Sigrún gekk upp eldfjall í Ekvador

Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir ásamt eiginmanni sínum á Catopaxi-eldfjallinu í Ekvador …
Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir ásamt eiginmanni sínum á Catopaxi-eldfjallinu í Ekvador í 4.800 metra hæð.

Fiðlu- og básúnuleikarinn Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir hefur ferðast og spilað tónlist víða um heim, en hinn 11. desember næstkomandi mun hún koma fram sem hljómsveitarstjóri á jólatónleikum Söngfjelagsins í Langholtskirkju. Sigrún starfar sem hljóðfæraleikari og útsetjari ásamt því að vera tónlistarkennari við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, Menntaskólann í tónlist og Listaháskóla Íslands. Þar að auki spilar hún í leiksýningum um Emil í Kattholti í Borgarleikhúsinu. 

Söngfjelagið leggur mikið upp úr því að kynna tónlist frá ýmsum heimshornum, en Sigrún hefur komið víða við á tónlistarferli sínum og segist ekki hafa tölu á þeim löndum sem hún hefur komið til. „Ég taldi þau einu sinni upp og man að ég komst upp í fjörutíu og eitthvað lönd, það telur flestar heimsálfurnar held ég bara,“ segir hún. 

„Tónleikarnir með Söngfjelaginu verða alveg einstakir. Efnisvalið er fjölbreytt og þema tónleikanna er friður. Með kórnum leikur eðalsveit sem ég stýri og er þessa stundina að hamast við að klára útsetningarnar,“ segir Sigrún sem hvetur alla til að koma og hlusta á tónleikana og ferðast í huganum. 

Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið?

„Þau eru mörg mjög eftirminnileg og mismunandi. Tónleikaferðalög eru alltaf mjög skemmtileg þar sem maður stoppar stutt við í mörgum borgum, sér margt og spilar músík með skemmtilegu fólki. Ég reyni að hitta á vini og skyldmenni sem eru búsett í viðkomandi borg hverju sinni í alla vega einn kaffibolla.“

Sigrún á tónleikaferðalagi með góðum hópi.
Sigrún á tónleikaferðalagi með góðum hópi.

„Í sumar fór ég í fyrsta sinn til Ekvador sem er heimaland mannsins míns, en þar gengum við upp í aðrar búðir Catopaxi-eldfjallsins í 4.800 metra hæð. Það var alveg sturlað.“

Hver er uppáhaldsborgin þín í Evrópu?

„Það er erfitt að velja eina en ég myndi segja að það væri Berlín á sumrin. Svo skipti ég líklega um skoðun á morgun.“

En utan Evrópu?

„Ríó í Brasilíu og Mindu í Ekvador.“

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Íslandi?

„Ætli það sé ekki bara heimilið mitt.“

Hvernig ferðalögum ert þú hrifnust af?

„Alls konar, ég elska að kynnast nýjum menningarheimum, læra tungumál og kynnast nýju fólki í gegnum hljóðfæraleikinn, hvort sem það er í gegnum tónleikahald eða kennsluna. Svo með ekvadorsku hlið fjölskyldulífsins samkrullast ferðalög og allt ofangreint inn í okkar daglega líf.“

Hefur þú verið búsett erlendis?

„Já, nokkrum sinnum. Ég fór í skiptinám til Þýskalands nálægt Aachen þegar ég var í menntaskóla, en ég fór á eigin vegum og í menntaskóla þar sem ég vissi að var mikil tónlist. Síðan fór ég í nám í heimstónlistardeild tónlistarháskólans í Rotterdam í Hollandi. Eitt leiddi svo af öðru og eftir námið fór ég þrisvar sinnum í lengri ferðir til Brasilíu á eigin vegum og var mjög nálægt því að ílengjast þar í draumatónlistarverkefnum. Það mætti líka kalla það að búa í ferðatösku í lengri tíma „að búa erlendis“ en ég hef túrað þó nokkuð mikið. Það er töluvert öðruvísi líf, maður býr alls staðar og hvergi samtímis.“

Sigrún með nemendum úr tónlistarskóla í Ríó.
Sigrún með nemendum úr tónlistarskóla í Ríó.

Af hverju fluttir þú út fyrir landsteinana og hve lengi varst þú búsett þar?

„Það er góð spurning, ætli það sé ekki bara þetta með fjallið og Múhameð. Þær músíksenur sem mig langaði að kanna voru ekki til á Íslandi og eru enn í hálfgerðri mýflugumynd.“

„Ég var búsett erlendis í mislangan tíma hvert skipti, en lengstu tónlistarferðalögin voru átján mánuðir.“

Hvernig var upplifunin að vera búsett erlendis?

„Það var bara algerlega frábært að öllu leyti. Ég held að það sé bráðhollt öllum að fara aðeins lengra en túnfóturinn heima og helst skilja íslensku mælistikuna bara eftir í rokinu á Keflavíkurflugvelli.“

Hver er þinn eftirlætisstaður í Brasilíu?

„Það er án efa Ríó. Eins hættuleg og borgin er þá er þetta alger Mekka tónlistar. Endalaust af viðburðum til að fara á og sjá, og svo var ég farin að gigga eftir viku í landinu með topp tónlistarfólki. Það er eitthvað sem er mér sérstaklega kært hvað kollegarnir og bara allir sem ég kynntist tóku manni af stakri hjartahlýju.“

Hvað er ómissandi að sjá og gera í Ríó?

„Fyrir djassáhugafólk er algerlega ómissandi að fara á rómuð djasskvöld á stað sem heitir The Maze eða Völundarhúsið. Þetta er hostel sem Breti að nafninu Bob Nadkarni byggði bókstaflega úr engu í einni „favelunni“ sem tilheyrir Catete-hluta borgarinnar. Ég spilaði þar einu sinni sem var ógleymanlegt.“

„Svo er ekki úr vegi að éta á sig gat af baunarétti sem kallast feijoada, drekka óheyrilegt magn af nýpressuðum ávaxtasafa á hverju horni og taka þátt í undirbúningi carnivalsins.“

Sigrún með frábært útsýni á hostelinu Maze.
Sigrún með frábært útsýni á hostelinu Maze.
mbl.is