Gyða fór í ferð drauma sinna til Taílands

Gyða Dröfn Sveinbjarnardóttir fór í fjögurra vikna ferð til Taílands …
Gyða Dröfn Sveinbjarnardóttir fór í fjögurra vikna ferð til Taílands núna í haust. Ljósmynd/Gyða Dröfn

Gyða Dröfn Sveinbjörnsdóttir, vörumerkjastjóri hjá Danól, fór í heillandi ferð til Taílands ásamt kærasta sínum fyrr í haust. Þau höfðu heimsótt Taíland fyrir nokkrum árum en náðu bara tíu dögum í landinu á flakki sínu um suðaustur Asíu. Í þetta skiptið gáfu þau sér fjórar vikur til að kynnast landinu enn betur og stóðst það sannarlega væntingar þeirra. 

Gyða er dugleg að deila ferðalögum sínum á Instagram, @gydadrofn.

Af hverju ákvaðstu að fara til Taílands?

„Ég og kærastinn minn höfðum farið áður til Taílands árið 2019. Þá stoppuðum við bara í 10 daga og vorum þá á ferð um fleiri lönd í suðaustur Asíu. Við urðum heilluð af landinu og við vissum alltaf að einn daginn myndum við koma aftur. Núna eftir heimsfaraldur vorum við tilbúin að fara aftur í lengra ferðalag, og hugurinn leitaði aftur til suðaustur Asíu. Taíland var nýbúið að opna allt hjá sér og slaka á flestum reglum varðandi covid, svo við slógum til og ákváðum að nýta tækifærið og heimsækja aftur þetta land sem við urðum svo heilluð af seinast!“

Gyða heillaðist af Taílandi þegar hún ferðaðist um landið fyrir …
Gyða heillaðist af Taílandi þegar hún ferðaðist um landið fyrir nokkrum árum og ákvað nú að taka sér lengri tíma í að kynnast landinu. Ljósmynd/Gyða Dröfn
Ljósmynd/Gyða Dröfn

Hvernig skipulagðir þú ferðina og var það mikið mál?

„Ég skipulegg allar okkar ferðir sjálf, en það er eitt af mínum helstu áhugamálum! Ég elska að setjast niður og leita mér upplýsinga um áfangastaði og upplifanir á nýjum stöðum. Ég eyði ansi miklum tíma í skipulagningu fyrir svona ferðir en eins og ég segi er þetta eiginlega áhugamál, svo mér finnst það alls ekki mikið mál. En að skipuleggja ferð til Taílands þarf alls ekki að vera mikið mál! Ferðamannaiðnaðurinn þar er mjög þróaður og mjög auðvelt að finna upplýsingar. Þegar maður kemur á staðinn er líka mjög auðvelt að finna ferðir og gistingar, það er nóg í boði og hægt að bóka flest með litlum fyrirvara. Svo það er alls ekki nauðsynlegt að vera með allt skipulagt í þaula þó að við höfum gert það.“

White Temple er einn fallegasti staður sem Gyða hefur komið …
White Temple er einn fallegasti staður sem Gyða hefur komið til. Ljósmynd/Gyða Dröfn

Hvaða staða fórstu til?

„Við byrjuðum í norður Taílandi og gistum í Chiang Mai. Þaðan heimsóttum við einnig Chiang Rai og skoðuðum White Temple, sem er einn fallegasti staður sem ég hef komið til. Næst flugum við svo til Bangkok þar sem við eyddum tveim dögum. Við gistum á Lebua hótelinu sem margir kannast við úr Hangover 2 myndinni. Síðan lá leið okkar til eyjunnar Koh Tao, sem er lítil eyja í Taílandsflóa. Þar lærðum við að kafa og nutum lífsins á þessari fallegu eyju. Þaðan silgdum við til Koh Samui sem er önnur töluvert stærri eyja í Taílandsflóa. Svo var komið að því að fara aftur á meginlandið, og þar héldum við í þjóðgarðinn Khao Sok.

Gyða elskar að skipuleggja ferðalög.
Gyða elskar að skipuleggja ferðalög. Ljósmynd/Gyða Dröfn

Í Khao Sok gistum við í húsi fljótandi á Cheow Larn vatninu, sem var ótrúleg upplifun! Þaðan fórum við svo til Khao Lak þar sem við slökuðum á áður en við héldum til Phuket. Þar gistum við á Kata beach. Næst fórum við til Samet Nangshe, þar sem maður hefur útsýni yfir Phang Nga flóa. Næst heimsóttum við Phi Phi eyju, sem við heimsóttum einnig árið 2019 og urðum algjörlega heilluð af! Þaðan fórum við á eyjuna Koh Yao Yai í eina nótt og héldum svo aftur á meginlandið til Ao Nang í Krabi. Að lokum eyddum við svo einni nótt í Bangkok fyrir heimför.“

Ljósmynd/Gyða Dröfn

Var eitthvað sem kom þér á óvart við staðina sem þú heimsóttir?

„Nei í rauninni ekki. Ég var búin að skoða mjög mikið af upplýsingum fyrir ferðina svo það var ekki beint neitt sem kom á óvart.“

Ljósmynd/Gyða Dröfn

Hvað kostar svona ferð?

„Taíland er áfangastaður sem getur verið mjög ódýr en svo getur hann alveg verið dýr líka. Staðir innan Taílands eru mjög mis dýrir og það er hægt að velja sér áfangastaði innan landsins eftir því hvaða budget maður er með. Við vorum í mánuð og settum okkur budget fyrir gistingu sem í okkar tilviki var 600.000 krónur. Við völdum að gista alltaf á fjögurra eða fimm stjörnu hótelum og þessi upphæð dugði fyrir því. En það væri mjög auðvelt að skera þessa upphæð töluvert mikið niður mjög auðveldlega, til dæmis voru tvö hótel í fjórar nætur sem kostuðu 200.000 krónur svo um leið og við hefðum tekið ódýrari kost þar hefðum við náð upphæðinni niður.

Ljósmynd/Gyða Dröfn

Það er það sem ég meina með að Taíland getur bæti verið dýr og ódýr áfangastaður, en ég myndi segja að við hefðum verið í frekar dýrum stöðum og dýrum hótelum, svona miðað við hvað er í boði. Flugið fram og til baka kostaði okkur 150.000 krónur á mann, en við flugum með Play til Kaupmannahafnar og þaðan með Thai Airways til Bangkok. Samgöngur innanlands kostuðu um 100 - 150.000 fyrir tvo, en hafa skal í huga að við tókum yfirleitt alltaf fljótlegasta kostinn, sem er oftast sá dýrasti, en við vorum á miklu flakki og vildum nýta tímann vel. Uppihald kostaði sennilega nálægt 700 - 800.000, en þar vorum við einnig ekki að reyna að taka ódýrasta kostinn.

Ljósmynd/Gyða Dröfn

Við fórum á Michelin staði og mikið af mjög fínum veitingastöðum, og gerðum einnig fullt af afþreygingu. Til dæmis tókum við kafaréttindi, fórum í nokkrar skoðunarferðir, leigðum bílstjóra til að fara og skoða hina ýmsu staði, leigðum bát nokkrum sinnum, og skoðuðum allskonar eyjur. Svo í heildina kostaði ferðin í kringum 1,7 milljónir króna fyrir tvo eða 850.000 á mann, en eins og áður sagði þá leyfðum við okkur mikinn lúxus og mikið af afþreyingu og það væri mjög auðvelt að ná kostnaðinum töluvert mikið niður.“

Ljósmynd/Gyða Dröfn

Er einhver staður sem stóð mest upp úr að þínu mati?

„Samet Nangshe stóð mikið upp úr! Það var staður sem við tókum pínu séns með, vorum ekki búin að sjá mikið af upplýsingum um hann, en svo var þetta einn stórkostlegasti staður ferðarinnar! Við gistum á hóteli sem var með útsýni yfir Phang Nga flóann, og sáum sólina koma upp yfir flóanum sem var algjörlega magnað.

Ljósmynd/Gyða Dröfn

Fljótandi húsið

Gyða gisti í fljótandi húsi á Cheow Larn-vatni.
Gyða gisti í fljótandi húsi á Cheow Larn-vatni. Ljósmynd/Gyða Dröfn


í Khao Sok stóð líka mikið upp úr. Það var mjög öðruvísi upplifun og eitthvað sem ég mæli algjörlega með að setja á “bucket listann”. Þar vorum við í engu síma né netsambandi, sem jók á upplifunina og maður naut náttúrunnar og tímans þar enn betur. Við vorum líka mjög hrifin af Koh Tao sem er virkilega sjarmerandi lítil eyja. Þar er hægt að sjá Koh Nang Yuan sem eru tvær litlar eyjur sem líta út eins og tvær skjaldbökur og eru tengdar saman með strandlengju sem stendur upp úr sjónum. Það er hægt að labba upp á hæsta tind annarrar eyjunnar og sjá útsýni yfir strandlengjuna sem tengir eyjurnar saman. Ótrúlega fallegt!“

Ljósmynd/Gyða Dröfn

Varðst þú fyrir vonbrigðum með einhvern áfangastað?

„Við urðum fyrir vonbrigðum með Koh Samui eyjuna. Kannski að hluta til vegna þess að það var eyja sem maður hafði heyrt mjög mikið um og við bjuggumst við meiru þar. En eyjan er það stór að það er eiginlega ekki eins og að vera á eyju, en við erum ótrúlega hrifin af litlum eyjum þar sem eru kannski bara göngugötur og allt afslappaðra. Á eyjunni var aðallega mikið af stórum „resorts“ hótelum, en við erum meira fyrir að gista á minni stöðum. Umhverfið á eyjunni var samt sem áður mjög fallegt, en Koh Samui var einn dýrasti áfangastaðurinn sem við fórum á svo við hefðum búist við meiru þar.“

Ljósmynd/Gyða Dröfn

Hvar var besti maturinn?

„Chiang Mai stóð upp úr matarlega séð! Khao Soi er réttur sem kemur frá norður Taílandi og fæst víða í Chiang Mai. Hann samanstendur af bragðmikillri og kremkenndri curry núðlusúpu með kjúkling, sem er svo toppuð með stökkum núðlum og borin fram með pikkluðu grænmeti, vorlauk, lime bátum, fiskisósu og sykur. Algjör veisla fyrir bragðlaukana og ég nýtti hvert tækifæri í Chiang Mai til að fá mér þennan frábæra rétt! Matarmenningin í Chiang Mai er líka frábær og mikið af æðislegum veitingastöðum þar. Svo er auðvitað um auðugan garð að gresja í Bangkok líka og þar getur maður fengið Taílenskan street food eins og hann gerist bestur!“

Ljósmynd/Gyða Dröfn

Hvaða staði mælir þú með að fólk heimsæki?

„Í fyrsta lagi mæli ég ótrúlega mikið fyrir alla að fara til Taílands yfir höfuð! Landið er kallað „Land of smiles“ og stendur sannarlega undir nafni. Fólkið er einstaklega vinalegt og yndislegt, og í þokkabót er flest mjög aðgengilegt og einfalt þar sem ferðamannaiðnaðurinn er mjög þróaður eins og áður sagði. Náttúran er stórbrotin og maturinn guðdómlegur, svo það er nóg í boði fyrir alla! Innan Taílands myndi ég mæla með að fara annaðhvort til Chiang Mai eða Chiang Rai í norður Taílandi, auðvitað Bangkok, og svo á einhverja litla eyju eins og Koh Tao eða Phi Phi. Það er líka mjög mikið að sjá í annaðhvort Krabi og Phuket, og auðvelt að taka ferðir þaðan á minni eyjar. Svo að sjálfsögðu mæli ég með heimsókn til Samet Nangshe, hvort sem það er dagsferð frá Khao Lak eða Phuket, eða að gista þar eins og við gerðum. Að lokum myndi ég mæla eindregið með Khao Sok þjóðgarðinum sem var einstök upplifun!“

Ljósmynd/Gyða Dröfn

Hvert er besta ráðið við að skipuleggja svona ferðir?

„Ég byrja yfirleitt á Google, og gúggla “itinerary” fyrir þann tíma sem ég ætla að eyða í landinu. Til dæmis „Thailand 4 week itinerary“ og byrja þar. Svo skoða ég gjarnan staðsetningar sem ég er að spá í að Instagram, og les ferðablogg. Ég reyni yfirleitt að leita mér að sem mestum upplýsingum og í dag er orðið svo auðvelt að leita sér að upplýsingum ef maður nennir að leggja smá vinnu í að leita að þeim. Svo er líka gott að hafa í huga að það þarf ekki alltaf að skipuleggja allt, stundum er bara skemmtilegt að kaupa sér flugmiða og láta svo ferðina ráðast þegar maður kemur á staðin.“

mbl.is