Af hverju ekki að prófa að vera í sól um jól?

Það getur verið góð hugmynd að ferðast til Indlands í …
Það getur verið góð hugmynd að ferðast til Indlands í kringum jól.

Elísa Margrét Pálmadóttir, flugfreyja hjá Play, dýrkar ferðalög. Hún hefur komið til 27 landa og hvetur alla þá sem langar að prófa að vera í sól um jól að láta slag standa. Þeir eiga ekki eftir að sjá eftir því.

Elísa Margrét hefur ferðast víða um heiminn, meðal annars til nokkurra landa í Afríku og Asíu. Hún heldur úti ferða- og lífsstílsblogginu chasing-sunsets.blog þar sem hún skrifar um ferðalögin sín og deilir ráðum og litríkum ljósmyndum.

„Ferðaáhuginn minn hefur alltaf verið til staðar en þegar ég var yngri fannst mér ekkert skemmtilegra en að fara til útlanda með fjölskyldunni eða vinkonum mínum. Í seinni tíð hef ég haft sérstakan áhuga á að fara út fyrir Evrópu. Í raun langar mig að fara til flestra landa í heiminum. Ég fór í heimsreisu þann 1. janúar árið 2020 með kærasta mínum. Við ferðuðumst um í tæpa þrjá mánuði.

Þetta ferðalag var einstaklega skemmtilegt og jók á áhugann minn við að ferðast mikið. Það var sérstaklega fræðandi og áhugavert að upplifa öðruvísi menningarheima. Til að mynda Inle Lake í Mjanmar þar sem fólk byggir húsin sín á vatni og hagar öllu lífi sínu eftir því. Það eru margir staðir á óskalistanum mínum þegar kemur að ferðalögum. Mig dreymir sem dæmi um að fara til Ástralíu þegar það er vetur á Íslandi en þá er sumar þar,“ segir hún.

Setið fyrir utan hof í Luxor í Egyptalandi.
Setið fyrir utan hof í Luxor í Egyptalandi.

Fór til Indlands um miðjan desember

„Ég fór til Indlands sem dæmi um miðjan desember og kunni svo mikið að meta að komast í svona hlýtt loftslag rétt fyrir jólin til að slaka aðeins á í jólaösinni.

Ég gleymdi því alveg að það væru að koma jól þegar ég var úti enda hlýtt og milt veður og lítið stress. Ég tók ekki eftir neinu jólalegu að undanskildu einu jólatré sem var á næsta hóteli.

Svo var ég í flugfreyjustoppi nokkrum dögum fyrir jól í Los Angeles og þar voru seríur á pálmatrjám og einnig mjög þægilegt veður. Ég held að það sé æðislegt að vera í Kaliforníu yfir jólin því þar er alltaf gott veður.

Það er margt áhugavert og öðruvísi að sjá í Kaíró …
Það er margt áhugavert og öðruvísi að sjá í Kaíró í Egyptalandi.

Svo flaug ég út til Eygptalands á nýársdag og þá var ég ekki mikið vör við jólin frekar en á Indlandi en hótelin sem ég dvaldi á gerðu allt mjög huggulegt og skreyttu hjá sér. Það var misfallegt eftir hótelum en það er hugurinn sem skiptir mestu máli,“ segir hún.

Elísa segir að sér finnist best að vera með fólkinu sínu um jólin.

„Það er svo gott að nota þennan árstíma til að slaka á en það er vanalega mikið að gera hjá flestum í desember og er ég ekki undanskilin því. Því finnst mér gott að slaka á yfir jólin og njóta og gera stundum bara ekki neitt nema borða góðan mat, spila eða horfa á gott sjónvarpsefni. Ef ég er stödd erlendis þá vel ég að flatmaga á ströndinni eða skoða eitthvað spennandi. Áramótin eru svo auðvitað alltaf ákveðin tímamót þó að maður ráði alveg hvernig maður nálgist þau. Mér finnst gaman að horfa yfir árið og skoða hvað stóð upp úr, hvað var skemmtilegt, hvað gekk vel hjá mér og hvað mætti betur gera. Ég set mér yfirleitt áramótaheit en nota það bara sem hvatningu en ekki sem kvöð.“

Það eru forréttindi að ferðast

„Mér finnst forréttindi að ferðast og þar af leiðandi ótrúlega gaman að fá að upplifa menningu fleiri þjóða. Sérstaklega þegar kemur að jólunum en það er áhugavert og lærdómsríkt að sjá hvernig aðrir gera hlutina og hvernig áherslur eru mismunandi þjóða á milli. Sums staðar er sterk matarmenning og fjölskyldutengsl en mér finnst alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt eins og að smakka nýjan mat. Heima getur verið best en það er klárlega alltaf þess virði að fara aðeins út fyrir þægindarammann.“

Elísa hefur fyrir reglu að vera opin fyrir nýjum mat og drykk þegar hún ferðast.

„Einnig er áhugavert að tala við fólkið á staðnum og heyra hvernig haldið er upp á jólin og hvort það er gert yfirhöfuð.“

Litrík fegurð á Indlandi.
Litrík fegurð á Indlandi.

Henni fannst skrýtið að ferðast í fyrsta skiptið erlendis yfir háveturinn á Íslandi.

„Við Íslendingar erum svo vön löngum vetri, en mér finnst áhugavert að stytta aðeins veturinn og fara í nýtt umhverfi. Þá getur maður komið endurnærður heim til sín uppfullur af nýrri reynslu og fróðleik um aðra staði. Svo má alltaf muna að þegar við förum í stutta ferð þá missum við ekki af neinu heima á Íslandi yfir hátíðina. En ég hvet alla til að kynna sér málin ef löngun vaknar til að vera erlendis yfir jól eða áramót.

Það er til fjöldinn allur af alls kyns pakkaferðum, svo er ekkert mál að plana hlutina bara sjálfur og stjórna þannig ferðinni.“

Það getur verið dásamlegt að upplifa sól um jól að …
Það getur verið dásamlegt að upplifa sól um jól að mati Elísu.

Sól um jól ekki versta hugmyndin

Hvað ætlar þú að gera næstu jól?

„Næstu jól verða frekar róleg hjá mér en ég verð á fullu í fluginu að fylgja fólki út og heim til að halda jólin. Ég verð að vana á aðfangadag með foreldrum mínum og systkinum og systkinabörnum. Mér finnst gaman að upplifa jólin í gegnum frændsystkini mín.“

Leggur þú áherslu á mat, gjafir eða upplifun á jólunum?

„Þegar ég var yngri man ég eftir spenningnum sem einkenndi jólin og var það iðulega tengt pökkunum. Upplifunin og maturinn skiptu að sjálfsögðu líka máli og hef ég kunnað að meta þann hluta betur eftir að ég varð eldri og vitrari.

Upplifunin skiptir langmestu máli og pakkarnir verða að skemmtilegum bónus en það er gaman að gleðja fólkið sitt og deila aðfangadagskvöldi með því.

Svo verð ég að nefna hamborgarhrygginn sem foreldrar mínir elda og allt meðlætið en það er það besta sem ég fæ.“

Stór hluti jólanna í fjölskyldu Elísu er að vera með jólaboð í hádeginu á jóladag.

„Ég horfi einnig á hverju ári á kvikmyndirnar The Holiday og Love Actually, nokkrum dögum fyrir jól.“

Hvað með nýjan fatnað á jólunum?

„Ég er frekar einföld þegar kemur að jólafötum og kaupi mér vanalega ekki nýjan fatnað fyrir jólin. Ég hef notað sama svarta kjólinn lengi. Mér þykir samt mjög gaman að breyta aðeins til með því að vera í nýjum skóm við kjólinn eða með nýtt skart. En yfirleitt kaupi ég mér eitthvað fallegt, sem er eins konar jólagjöf frá mér til mín, en það kemur fyrir að það tengist jóladressinu en getur líka verið eitthvað allt annað. Að gleðja sjálfan sig í desember er viðeigandi enda er maður iðulega að koma úr prófa- eða vinnutörn.“

Elísa hefur á tilfinningunni að fleiri langi í ferðalög yfir hátíðina en þá sem fara.

„Ég hef á tilfinningunni að það séu fleiri sem langar að ferðast um jólin en raunverulega gera það. Þess vegna langar mig að hvetja alla þá sem standa sig að því að hugsa það ár frá ári að langa að prófa eitthvað nýtt, að bara fara af stað og prófa það. Í versta falli nær ferðalagið ekki þínum væntingum en þá ertu alla vega búin að prófa það. Ég held að slíkar ferðir skapi góðar fjölskylduminningar enda muna allir eftir jólunum þegar þeir fóru utan. Kærasti minn fór til að mynda til Kanaríeyja með sinni fjölskyldu áður en við kynntumst. Þau tala um það sem notaleg jól og höfum við hugsað okkur að prófa einn daginn að vera í sól um jól.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert