Kynntist Íslendingi á Bahama og flutti til Íslands

Kristjian Gacal kynntist Íslendingi þegar hann var á Bahama og …
Kristjian Gacal kynntist Íslendingi þegar hann var á Bahama og heimsótti svo þennan vin sinn hingað til Íslands árið 2017. Hann heillaðist af Íslandi og er nú kennari í Vínskóla Spritz.

Vínsérfræðingurinn Kristijan Gacal endaði fyrir röð tilviljana á Íslandi, en hann kynntist Íslendingi á Bahama-eyjum sem leiddi hann til búsetu hér á landi. Kristijan er kennari í Vínskólanum á Spritz að Rauðarárstíg. 

Kristijan kom fyrst til Íslands árið 2017 til að heimsækja vin sinn, kokkinn Jónas Odd Björnsson sem hann hitti á Bahama. Það ævintýri leiddi Kristijan á Depla farm þar sem þeir félagar unnu saman. 

„Þannig að stutta sagan er að ég bara heyrði í vini mínum og það þróaðist í frábæra upplifun bæði persónulega og vinnulega séð, þar sem ég fékk að læra meira og meira um Ísland. Menninguna, fólkið og ég varð alltaf meira heillaður,“ segir Kristijan í viðtali við mbl.is. 

Í Vínskólanum fræðir Kristijan emendur sína um allt það besta sem vínheimurinn hefur upp á að bjóða. Hann er lítið fyrir snobb og smáatriði, en er alltaf til í að ræða smáatriði víns við þau sem hafa áhuga ef snobbinu er sleppt.

Þambaði vínglas mömmu sinnar 9 ára gamall

Hvenær fékkstu fyrst áhuga á víni?

„Á því augnabliki sem ég þambaði vínglas mömmu minnar, níu ára gamall á heitum sumardegi í Króatínu. Ég hélt það væri gos eða sódavatn. Þannig að já fyrir 40 árum síðan,“ segir Kristijan á léttu nótunum.

Kristijan er menntaður þjónn og eftir að hann kláraði það nám ferðaðist hann til Miami í Bandaríkjunum og vann á fjölbreyttum stöðum. Þar á meðal á skemmtiferðaskipum á Karíbahafi og kynntist ólíkri menningu. 

„Ég ákvað svo að sérhæfa mig í þekkingu á víni og náði mér í C.M.S. gráðu í því og eftir það er þetta allt undir manni sjálfum komið, hvaða þekkingu maður sækir sér, endurmenntun og ferðalögum. Maður þarf að leggja allt í sölurnar, bæði pening og tíma. Það sem byrjaði sem áhugi og forvitni varð að ástríðu fyrir víni og lífsstíl,“ segir Kristijan. 

Kristjian hefur ferðast víða um heiminn og unnið sem vínbarþjónn.
Kristjian hefur ferðast víða um heiminn og unnið sem vínbarþjónn.

Finnur gott vín hvert sem hann fer

Ferðalög og ástríðan fyrir víni eiga vel saman að mati Kristijans sem finnst best að hafa hlutina einfalda. Þegar hann ferðast borðar hann góðan mat og drekkur gott vín, en segir að það þurfi ekki að kosta mikið. „Maður kemst að því með tíð og tíma. Kaupmannahöfn er fullkomið dæmi um það. Ég lærði mikið á þeim þremur árum sem ég bjó þar,“ segir Kristijan. 

„Eftir öll þessi ár af ferðalögum, þá er það einhvern vegin þannig að ég finn alltaf góð vín hvert se ég fer. Það ómeðvitað og ég kenni lærimeisturum mínum um það. Það er hægt að finna vín allstaðar en maður verður bara að vita að hverju maður leitar að. Ein regla sem ég styðst við er að þegar fólk fer til útlanda, mæli ég með að drekka vín frá þeim stað sem maður er á. Ekkert Tempranillo mun smakkast jafn vel og það gerir á Spáni. Punktur,“ segir Kristijan. 

En hver eru þá uppáhalds vínhéruð sérfræðingsins?

„Sú spurning er háð því á hvaða tíma árs þú spyrð mig og hvar ég er. En þau sem ég get sagt að séu í uppáhaldi hjá mér eru Piedmont, Toskana og Sikiley á Ítalíu. Í Frakklandi er það Bordeaux (St. Estéphe, St. Julien, Pomerol), Champagne og Búrgúndí. Í Bandaríkjunum eru það Sonoma, Mendocino, Napa, Oregon og Long Island. Heima í Króatíu er það Peljesac í suður Dalmatíu og Istria, norðvesturhlutinn og austurhlutinn. Ungverjaland, Portúgal og Collio í Slóveníu,“ segir Kristijan. 

Fjöldi vínhéraða er í uppáhaldi hjá Kristijani.
Fjöldi vínhéraða er í uppáhaldi hjá Kristijani.

„Maður þarf að gúgla mikið“

Kristjian fer sjaldan sjálfur í vínsmökkun þegar hann ferðast en hann mælir alltaf að fara með einhverjum í smökkun. Betur sjá augu en auga og upplifunin verður skemmtilegri með einhverjum. 

„Ég mæli með að fólk fari í vínsmökkun á stöðum þar sem það er rík vínmenning, þar sem bransinn er vel þekktur. Ef þú þekkir einhvern með þekkingu eða reynslu. Maður þarf að gúgla mikið, leita sér upplýsinga og vinna heimavinnuna sína áður en maður ákveður að eyða pening í vínsmökkun,“ segir Kristijan sem mælir með því að fólk leiti uppi víngerðir. 

„Þar færðu allar upplýsingarnar á einum stað. Síðan mæli ég með stöðum sem sérhæfa sig í þekkingu á víni, eins og vínbari,“ segir Kristijan. 

Hver eru helstu mistök sem fólk gerir í vínsmökkun?

„Oft kemur fólk í vínsmökkun án þess að hafa fengið sér almennilega að borða. Það er lykilatriði að hafa orku í að bragða á sex, sjö eða átta vínglösum. Afleiðingarnar eru að fólk finnur á sér allt of snemma sem vinnur á móti þér undir lokin. Við sem vinnum við þetta viljum að gestir okkar njóti alls í ferlinu og fari í gegnum smökkunina með góða einbeitingu. Við getum svo skemmt okkur eftir á,“ segir Kristjian. 

Í Vínskólanum hjá Kristijan leggur hann áherslu á einfaldleikann. Líka að allir geti komið óháð þekkingu á víni og spurt að því sem kemur upp í hugann hverju sinni. 

„Við snertum líka á sögunni því grunnurinn er mikilvægur og síðan förum við í gegnum heiminn og mismunandi vín. Hvað hefur áhrif á bragðið og hversu mikill fjölbreytileikinn er. Við lærum að opna vínflösku, hverju við leitum eftir í bragðinu og útlitinu, hvernig við greinum galla í bragðinu og hvernig glösum er best að drekka úr. Ég kenni líka hvernig maður setur upp hinn fullkomna heimavínbar og hvað er gott að eiga. Þetta er það sem Vínskólinn snýst um. Að skemmta sér yfir góðu vínglasi, eignast vini sem kunna meira en við og skapa góðar minningar. Skál!“ segir Kristijan að lokum. 

mbl.is