Gisti í lúxusvillu og sigldi um Como-vatn

Hildur Anissa Fodilsdóttir hefur verið á faraldsfæti í sumar, en hún fór meðal annars í tveggja vikna ferðalag um Ítalíu ásamt kærasta sínum, Sebastian Loui Henriksen, þar sem þau fóru í brúðkaup, sigldu um Como-vatn og nutu ítölsku matarmenningarinnar til hins ýtrasta. Hildur er dugleg að deila ævintýralega fallegum myndum frá ferðalögum sínum á Instagram, en hún leyfði okkur að skyggnast inn í ferðasumarið hennar. 

Hildur er fædd og uppalin í Garðabæ, en hún ákvað í miðjum heimsfaraldri að prófa eitthvað nýtt og flytja erlendis. Hún stökk á tækifærið þegar hún kynntist kærasta sínum, sem er danskur, og flutti til Kaupmannahafnar með honum. 

Hildur Anissa ásamt kærasta hennar, Sebastian.
Hildur Anissa ásamt kærasta hennar, Sebastian.

Fyrstu mánuðirnir skrýtnir

Hún segir fyrstu mánuðina í Kaupmannahöfn hafa verið afar skrýtna vegna ástandsins en kann í dag vel við sig og hefur komið sér vel fyrir í snoturri íbúð sinni og Sebastians í hjarta Kaupmannahafnar. Hún segir einn af þeim fjölmörgu kostum við að búa í Kaupmannahöfn möguleikann á að keyra til annarra landa. 

„Þegar ég flutti út var lítið um heimsóknir og erfitt að koma sér fyrir, en í dag líður mér ótrúlega vel. Ég elska dönsku menninguna, það er alltaf nóg að gera og mikið af góðum veitingastöðum til að prófa. Svo skemmir veðrið ekki fyrir,“ segir Hildur. 

„Við höfum verið dugleg að nýta okkur þann möguleika að keyra til annarra landa, en í sumar keyrðum við einmitt frá Kaupmannahöfn yfir til Ítalíu.“

Keyrðu í 20 klukkutíma til Ítalíu

Hildur segir ferðalagið hafa verið frekar langt, en allt í allt tók keyrslan um 19 til 20 klukkustundir. 

„Við vildum komast sem allra fyrst í sólina og því stoppuðum við aðeins einu sinni, í Þýskalandi, til að sofa. Snemma daginn eftir var förinni heitið til Como, sem var okkar fyrsta stopp á Ítalíu. Í heild sinni gekk ferðalagið mjög vel, en ég sem aðstoðarbílstjóri sá um að við værum vel nestuð með góðan lagalista, sem skiptir rosalega miklu máli þegar maður er að keyra í 20 klukkutíma,“ útskýrir Hildur. 

Keyrslan í gegnum Sviss á leiðinni til Ítalíu.
Keyrslan í gegnum Sviss á leiðinni til Ítalíu.

Ferðinni var heitið í brúðkaup hjá vinapari Hildar og Sebastians, en þegar boðskortið kom kviknaði strax sú hugmynd að gera úr því lengri ferð. 

„Stuttu seinna vorum við búin að plana tveggja vikna ferðalag þar sem við keyrðum til Como, Flórens, Toskana, Umbria, Moderna og Piamonte. Markmið ferðarinnar var að slaka á, borða góðan mat og skoða fallega staði, sem við klárlega gerðum,“ segir Hildur. 

Brúðkaupsveislan var hin glæsilegasta.
Brúðkaupsveislan var hin glæsilegasta.

Rómantísk sigling um Lake Como

„Allir áfangastaðirnir voru gullfallegir og hver með sinn sjarma, en Como kom mér mest á óvart. Þar sem við vorum á bíl keyrðum við meðfram vatninu og það var magnað, náttúran þar er trufluð,“ segir Hildur. 

Að sögn Hildar var ferðin ógleymanleg, enda í fyrsta sinn sem hún fór í brúðkaup erlendis og yfir heila helgi. „Þetta var ótrúleg upplifun. Það var allt svo vel skipulagt, gott veður, góður matur og enn betri félagsskapur,“ segir Hildur. 

Hún segir toppinn á ferðinni, að undanskildu brúðkaupinu, hafa verið að sigla um Como-vatn. „Eitt það skemmtilegasta og rómantískasta sem við gerðum var að leigja lítinn bát og sigla um vatnið. Ég mæli eindregið með því,“ segir Hildur. 

Hildur á siglingu um Como-vatn.
Hildur á siglingu um Como-vatn.

Lúxusvilla umvafin vínökrum

Hildur og Sebastian vörðu síðustu dögum ferðalagsins á glæsilegu hóteli, Villa La Madonna. 

„Þetta var algjört draumahótel og einkenndust dagarnir okkar þar af algjörri slökun. Hótelið er staðsett í Piamonte og er umvafið vínökrum. Þau bjóða upp á allskyns upplifanir og gera mjög gott vín. Ég mun klárlega fara þangað aftur,“ segir Hildur. 

Útsýni yfir hið undurfagra Como-vatn.
Útsýni yfir hið undurfagra Como-vatn.

Ítalska matarmenningin heillandi

Aðspurð segir Hildur endalaust hægt að gera og sjá á Ítalíu. 

„Hinn fullkomni dagur á Ítalíu myndi byrja snemma á góðri æfingu, helst í sólinni, og með góðum morgunmat við fallegt útsýni. Það er í miklu uppáhaldi hjá mér að blanda saman afþreyingu yfir daginn og rölti um borgina. Til dæmis að fara á vespu, í vínsmökkun eða siglingu. Dagurinn myndi svo enda á geggjuðum ítölskum veitingastað og notalegu rölti upp á hótelherbergi með einn gelato-ís,“ segir Hildur. 

„Ég elska matarmenninguna á Ítalíu, en þar er nóg af spennandi stöðum. Það var einn staður sem stóð upp úr í ferðinni, en hann heitir La Taverna di San Giuseppe og er í Sienna. Þetta er ítalskur Michelin-veitingastaður sem er alls ekki dýr. Þar fékk ég eitt besta pasta sem ég hef smakkað,“ segir Hildur. 

„Það var líka samlokustaður í Flórens sem heitir All' Antico Binaio, en þar eru að mati Ítala bestu samlokurnar á Ítalíu. Við freistuðumst til að smakka og þær voru virkilega góðar.“

Samlokurnar þykja með þeim betri.
Samlokurnar þykja með þeim betri.

Fjölmörg ævintýri framundan

Hildur mælir eindregið með því að keyra um Ítalíu, hvort sem er á bíl eða vespu. Hún segir ferðina hafa verið dásamlega, en eftir Ítalíuferðina lá leiðin til Íslands þar sem Hildur og Sebastian heimsóttu fjölskyldu og vini.

„Frá Íslandi fórum við svo beint til Noregs þar sem við eyddum viku með fjölskyldu og vinum Sebastians. Í lok ágúst ætlum við svo að keyra til Skagen hér í Danmörku, en við förum þangað hvert sumar. Í október ætlum við svo í stutta helgarferð til Barcelona, en þar mun Sebastian fagna afmæli sínu,“ segir Hildur, og ljóst að ævintýrin stoppa ekki þó haustið nálgist óðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert