„Þetta er skemmtilegasta stórborg sem ég hef farið til“

Saga Garðarsdóttir fór nýverið ásamt eiginmanni sínum, Snorra Helgasyni, og …
Saga Garðarsdóttir fór nýverið ásamt eiginmanni sínum, Snorra Helgasyni, og dóttur þeirra, í sjö vikur til Mexíkó.

Saga Garðarsdóttir segist vera farin að kalla sig „fyndlistarkonu“ enda sé það bæði stutt og hnitmiðuð starfslýsing þar sem hún sé til jafns leikkona, uppistandari og handritshöfundur. Saga hefur mikið dálæti á ferðalögum og þykir skemmtilegast að fara í löng ferðalög með fjölskyldu sinni, en hún segist fá mikla gleði og ánægju úr því að kúpla sig út og ferðast.

Nýverið fór hún í sjö vikna ferðalag um Mexíkó ásamt eiginmanni sínum, Snorra Helgasyni, og dóttur þeirra. Blaðamaður ferðavefs mbl.is sló á þráðinn hjá Sögu og fékk að forvitnast um ferðaáhuga hennar.

Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið þitt?

„Þegar ég hef verið það heppin að geta ferðast í lengri tíma með fjölskyldunni minni. Við höfum ferðast um Evrópu með lestum á Interrail miðum í tvo mánuði og vorum núna að koma heim úr sjö vikna ferðalagi um Mexíkó. 

Mér finnst svo þægilegt þegar ég er búin að vera í burtu það lengi að enginn sendir mér lengur skilaboð nema mamma. Þá fyrst slaka ég á. Mér er líka minnistætt þegar við fórum í sex vikur upp í bústað í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins. Það var yndislegt – grill og „tjill“ á hverjum degi.“

Saga er hrifnust af löngum ferðalögum þar sem hún nær …
Saga er hrifnust af löngum ferðalögum þar sem hún nær algjörlega að kúpla sig út og slaka á.

Hver er uppáhaldsborgin þín í Evrópu?

„Uppáhaldsborgin mín í Evrópu er Genoa á Ítalíu því hún er falleg og allstaðar er hægt að fá gott kaffi og foccacia-brauð og vera í stuði.“

En utan Evrópu?

„Mexíkóborg. Hún sigraði mig alveg. Kúl og falleg, frekar lág og allir sem við hittum glaðir og góðir. Þetta er skemmtilegasta stórborg sem ég hef farið til.“

Besti maturinn sem þú hefur fengið á ferðalagi?

„Aquachile í Mexíkóborg er eftirminnilegasti maturinn núna. Ferskur túnfiskur, avakadó, chilli, sítróna – hrein snilld í skál. Reyndar voru eiginlega allar máltíðir í Mexíkóborg geggjaðar.“

Eftirminnilegasta máltíðin frá ferðalagi Sögu.
Eftirminnilegasta máltíðin frá ferðalagi Sögu.

Hefur þú lent í einhverju hættulegu á ferðalagi?

„Nei, en ég missti einu sinni símann minn í Skerjafjörðinn og hann eyðilagðist. Það var leiðinlegt en ekki mjög spennandi eða hættulegt.“

Hvernig ferðalögum ert þú hrifnust af?

„Eftir seinasta ferðalag til Mexíkó er ég staðráðin í að ferðast meira utan Evrópu. Það er alltaf bara svo freistandi að fara til Ítalíu því hún er snilld. En nú ætla ég að taka á honum stóra mínum og ferðast meira utan Evrópu.“

Saga er staðráðin í því að vera duglegri að ferðast …
Saga er staðráðin í því að vera duglegri að ferðast utan Evrópu þótt Ítalía sé alltaf í mestu uppáhaldi.

Hvað er framundan hjá þér?

„Ég verð með uppistand úti í Guðmundarlundi hinn 29. mars næstkomandi til að vekja athygli á geðheilsu. Ég hef aldrei verið með uppistand úti í skógi áður. Endilega komið, því eins og máltækið segir: „Ef uppistandari segir brandara úti í skógi og enginn er nálægt – þá er hann ekkert fyndinn.“

Núna um páskana verða svo sýndir þættirnir Afturelding á Rúv þar sem ég leik handboltakonu. Fyrsti þátturinn verður sýndur á páskadag og ég er að ærast yfir því að það verði loksins leiknir íþróttaþættir á Íslandi! Annars er það bara grín og glens.“

Hvað gerir þú til að huga að geðheilsu þinni?

„Það helsta sem ég geri fyrir geðheilsu mína er að hreyfa mig og umkringja mig fólki sem mér líður vel með. Best er náttúrulega þegar ég næ að hreyfa mig utandyra. Mér finnst mjög gott að vera með Snorra manninum mínum og dóttur okkar á ferðalögum. Ég bara fæ ekki nóg af þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert