Stemning að vera með allt á bakinu

Krassasig er nýkominn frá Asóreyjum.
Krassasig er nýkominn frá Asóreyjum. Ljósmynd/Aðsend

Tónlistarmaðurinn Kristinn Arnar Sigurðsson, betur þekktur undir listamannsnafninu Krassasig, elskar að ferðast og er til dæmis nýkominn frá Asóreyjum sem hann segir að sé mögnuð eyja.

Hvernig ferðatýpa ertu?

„Mér finnst skemmtilegast að ferðast ef ég er með eitthvað tilefni eins og að fara eitthvert og taka þátt í einhverju.“

Síðasta ferðalagið sem þú fórst í?

„Ég er búinn að vera mikið á ferðalögum núna í haust. Ég fór meðal annars að heimsækja vini mína sem voru með myndlistarsýningu á Asóreyjum. Þetta er mögnuð eyja sem á margt sameiginlegt með Íslandi. Þetta er eldfjallaeyja með jarðhita og fiskveiði kúltúr en líka pálmatré, mikill hiti & raki.“

Krassasig á ferðalagi að vetri til.
Krassasig á ferðalagi að vetri til. Ljósmynd/Aðsend

Eftirminnilegasta ferðalagið?

„Ég var einu sinni í skógi í Finnlandi á skátamóti í rúma viku. Það var mjög eftirminnilegt, mikið saunað og synt í stöðuvötnum.“

Áttu þér draumaferðalag?

„Leigja bát með góðum hópi og sigla um Miðjarðarhafið.

Krassasig mælir með að menn hjóli til þess að fá …
Krassasig mælir með að menn hjóli til þess að fá tilfinningu fyrir stöðunum. Ljósmynd/Aðsend

Einhver góð ferðaráð?

„Ég mæli með því að reyna að kynnast fólkinu á staðnum og skoða landið með þeirra augum. Þá er gott að fara út að hlaupa fyrsta morguninn á nýjum stað en það er frábær leið til að skanna svæðið. Svo er gott að ferðast um á hjóli í þeim borgum sem eru hannaðar fyrir það. Mikilvægt er að ofhugsa ekki ferðaplanið því skemmtilegustu hlutirnir gerast þegar maður er bara að ráfa um og ramba inn á eitthvað.“

Það er gaman að ferðast með fólki sem er til …
Það er gaman að ferðast með fólki sem er til í vesen. Ljósmynd/Aðsend

Skemmtilegustu ferðafélagarnir?

„Bara góðir vinir sem deila sömu áhugamálum og eru til í að takast á við vesen og finna út úr hlutunum saman.“

Hvernig pakkar þú fyrir ferðalög?

„Mér finnst einhver stemning í því að vera með allt á bakinu, ég er oftast með duffel töskuna mína því þá ertu liprari þegar þú ert að fara inn og út úr lestum en líka með hendurnar lausar til að skrifa eða taka myndir.

Það er gott að hafa markmið með ferðalögunum eins og …
Það er gott að hafa markmið með ferðalögunum eins og til dæmis tónleikar eða viðburðir. Ljósmynd/Aðsend

En svo er þetta náttúrulega eilífðar baráttan með að pakka réttu magni af fötum, mín tilfinning er sú að þú þarft alltaf aðeins minna en þú heldur, sérstaklega ef þú kemst í þvottavél á meðan þú ert úti.“

Eru einhver ferðalög framundan?

„Já það er aðeins verið að skoða kortið, kemur í ljós.“

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is