á menningarviðburði í Alþýðuhúsinu mínu. Haustin og veturnir eru minn tími til að ferðast og fer ég ávallt í tvær utanlandsferðir árlega. En ég gef mér þó alltaf frá tíma og ferðast um landið í kringum afmælisdaginn minn 23. júní.“

Hvað stendur upp úr?

„Í afmælisferðum mínum hóa ég saman nánum vinum og fjölskyldu og við leggjum uppí hópferð um landið sem ávallt er mjög ánægjuleg. Stundum ekið um langan veg en stundum bara næsta nágrenni. Í ár skoðuðum við nágrannabyggðalagið Dalvík og Svarfaðardal og gistum í lúxus í Ytri Vík. Þaðan var haldið inn Eyjafjörðinn til stefnumóts við garðplöntur og önnur skemmtilegheit sem fjörðurinn hefur uppá að bjóða. Því þegar grannt er skoðað, hafa allir staðir uppá áhugaverða menningu að bjóða, fagurt landslag og heillandi mannlíf. Og einmitt um þetta leyti var veðrið að snúast frá snjókomu og kulda í besta sumar á norðurlandi í manna minnum.“

Eftirminnilegasta ferðalagið?

„Við lögðum í þríþraut á Vestfirði fyrir allmörgum árum, ég Jón Laxdal, Guðbrandur Siglaugsson og Brák Jónsdóttir þá 5 ára. Ekið átta tíma til Ísafjarðar frá Akureyri, tjaldað og sofið aðeins, siglt í brælu í Hornvík og áð tvo tíma hjá Stíg heitnum og að lokum klifið til móts við vitavörðinn í Hornbjargi, Ólaf Þ. Jónsson betur þekktur sem Óli kommi.

Þokan var svo þétt að ekki mátti greina hreyfingu í meters fjarlægð, en þá heyrðist HÓ og svarað HÓ og aftur HÓ þar til við fundumst. Þar dvöldum við í viku við húslestra, göngutúra, þagnir, fótaböð, samtöl við refi og seli og kraftmikla náttúruupplifun. Þetta var fyrsta ferðin mín á Vestfirði á fullorðinsárum og hef ég ferðast þangað töluvert síðan. Eftirminnilegust er Snæfjallaströndin og Selárdalur.“

Áttu þér draumaferðalag?

„Ég hugsa ekki mikið um að ferðast, líður í raun mjög vel heima þar sem ég hef búið mér til ævintýralegt líf samofið listum og menningu. En það hefur verið hluti af minni hringrás að dvelja erlendis í tvo til þrjá mánuði ár hvert og hafa Amsterdam og Árósar verið áfangastaðir mínir undanfarin ár. Á báðum stöðum á ég heimili að heiman og get unnið að listsköpun ein eða í samstarfi við aðra listamenn. Ferðir mínar tengjast alltaf listaverkefnum eins og sýningarhaldi eða samvinnu og gefa mér innsýn inni strauma og stefnur utan landsteinana.

Draumaferðin er að komast á stað sem gefur mér næði til að lifa í núinu og um leið gefa af mér til samfélagsins.“

Einhver góð ferðaráð?

„Nei ég held að ég sé ekki rétta manneskjan til að gefa ferðaráð, en almennt reyni ég að njóta hverrar mínútu sem mér gefst og vera þakklát fyrir frelsið sem ég hef.“

Hvað er framundan?

„Ég vinn að list minni og undirbý viðburðaríkt ár 2022 þar sem ég set upp eigin sýningar, adjúpa nýtt verk í Garðinum hjá mér og held uppá tíu ára menningarafmæli Alþýðuhússins á Siglufirði. Gefin verður út bók af því tilefni og haldin fimm daga listahátíð sem ber yfirskriftina Frjó afmælishátíð. En fyrst er að ljúka þessu ári með sýningum í Kompunni og listahátíðinni Skafl sem fer fram 25. - 31 október næstkomandi.

Þá verður mikið um dýrðir með tónlist, ljóðum, gjörningum kvikmyndagerð og myndlist. Sautján listamenn koma til Siglufjarðar til samtals og vinnu í sjö daga og verður áhugavert að fylgjast með gerjuninni sem þar verður til. Alþýðuhúsið er heimili mitt og vinnustofa þar sem við fjölskyldan stöndum einnig fyrir ýmsum menningarviðburðum á árs grundvelli. Þannig er listin og lífið samofið í eina heild sem skapar ævintýri.“

Aðalheiður í leit að poolstofu í Amsterdam.
Aðalheiður í leit að poolstofu í Amsterdam. Ljósmynd/Aðsend
Útsýnið frá Dalvík út Eyjafjörðinn.
Útsýnið frá Dalvík út Eyjafjörðinn. Ljósmynd/Aðsend
Aðalheiður er afar virtur listamaður og gerir skúlptúra og lágmyndir …
Aðalheiður er afar virtur listamaður og gerir skúlptúra og lágmyndir úr við. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert