Veiddu sér til matar í Danmörku

Guðjón Ragnar Jónasson á ferðalagi.
Guðjón Ragnar Jónasson á ferðalagi. Ljósmynd/Aðsend

Guðjón Ragnar Jónasson er rithöfundur og forstöðumaður símenntunar og háskólagáttar hjá Bifröst. Guðjón hefur meðal annars vakið athygli fyrir Kindasögur sem hann skrifaði ásamt Aðalsteini Eyþórssyni auk þess sem hann skrifaði bókina Hin hliðin.

Guðjón átti gott sumar þar sem hann dvaldi meðal annars í Berlín en ein eftirlætis ferðaminning hans er þegar hann sótti sumarnámskeið í dönskum lýðháskóla með syni sínum. Þar veiddu þeir fisk, tíndu sveppi og annað sem fannst í skóginum og matreiddu. 

Ferðaðistu mikið í sumar?

„Ég ferðaðist töluvert í sumar. Ég hélt þó nokkuð til á norðausturhorninu en þann landshluta þekkti ég lítið fyrir. Einnig fór ég í vikuferð til Berlínar en þar dvaldi ég hér áður jafnan allt sumarið við skriftir og andaði að mér sögu borgarinnar.“

Hvað stóð upp úr?

„Það var undarlegt að ferðast í sumar, færra fólk var á ferli og flugstöðvarnar nærri tómar. Ég fann sterkt að tímarnir voru sögulegir. Vistin var samt góð, veitingastöðum og kaffihúsum hafði fækkað ögn, þar sem kaffihús lögðu upp laupana voru oft opnaðar svokallaðar hraðprófunarstöðvar þar sem hægt að var að fá kóvídpróf á innan við 15 mínútum.“ 

Eftirminnilegasta ferðalagið?

„Þegar við feðgar fórum á sumarnámskeið í dönskum lýðháskóla. Námskeiðið stóð í viku og var ætlað börnum og foreldrum og jafnvel ömmum og öfum. Námskeiðið var haldið í Logumkloster á Jótlandi. Það hét Grænn matur og gúmmístígvél og gekk út á að við fórum í skóginn og söfnuðum grösum og tíndum sveppi, veiddum fisk í sjónum og matreiddum upp úr því sem jósk náttúran bauð upp á. Ungir og aldnir snæddu þá saman á kvöldin og kynslóðirnar tengdust vel.

Eins og nafnið ber með sér voru matföngin græn og gómsæt, stundum vorum við feðgar þó ögn svangir eftir matinn, það kom því fyrir að við laumuðumst yfir landamærin og fengjum okkur eitthvað brasað og gott á krá nokkurri Þýskalandsmegin.“

Áttu þér draumaferðalag?

„Mig langar mjög að ferðast til Sikileyjar, dvelja þar einn vetur og anda að mér Miðjarðarhafsloftslaginu. Saga Sikileyjar er merkileg.“

Einhver góð ferðaráð?

„Ég reyni að forðast morgunflug, best finnst mér að fljúga rétt eftir hádegi. Eina sem mér finnst erfitt í tengslum við ferðalög eru flugvellir, þeir henta mér illa. Ég held að stutt sé í umhverfisvæna ferju sem siglir inn til Þorlákshafnar sem tengja mun jósku sandöldurnar og sandinn ofan Þorlákshafnar. Ferjur hentar mér prýðilega, á sjó upplifi ég mig sem frjálsan fugl sem flýgur yfir hafið. Ég held að tími ferjusiglinga sé að renna upp enda flug ekki umhverfisvænn ferðmáti.“

Hvað er fram undan?

„Ég hef ekki kortlagt nein ferðalög á næstunni. Samt er ferðahugur í mér, hugboðið segir mér að ég skreppi eitthvað um jólin.“

Guðjón átti góða daga í dönskum lýðháskóla.
Guðjón átti góða daga í dönskum lýðháskóla. Ljósmynd/Aðsend
Ferð feðganna til Danmerkur var afar eftirminnileg. Þar veiddu þeir …
Ferð feðganna til Danmerkur var afar eftirminnileg. Þar veiddu þeir sér til matar og matreiddu ýmislegt sem náttúran hafði upp á að bjóða. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert