Síðustu aurarnir rétt dugðu fyrir brauði og osti

Þórdís hefur ánægju af því að kynnast menningu landanna sem …
Þórdís hefur ánægju af því að kynnast menningu landanna sem hún ferðast til. Hér er hún í Róm. Ljósmynd/Aðsend

Þórdís Helgadóttir rithöfundur kýs frekar að ferðast sjaldnar en dvelja þá lengur og kynnast áfangastöðunum vel. Best sé þegar ferðalagið skilji eftir sig þekkingu á tungumáli, mat og menningu. Þórdís hefur vakið mikla athygli fyrir verk sín, smásagnasafnið Keisaramörgæsir og ljóðabókina Tanntöku sem kom út í haust. Þá er Þórdís ein af Svikaskáldum sem skrifa bókina Olíu.

Ferðaðistu mikið í sumar?

„Nei, því miður. Vegna Covid hefur öllum ferðalögum til útlanda verið skotið á frest. Síðustu tvö sumur höfum við haft það notalegt hérna heima, farið í nokkrar sumarbústaðaferðir og svo heimsóttum við fjölskyldan Vestmannaeyjar, sem var í fyrsta skipti fyrir mig og náttúrufegurðin hreif mig gjörsamlega upp úr skónum.

Annars er ég dálítið á „less is more“-línunni þegar kemur að langferðalögum. Ég vil frekar fara sjaldnar og dvelja þá lengur og kynnast áfangastöðunum vel. Þegar ég var yngri greip ég öll tækifæri til að fara í skiptinám, fór með AFS til Taílands og Erasmus til Ítalíu, og seinna fékk ég Fulbright-styrk til náms í Bandaríkjunum. Öll draumaferðalögin mín eru langdvalir. Það er líka svo gaman að hlakka til í langan tíma. Og það er svo gaman þegar ferðalagið skilur eftir sig þekkingu á tungumáli og mat og menningu.“

Áttu þér draumaferðalag?

„Ég hef aldrei komið til Afríku. Ég hef ekki endilega neinn tiltekinn áfangastað í álfunni í huga en mig dreymir um að heimsækja staði sem eru ólíkir öllu sem ég þekki.“

Eftirminnilegasta ferðalagið?

„Eyjahopp um gríska Eyjahafið laust eftir aldamót. Bara við kærustuparið með bakpoka og þvælda Lonely Planet-bók. Gistum á alls konar stöðum, í heimahúsum hjá körlum og kerlingum sem komu að taka á móti ferjunni niðri á höfn. Drukkum í okkur fornmenningu, mistókst að leigja okkur mótorhjól, heimsóttum týndar strandir og urðum ástfangin af lítilli núggateyju, þar sem við erum ákveðin í að verja ellinni. Síðan heimsóttum við Delfí, nafla alheimsins, og vorum svo rétt komin til Aþenu þegar sæstrengurinn til Íslands slitnaði og kortin okkar hættu að virka. Síðustu aurarnir rétt dugðu fyrir brauði og osti og þannig rápuðum við um, týnd úti í heimi í einn eða tvo daga. Netið er alveg búið að skemma svona ævintýri.“

Skemmtilegustu ferðafélagarnir?

„Eríkur maðurinn minn. Löng lestarferð eða „road trip“ þar sem við bara tölum og hlustum á tónlist og erum til. Það er toppurinn. Og Jóhanna frænka mín. Hún bauð mér einu sinni til Dublin og það var svo skemmtilegt að ég hef lifað á því í mörg ár.“

Hvað er fram undan?

„Rithöfundadvöl í Prag sumarið 2022. Ég hef aldrei heimsótt Austur-Evrópu og get ekki beðið. Ég fæ að dvelja í Kafka-húsi í miðborg Prag í tvo mánuði og taka þátt í Authors' Reading Month-bókmenntahátíðinni sem felur í sér lestarferðalög og heimsóknir til Brno, Bratislava og fleiri borga í Tékklandi og Slóvakíu. Svo eigum við ættingja í Hollandi sem við heimsækjum reglulega og við hlökkum mikið til næstu fjölskylduferðar þangað.“

Þórdís átti góðar stundir í Dublin með Jóhönnu frænku sinni.
Þórdís átti góðar stundir í Dublin með Jóhönnu frænku sinni. Ljósmynd/Aðsend
Þórdís hefur farið til Suomenlinna í Finnlandi.
Þórdís hefur farið til Suomenlinna í Finnlandi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert