Ída tók stórt stökk og flutti til Japan með fjölskylduna

Ída Pálsdóttir er búsett í Japan með eiginmanni sínum og …
Ída Pálsdóttir er búsett í Japan með eiginmanni sínum og dóttur þeirra.

Í ársbyrjun tók Ída Pálsdóttir stórt stökk og flutti alla leið til Japans með eiginmanni sínum, Sigmundi Páli Freysteinssyni, og tveggja ára dóttur þeirra. Ída hafði aldrei komið til landsins áður en hún flutti þangað, en það hafði þó verið draumur hennar lengi. 

Fjölskyldan er búsett í borginni Kýótó í Japan, en þau eru afar lukkuleg þar. Ída segir menninguna í Japan vera frábrugðna íslenskri menningu á skemmtilegan hátt, en við fengum að skyggnast inn í líf fjölskyldunnar sem sagði okkur frá upplifuninni að flytja til Japan. 

Fengu ekki að koma inn í landið strax

Ída er viðskiptafræðingur að mennt en hefur starfað í tískubransanum í yfir tíu ár og segist tengja sjálfsmynd sína meira við tískuferilinn en viðskiptafræðina þó áhugasvið hennar liggi báðum megin. 

Sigmundur flutti út til Kýótó í lok október 2021 og hóf þar meistaranám, en Ída og dóttir þeirra komust hins vegar ekki út strax. „Vegna þess hve ótrúlega strangar reglurnar voru í Japan vegna kórónuveirufaraldursins fengum við dóttir mín ekki grænt ljós að koma inn í landið fyrr en í lok febrúar 2022. Þetta voru langir fjórir mánuðir en allt er gott sem endar vel,“ segir Ída. 

Sigmundur og Ída með magnað útsýni yfir Tokyo í bakgrunn.
Sigmundur og Ída með magnað útsýni yfir Tokyo í bakgrunn.

Ída hefur verið dugleg að taka áfanga í ólíkum háskólum á netinu frá því hún flutti út, en hún segir þá flesta tengjast samfélagsábyrgð, sjálfbærni fyrirtækna og markaðssetningu í tískuiðnaðinum. „Ég mæli mikið með því að skoða það að taka minni og styttri námskeið á netinu ef þig langar að bæta við þig þekkingu. Það er ótrúlega margt skemmtilegt og fróðlegt sem maður getur lært af því án þess að þurfa að skuldbinda sig við heila gráðu,“ útskýrir Ída. 

Aðspurð segir Ída upplifunina að flytja með barn erlendis hafa verið mjög góða. „Börn eru svo mögnuð. Dóttir mín var nýorðin tveggja ára þegar hún byrjaði á japönskum leikskóla hérna úti og var dugleg að aðlagast, en núna talar hún bara japönsku á leikskólanum. Hún er orðin miklu betri en ég í japönsku til dæmis,“ segir hún. 

„Ég veit að það er auðvelt að láta barn eða börn stoppa sig í að flytja erlendis en stundum þarf maður bara að taka Íslendinginn á þetta og hugsa „þetta reddast“ því langoftast gerir það það. Svo er líka svo ótrúlega þroskandi fyrri alla að prófa að búa í annarri menningu, læra nýtt tungumál og það mikilvægasta – upplifa betra veður og betri samgöngur,“ bætir hún við. 

Ótrúleg fegurð í Kyoto.
Ótrúleg fegurð í Kyoto.

Yfir sig hrifin af fólkinu

Ída segir upplifun sína á Japan vera frábæra og lýsir mikilli fegurð landsins og hjálpsemi íbúanna. „Japanir eru dásamlegir, en þeir eru svo ótrúlega hjálpsamir. Ég gleymi því ekki þegar við vorum í göngutúr fyrsta daginn okkar hérna úti og það byrjaði skyndilega að rigna svakalega. Þá kemur kona til okkar á hlaupum og krafðist þess að við tækjum regnhlífina hennar þegar að hún sá að við, eins og sannir Íslendingar, vorum að sjálfsögðu ekki með neina regnhlíf. Þetta setti tóninn fyrir það sem koma skyldi og lýsir Japönum frekar vel myndi ég segja,“ segir Ída. 

Aðspurð segir Ída það hafa komið sér verulega á óvart hvað fáir tala ensku í Kýótó. „Strax í Tókýó er það miklu skárra, en ég var mjög mállaus fyrst þegar ég flutti hingað. En það kemur manni mjög langt að kunna algjöran grunn í japönsku. Japanir segja oft margt án þess að vera segja neitt og þá er bara nóg að kunna að segja takk og já,“ útskýrir Ída. 

Ída segir menninguna í Japan vera mjög ólíka íslensku menningunni. „Orkan hérna er allt öðruvísi, maður finnur það bara í loftinu. Mér líður eins og að hér í Japan snúist allt um samfélagið, að vera góður samfélagsþegn og gefa til baka til samfélagsins.

„Það er ótrúlega falleg pæling finnst mér en getur gert …
„Það er ótrúlega falleg pæling finnst mér en getur gert það að verkum að sumir hlutir verða stundum örlítið tregir.“

„Fallegt, en smá tregt“

„Ágætt dæmi um það er saga sem japanskur vinur minn sagði mér þegar ég var að kvarta undan því hvað það væri mikil pappírsvinna sem fylgdi öllu sem þyrfti að gera hérna úti. Hann sagði mér að aðalástæðan fyrir því að Japanir væru ekki búnir að gera ýmsa hluti rafræna og í leiðinni einfaldari væri sú að það myndu einfaldlega svo margir missa vinnuna. Fallegt, en smá tregt,“ segir Ída. 

„Annað sem er líka mjög áberandi í menningunni hér eru skýr hlutverkaskipti karla og kvenna. Mennirnir vinna langa vinnudaga og á hverjum einasta degi sé ég bugaða menn í jakkafötum steinsofandi í lestinni. Konurnar sjá á meðan um heimilið og börnin. Ég sé þetta mjög skýrt þegar ég fer með dóttur mína á leikskólann, það eru ekki margir japanskir feður sem sjá um það,“ útskýrir Ída. 

Sigmundur sá um að finna íbúð í Kýótó, en Ída segir leitina hafa gengið afar vel. „Við erum búsett í norðurhluta Kýótó, í hefðbundnu japönsku húsi nálægt sveitinni. Hér er mikið líf samt sem áður enda mikið af skólum og þjónustu í hverfinu. Það er yndislegt að búa svona nálægt náttúrunni með þann möguleika að geta tekið eina lest og þú ert komin niður í bæ í stemninguna,“ segir Ída. 

Fjölskyldan alsæl saman.
Fjölskyldan alsæl saman.

Fallegar japanskar byggingar heilla

Ída segist hafa þurft að venjast japanska matnum til að byrja með, en eftir smá rannsóknarvinnu sé hún búin að finna út hvað henni finnst gott. „Uppáhaldskaffihúsin mín eru Goodman Roaster, Stumptown Coffe á Ace-hótelinu, Kurasu og Weekenders Coffee svo einhver séu nefnd. Ég er líka aftur orðin smá Starbucks-kerling eftir að ég flutti hingað,“ segir hún. 

„Kaffihúsin eru oft staðsett í ótrúlega fallegum japönskum byggingum, þekktasta dæmið í Ninenzaka Yasaka Chaya. Á föstudögum fer ég alltaf og kaupi mér einhvern vel sykraðan drykk þar og slaka á - frábær föstudagshefð,“ segir Ída og bætir við að uppáhaldsveitingastaðirnir sínir séu Pettirosso, Enboca, Kousagisha og Monk.

View this post on Instagram

A post shared by Ída Pálsdóttir (@idapals)

Segir nóg vera að gera og sjá í Japan

Fjölskyldan hefur ferðast þó nokkuð innan Japan í ár. Þau hafa farið í tvær lengri ferðir til Tókýó, en Ída segir borgina frábæra og skemmtilega ólíka Kýótó. „Síðan höfum við farið í dagsferðir til Osaka og Nara, enda eru þær stutt frá Kýótó,“ segir hún. 

„Svo er ótrúlega margt fallegt að gera og sjá í Kýótó, en á 21. og 25. hvers mánaðar eru markaðir hérna sem eru svo skemmtilegir og allir verða að fara á ef þeir eru hér í kringum þessar dagsetningar. Nytjabúðir og búðir með notaðar vörur hér í Japan eru líka þær langbestu í heiminum að mínu mati, bæði þegar kemur að úrvali og gæðum,“ segir Ída. 

Ída mælir með með skemmtilegum mörkuðum í Kyoto.
Ída mælir með með skemmtilegum mörkuðum í Kyoto.

Aðspurð hvort einhverjar túristagildrur séu í Japan segist Ída ekki hafa orðið vör við það. „Ég hef búið hérna núna í næstum níu mánuði, en í átta af þeim hafa landamærin verið lokuð svo ég hreinlega veit það ekki alveg. Japanir eru líka svo ótrúlega heiðarlegir að ég get ekki ímyndað mér að það séu margar túristagildrur hérna, en kannski er það bara bull í mér,“ bætir hún við. 

Tískan mismunandi milli landshluta

Ída hefur mikla ástríðu fyrir tísku, en hún segir tískuna í Japan vera mismunandi milli landshluta. „Í Kýótó er tískan sem dæmi frekar minimalísk á meðan fólk í Tókýó klæðir sig á djarfari máta. Ég fæ rosalega mikinn innblástur frá báðum stöðum en það er eitthvað við tískuna í Tókýó sem ég elska. Hún skilur eftir sig tilfinningu sem ég fæ ekki neins staðar annars staðar,“ útskýrir hún. 

Ída er afar hrifin af tískunni á götum Kyoto, en …
Ída er afar hrifin af tískunni á götum Kyoto, en hún segir hana vera fremur minimalíska.

Ída segir hefðbundinn virkan dag í lífi fjölskyldunnar einkennast af göngu til og frá leikskóla, skóla og vinnu, kaffihúsum, útihlaupum, eldamennsku og rólegheitum. „Um helgar reynum við svo að vera dugleg að hitta vini, fara með dóttur okkar á leikvelli eða fara í dagsferðir í aðra hluta í Kýótó. Lífið hérna er rosalega þægilegt og kósí og hefur gert mig að aðeins rólegri manneskju held ég. Við reynum bara að njóta þess á meðan er,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert