„Fegin að ég gerði það ekki fyrr“

Sigríður Víðis Jónsdóttir gefur í dag út bókina Vegabréf: Íslenskt.
Sigríður Víðis Jónsdóttir gefur í dag út bókina Vegabréf: Íslenskt.

Tíminn og þær breytingar sem orðið hafa á heiminum eru áþreifanlegar í nýrri bók Sigríðar Víðis Jónsdóttur rithöfundar, Vegabréf: Íslenskt, sem kemur út í dag, þriðjudag. Í bókinni segir Sigríður frá ferðalögum sínum allt frá Afganistan til Búrkína Fasó, til Íslandsferðalaga í heimsfaraldrinum.

Þetta er önnur bókin sem Sigríður sendir frá sér en fyrri bók hennar, Ríkisfang: Ekkert, kom út árið 2011 og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna, auk þess sem hún hlaut viðurkenningu Hagþenkis.

„Mig hafði lengi langað að skrifa bókina sem kemur út í dag. Það æxlaðist hins vegar þannig að efnið í síðustu bók kom óvænt upp í hendurnar á mér þegar hópur magnaðra kvenna flutti í gamla bæinn minn, Akranes, og tengdi saman Palestínu, Írak og Ísland á einstakan hátt. Ég sökkti mér því ofan í það efni og úr varð bókin Ríkisfang: Ekkert,“ segir Sigríður.

Eftir vinnutörnina sem fylgdi þeirri bók fann hún að hún yrði að taka sér frí frá skrifum. Hún söðlaði um og varð upplýsingafulltrúi og kynningarstjóri hjá UNICEF á Íslandi og síðar aðstoðarmaður ráðherra.

„Ég fann að ég þurfti að taka mér smá pásu frá stærri skrifum. Síðan liðu árin og ég fór að gera annað. Lífið tók einhvern veginn bara yfir. En svo fann ég smám saman að áhuginn á að skrifa aftur bók hafði kviknað og þá langaði mig til að skrifa þessa bók. Ég var með sterka tilfinningu fyrir því að ég sæti á mjög spennandi efni sem ég hefði aldrei almennilega klárað,“ segir Sigríður.

Milli bókanna hefur hún ekki bara sinnt fjölbreyttum störfum heldur líka eignast tvö börn með eiginmanni sínum, Leó Alexander Guðmundssyni.

Birta og nýir tímar í Afganistan árið 2003. Stúlka í …
Birta og nýir tímar í Afganistan árið 2003. Stúlka í Kabúl kemur hlaupandi að nýrri vatnsdælu spölkorn frá.

Tímaþátturinn rosalega skemmtilegur

Hún segist vera fegin að hafa ekki hellt sér út í skrifin á þessari bók fyrr því það sé gaman að vera orðin eldri og koma aftur að efninu.

„Mér finnst tímaþátturinn rosalega skemmtilegur og áhugaverður af því að þá fáum við tilfinningu fyrir því hvernig hlutirnir þróast,“ segir Sigríður. Fyrsta sagan í bókinni er til að mynda frá árinu 2003 en þá fór hún til Afganistan.

Hlustað á útvarpið fyrir utan bæklunarmiðstöð Alþjóðaráðs Rauða krossins í …
Hlustað á útvarpið fyrir utan bæklunarmiðstöð Alþjóðaráðs Rauða krossins í Kabúl. Í Afganistan er krökkt af jarðsprengjum og ósprungnum sprengjum og algengt að fólk missi útlimi eftir að hafa orðið fyrir þeim.

„Þegar ég var þarna voru nýir tímar í landinu, þingkosningar á næsta leiti og stúlkur á leið í skóla. Samt var einhvern veginn eins og Afganistan væri strax komið hálfvegis af dagskrá og ætti bara að vera búið, því Írak var aðalmálið eftir innrásina þangað inn nokkrum mánuðum fyrr. Afganistan var hins vegar auðvitað bara rétt að byrja. Ef ég hefði skrifað bókina árið 2007 eða 2011 hefði ég ekki sömu sögu að segja og í dag. Nú er á hinn bóginn hægt að spegla tæp tuttugu ár.“

Markmiðið að miðla sögum og fólki

Í bókinni segir Sigríður sögur af fólki sem hún kynntist á ferðalögum og tengir saman hið persónulega og pólitíska á sinn einstaka hátt líkt og hún gerði í Ríkisfang: Ekkert. „Lesandinn fer með mér til Sýrlands, Palestínu, Bosníu, Eþíópíu, Suður-Súdan og fleiri ríkja og í raun má segja að í bókinni séu valdar sögur af manneskjum og atburðum sem mér finnst að endurspegli stærri sögu.“

Við vinnslu bókarinnar hafði hún samband við þau sem hún skrifar um og segir það hafa verið ótrúlega dýrmætt að heyra aftur í þeim sem hún var í góðum tengslum við fyrir mörgum árum. „Fólk sem var mér kært og ég hefði viljað halda sambandi við. En ég hafði einhvern veginn glutrað því niður og var svo bara farin að gera annað og orðin hamstur í hversdagshjóli,“ segir Sigríður.

Rafmagnslínur í Mjanmar, einnig þekkt sem Búrma, þar sem alræmd …
Rafmagnslínur í Mjanmar, einnig þekkt sem Búrma, þar sem alræmd herforingjastjórn fer með völdin.

Hún segir hafa verið mjög áhugavert að heyra hvað fólk var búið að upplifa síðan hún talaði við það síðast. „Hjá sumum höfðu hlutirnir þróast til betri vegar en hjá öðrum hafði farið mjög illa,“ segir Sigríður.

Bókina setur hún saman úr efni sem hún sendi frá sér á sínum tíma, bæði persónulegum skrifum sínum, sem og greinum og fréttaskýringum. Það var því heldur betur mikil vinna að setja þetta allt saman í eina bók.

„Þetta er eins og með framkvæmdir heima hjá sér, það er gott að vita ekki hvað maður er að fara út í. Ef maður vissi það fyrir fram myndi enginn byggja sér hús,“ segir Sigríður.

Stúlkur fá sálrænan stuðning í Hebron á Vesturbakkanum í Palestínu. …
Stúlkur fá sálrænan stuðning í Hebron á Vesturbakkanum í Palestínu. Hernám Ísraels litar allt þeirra daglega líf og ísraelskri landtökubyggð hefur meðal annars verið komið fyrir í miðju hverfinu þeirra.

Fyndið að vera orðin eldri

Í bókinni segir Sigríður skemmtilega frá því hvernig ferðalög hennar hafa svo sannarlega breyst frá því hún var yngri. Þegar hún hélt í fyrstu ferðalögin út í heim voru ekki komnir snjallsímar og gat hún ekki verið í stöðugu sambandi við fólkið sitt heima. Eins lagði hún oft af stað til útlanda án þess að vita hvenær hún kæmi heim eða hvert ævintýrin myndu leiða hana í þetta skiptið.

„Mér fannst stórkostlegt frelsi fylgja því að vita ekki nákvæmlega hvert ég var að fara og hafa möguleikana á því að elta spennandi þræði. Að geta verið í frelsinu sem fylgir því að hitta til dæmis einhverja áhugaverða manneskju eða detta ofan á einhverja ótrúlega sögu. Mér fannst það toppurinn á tilverunni,“ segir Sigríður.

Með árunum hafa ferðalögin breyst, bæði með tilkomu Internetsins og svo barnanna. „Það er náttúrulega dálítið fyndið að vera orðin aðeins eldri,“ segir Sigríður. Nú eru ferðalögin erlendis skipulögð fyrir fram og gistingin bókuð áður.

„Það sem hefur líka breyst í millitíðinni er að nú er allt komið á netið. Þegar ég byrjaði að ferðast var ekkert á netinu, maður var ekki þar að leita að upplýsingum. Þú fórst af stað og keyptir þér mögulega ferðahandbók, Lonely Planet eða Rough Guide og varst að lesa í þeim og finna gististaði þar,“ segir Sigríður og bendir á að í dag þurfi enginn frekar en hann vilji að borða á lélegum veitingastað eða gista á slæmu hóteli, enda hægt að finna endalausar umsagnir á netinu.

Arabískt kaffi í glasi í Austur-Jerúsalem.
Arabískt kaffi í glasi í Austur-Jerúsalem.

Fræðir börnin sín um heiminn

Þegar Sigríður hugsar til baka um sín fyrstu ferðalög segist hún svitna við að hugsa um hversu ung hún var þegar hún fór mjög langt í burtu.

„Ég dáist að foreldrum mínum fyrir að ná að halla sér aftur og veita mér frelsi til að fara. Ég vona að ég sjálf eigi eftir að ná að gera það sama gagnvart mínum börnum. Þegar ég fór af stað á unglingsárunum þá sendi ég foreldrum mínum einfaldlega tölvupósta og það komu alveg löng tímabil þar sem þau heyrðu ekki frá mér. Og að heyra í þeim í gegnum síma, það gerði maður bara á einhverra mánaða fresti,“ segir Sigríður.

Börn Sigríðar og Leós eru tæplega fimm og átta ára og segir Sigríður að þau séu áhugasamir ferðalangar og finnist gaman að lenda í óvæntum ævintýrum. Fyrstu ferðalög fjölskyldunnar eftir að þau urðu vísitölufjölskylda voru hins vegar ansi skipulögð.

Úti á götu í Damaskus, tveimur árum áður en stríðið …
Úti á götu í Damaskus, tveimur árum áður en stríðið í Sýrlandi braust út. Sýrland var friðsæla landið á þessum tíma og mikið af flóttafólki þar sem hafði leitað skjóls vegna stríðsins í Írak.

„Það var mjög fyndið að átta sig á því á var farin að ferðast í Excel. Pantaði meira að segja far fyrirfram hjá leigubílsstjórum sem áttu barnabílstóla. En nú eru börnin, Haukur og Laufey, orðin aðeins eldri sem aftur býður upp á meiri slaka,“ segir Sigríður. „Við fórum til dæmis í sumar til Grikklands og Tyrklands og höfðum þá ekki farið saman erlendis í þrjú ár út af Covid. Þarna vorum við með lausan ramma, vorum búin að ákveða hvar við ætluðum að gista og hvenær við ætluðum að leigja bíl en létum að öðru leyti ráðast hvað við gerðum.“

Hún segir þó að ferðalög séu tvíbent sverð vegna þeirra umhverfisáhrifa sem þau hafa. „Á sama tíma og ég vil að börnin mín kynnist heiminum þarna úti – og átti sig á því hvað þau eru heppin að eiga yfirhöfuð vegabréf – vil ég ekki skjótast með þau í endalausar flugferðir hingað og þangað. Það sem mig langar að gera er að geta farið langt í burtu og verið lengi, eins og við höfum líka verið að gera,“ segir Sigríður.

„Í millitíðinni er það síðan bara gamla góða hnattlíkanið, að skoða það saman og tala um löndin í heiminum og mismunandi aðstæður fólks á jörðinni.“

Útgáfu bókarinnar verður fagnað í Húsi Máls og menningar á Laugavegi frá 17 til 18:30 í dag. Í tilefni útgáfunnar mun Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Forlagið einnig standa fyrir fundum í Háskóla Íslands og þá dagskrá má kynna sér á vef stofnunarinnar

Bjartir tímar og hress strákahópur í Suður-Súdan stuttu eftir að …
Bjartir tímar og hress strákahópur í Suður-Súdan stuttu eftir að sögulegir friðarsamningar voru undirritaðir þar. Síðar átti landsvæðið eftir að fá sjálfstæði og borgarstríð brjótast út.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert