Sagði upp vinnunni til að elta útivistardrauminn

Þóra Jóhanna Hjaltadóttir er mikill náttúruunnandi og veit fátt betra …
Þóra Jóhanna Hjaltadóttir er mikill náttúruunnandi og veit fátt betra en að ferðast og hreyfa sig. Ljósmynd/Hannes Bjarnarson

Fyrir rúmu ári síðan ákvað kerfisfræðingurinn og leiðsögumaðurinn, Þóra Jóhanna Hjaltadóttir, að segja upp starfi sínu við hugbúnaðargerð og upplýsingatækni og einbeita sér að leiðsögn, enda er hún mikill náttúruunnandi og veit fátt betra en að ferðast og hreyfa sig. 

Fyrir níu árum síðan gekk Þóra í gegnum erfiða krabbameinsmeðferð. Hún ákvað í kjölfarið að eyða sumrinu með ferðamönnum á hálendi Íslands sem að hennar sögn var einmitt sú endurhæfing sem hún þurfti. Þar fékk hún smjörþefinn af því að starfa alfarið við leiðsögn sem kynti undir frekari ferða- og ævintýraþrá. 

Í dag starfar Þóra eingöngu sem leiðsögumaður, en í starfi hennar sameinast áhuginn á hreyfingu og ferðalögum. Síðustu ár hefur Þóra meðal annars unnið sem gönguleiðsögumaður og gengið með hópa víðsvegar um landið. Þá hefur hún einnig farið í ævintýralegar hreyfiferðir utan landsteinanna og verið fararstjóri á framandi slóðum. 

Góður hópur í hjólaferð.
Góður hópur í hjólaferð.

Danmörk í miklu uppáhaldi

Þóra segist alla tíð hafa haft mikinn áhuga á ferðalögum, bæði innanlands og utan. Hún segist þó ekki hafa haft tök á því að ferðast fyrr en á fullorðinsárunum og nýtur þess nú til hins ýtrasta. Hún segist vera hrifnust af hreyfiferðum. „Það eru alltaf bestu fríin,“ segir hún. 

Áttu þér uppáhaldsáfangastað í Evrópu?

„Það er erfitt að „gera upp á milli“ barnanna sinna, en ég held alltaf upp á Danmörku en þar bjó ég í fjögur ár og þar búa synir mínir tveir ásamt barnabörnunum í dag. Alparnir eru einnig í miklu uppáhaldi, enda frábært svæði fyrir ýmis konar hreyfiferðir eins og göngur, skíði, hjól og hlaup.“

En utan Evrópu?

„Víetnam stendur sérstaklega upp úr og þá sérstaklega matarmenningin auk ferðamáta heimamanna og hvað það er ótrúlega létt yfir öllum alltaf. Ég mun klárlega kíkja þangað aftur.“

Það er mikil upplifun að ferðast um framandi slóðir á …
Það er mikil upplifun að ferðast um framandi slóðir á hjólum.

Hvert er eftirminnilegasta ferðalag sem þú hefur farið í?

„Hér verð ég að nefna þrennt; vikulangt bakpokaferðalag um Ammassalik-eyju á Austur-Grænlandi árið 2004, göngu í grunnbúðir Everest árið 2016 og fyrsta ferðalagið til Suðaustur-Asíu í ársbyrjun 2018.“

Gaman að kynnast nýju fólki og framandi slóðum

Þóra hefur verið fararstjóri í hjólaferðum um Kambódíu og Víetnam, en hún fór fyrst í slíka ferð í ársbyrjun 2018. „Sú ferð var gríðarlega vel heppnuð, en með því að ferðast hjólandi á milli staða gefst manni kostur á að upplifa og fylgjast með lífi og starfi heimamanna í sveit og borg á öðruvísi hátt en með öðrum ferðamátum,“ segir Þóra. 

Í hjólaferðunum fá ferðalangar meðal annars innsýn í hrísgrjónauppskeru á hrísgrjónaökrum, hvernig silki er framleitt úr lifrum til silkivefnaðar, framleiðslu á pálmasykri og gúmmíi. 

„Svo eru allskyns líflegir markaðir sem verða á vegi okkar …
„Svo eru allskyns líflegir markaðir sem verða á vegi okkar þar sem heimamenn selja muni og matvörur,“ útskýrir Þóra.

„Við skoðum hofin í Angkor, Chu Chi göngin frá Víetnam stríðinu, „akra dauðans“ (e. killing fields) fjöldagrafirnar og pyntingarsafn þar sem Rauðu Kmerarnir réðu ríkjum og útrýmdu ýmsum þjóðarbrotum og minnihlutahópum,“ bætir Þóra við. 

Það er margt spennandi að skoða í ferðinni.
Það er margt spennandi að skoða í ferðinni.

Matarmenningin stendur upp úr

Í vor mun Þóra fara sem fararstjóri í fjórðu hjólaferð sína um þessar slóðir, en hún hefur þrisvar áður verið fararstjóri í hjólaferðum frá Angkor til Saigon. „Ég hef einnig ferðast á eigin vegum á svæðinu, en ég eyddi nokkrum vikum á ferðalagi um Víetnam, Kambódíu, Laos og Taílandi. Ég get ekki beðið eftir að komast þangað aftur,“ segir Þóra.

Í ferðinni segir Þóra ríka áherslu vera lagða á að borða fjölbreyttan og góðan mat á allskyns veitingastöðum, enda sé matarmenningin eitt það besta við Suðaustur-Asíu. „Oft fæst besti maturinn á frumstæðustu stöðunum og gerum við okkar besta til að tryggja að ferðalangar fái að prófa sem flest,“ segir hún. 

„Ég kem heim úr hverri ferð staðráðin í að borða eingöngu asískan mat framvegis,“ bætir Þóra við. 

Þóra er yfir sig hrifin af matarmenningunni í Suðaustur-Asíu.
Þóra er yfir sig hrifin af matarmenningunni í Suðaustur-Asíu.

Hjólin skemmtilegur ferðamáti

Þóra segir hjólaferðirnar vera fyrir alla sem geta setið og haldið jafnvægi á hjóli. „Þú þarft ekki að vera í sérstöku hjólaformi, þetta er meira svona ferðalag á hjólum. Við hjólum í rólegheitum oft um sveitavegi og getum á þennan máta notið umhverfisins og fylgst með lífi og starfi fólksins í sveit og borg. Það fylgir okkur alltaf rúta sem hægt er að setjast upp í ef þörf er á hvíld,“ segir Þóra.

Þóra bíður spennt eftir næstu hjólaferð sem hún mun fara …
Þóra bíður spennt eftir næstu hjólaferð sem hún mun fara í með góðum hópi í vor.

Í framtíðinni dreymir Þóru um að koma til Patagóníu og Perú, auk þess að heimsækja einhverja af þjóðargörðum Bandaríkjanna í von um að upplifa náttúru ólíka íslenskri náttúru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert