Bergdís var í 100% námi og 100% vinnu í þrjú ár

Bergdís Rún Jónasdóttir, þjónustustjóri hjá flugfélaginu Play segist vera mjög …
Bergdís Rún Jónasdóttir, þjónustustjóri hjá flugfélaginu Play segist vera mjög spennt fyrir komandi tímum en að Play eigi ávallt mjög sérstakan stað í hjarta sínu. Samsett mynd

Bergdís Rún Jónasdóttir er eldklár og drífandi ung kona sem hefur sinnt stöðu þjónustustjóra hjá flugfélaginu Play undanfarin ár. Nú ætlar hún að pakka í töskur og halda á vit ævintýranna en hún tekur við stöðu þjónustustjóra hjá þýska flugfélaginu Lufthansa á næstu vikum og verður starfsstöð hennar í Kaupmannahöfn. 

Í starfi sínu hjá Play hefur hún ferðast víða en það mú búast við því að hjá Lufthansa verði meira um framandi ferðalög hjá þessari metnaðarfullu framakonu og því spennandi tímar framundan. 

„Áhugi minn á þjónustu kviknaði í raun samhliða náminu mínu en ég er með B.Sc. í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsfræðigreinar. Ég var í 100% námi og 100% vinnu fyrstu þrjú árin mín hjá Play og það var ansi krefjandi en mjög lærdómsríkt. Lokaritgerðin mín bar heitið: Hver er ávinningur af innleiðingu flugfélaga á stafrænni þjónustu? Og hver er ávinningur neytandans þegar kemur að stafrænni þjónustu hjá flugfélögum? Með rannsóknarvinnunni kviknaði þessi áhugi á þjónustuferlum og í raun áttaði ég mig á því hvað það þýðir að veita góða þjónustu.“

Í starfi sínu hjá Play er Bergdís Rún með yfirumsjón með þjónustumálum og ber hún einnig ábyrgð á þjónustuferlum fyrirtækisins: „Ég ber ábyrgð á um 20 starfsmönnum bæði á Íslandi og í Litháen. Mín helstu verkefni snúast í raun um að tryggja að þjónusta Play sé hröð, skilvirk og einföld.“

Á vappi um Brussel.
Á vappi um Brussel. Ljósmynd/Bergdís Rún Jónasdóttir

Úr 12 í yfir 500 

Bergdís Rún hefur starfað í flugbransanum síðastliðin sjö ár og býr því yfir mikilli reynslu á sviðinu. „Ég hef unnið í fluggeiranum frá árinu 2016, en þá hóf ég störf hjá IGS, sem er dótturfélag Icelandair og starfaði við að innrita farþega. Mér fannst flugiðnaðurinn strax mjög spennandi og það að vinna í svona hröðu umhverfi sem er í stöðugri þróun, fannst mér ofboðslega skemmtilegt.“

Hvað fékk þig til að sækja um hjá Play?

„Ég hef verið með Play frá upphafi. Það hefur verið svo gaman að sjá fyrirtækið þróast úr því að vera með 12 starfsmenn yfir í fleiri en 500. 

Það var hringt í mig haustið 2019 frá Play og mér tilkynnt að það væri mögulega nýtt flugfélag á leiðinni og mér boðið í að taka þátt í því að byggja upp þjónustudeild félagsins. Mér þótti þetta svo spennandi og ég varð að vera með.“

Hvað er það skemmtilegasta við starfið?

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á gæðaverkferlum og hef mikið verið að vinna með það að búa til og innleiða verkferla inn í þjónustudeild Play. Það fylgja því einnig mikil ferðalög þar sem ég þarf að fara á allar útistöðvar Play og halda fyrirlestra og kennslu fyrir starfsfólkið á flugvellinum og passa upp á að rétt sé farið eftir öllum þjónustuferlum.“

Í starfi sínu hjá Play hefur Bergdís Rún haldið fyrirlestra …
Í starfi sínu hjá Play hefur Bergdís Rún haldið fyrirlestra og þjálfað starfsfólk. Ljósmynd/Bergdís Rún Jónasdóttir

En mest krefjandi?

„Ég er með eignarhald og ábyrgð á þróun á Playfin–spjallmenni Play. Ég hef unnið við þetta skemmtilega verkefni í samstarfi við Advania og Boost frá árinu 2021. Með því að þróa spjallmenni með gervigreind gátu viðskiptavinir okkar fengið hraðari og skilvirkari þjónustu þar sem hann getur talað við þúsundir viðskiptavina á sama tíma. 

Á skólabekk eftir hrun WOW air

Bergdís Rún starfaði fyrir WOW air þegar lággjaldaflugfélagið hrundi og sá það sem tilvalinn tíma til þess að næla sér í háskólagráðu. Hún skráði sig í fjarnám við Háskólann á Akureyri og byrjaði í viðskiptafræði það haustið. 

„Mánuði síðar fékk ég símtalið frá Play og mér var boðið að vera með. Mér fannst þetta svo stórt tækifæri að ég gat með engu móti sagt nei. Ég ákvað að byrja að vinna fyrir Play og taka B.Sc. námið samhliða. Það var eins og ég sagði mjög krefjandi að vinna frá 08:00 - 16:00, halda svo heim til að læra til miðnættis og reyna að æfa CrossFit, hitta vini og fjölskyldu og lifa lífinu í leiðinni. En þetta var frábær tími.“

Bergdís Rún útskrifaðist frá Háskólanum á Akureyri með B.Sc. gráðu …
Bergdís Rún útskrifaðist frá Háskólanum á Akureyri með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði. Ljósmynd/Bergdís Rún Jónasdóttir

„Þetta er allt að gerast svo hratt“

Bergdís Rún stefnir á að flytja út í lok apríl en hún hefur störf hjá Lufthansa þann 1. maí næstkomandi og er á fullu að binda fyrir síðustu lausu enda hjá Play og ákveða hverju skal pakka niður og taka með til Kaupmannahafnar. 

Er allt tilbúið fyrir flutningana?

„Nei, alls ekki. Þetta er allt að gerast svo hratt. Ég er að reyna að klára mín helstu verkefni hjá Play áður en ég held út. Ég er reyndar ánægð að íbúðin sé komin, það var svona helsta áhyggjuefnið. Þetta fer alveg að skella á!“

Hvar í Kaupmannahöfn verður þú?

„Ég er komin með ótrúlega fallega danska íbúð og ég get ekki beðið eftir að koma mér fyrir í henni.“

Hvers áttu eftir að sakna mest þegar þú flytur út?

„Vina og fjölskyldu.“

Ertu spennt að hefja störf hjá Lufthansa?

„Já, ég er mjög spennt. Titillinn minn er Customer Service Manager hjá Lufthansa Technic, sem er í raun tæknilega hliðin á Lufthansa, þekkt fyrir sérfræðiþekkingu sína þegar kemur að því að veita alhliða viðhaldslausnir fyrir flugvélar. 

Sem þjónustustjóri hjá Lufthansa Technic er aðalhlutverkið mitt að tryggja að þörfum viðskiptavina, svo sem Air Canada, United Airlines og Emirate, sé mætt með hæsta stigi þjónustu. Ég mun einnig bera ábyrgð á því að þróa og viðhalda sterkum tengslum við viðskiptavini, greina ný viðskiptatækifæri og vinna með öðrum deildum til að tryggja að kröfur viðskiptavina séu uppfylltar. Að auki mun ég hafa umsjón með starfi þjónustufólks, þar á meðal þjálfun og eftirliti með því til að tryggja að þeir veiti viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu. 

Búdapest einn fallegasti staðurinn

Bergdís Rún er haldin mikilli ferðabakteríu og hefur ferðast mikið bæði vegna vinnu sinnar og einnig með vinum og fjölskyldu. „Ég hef til dæmis ferðast mikið innan Danmerkur, Svíþjóðar, Bandaríkjanna, Spánar og Þýskalands. Svo hef ég líka heimsótt Litháen, Tékkland, Belgíu, Frakkland, Ungverjaland og Bretland.“

Við Eiffel-turninn í París.
Við Eiffel-turninn í París. Ljósmynd/Bergdís Rún Jónasdóttir

Uppáhaldsborg í Evrópu?

„Kaupmannahöfn á stóran stað í hjarta mínu en annars finnst mér Búdapest vera einn fallegasti staður sem ég hef komið á.“

Eftirminnilegasta ferðalagið?

„Fyrsta ferðin mín fyrir Play á útistöð situr mjög fast í minningunni. Jómfrúarflug Play var þann 24. júní 2021 til og frá London, Stansted. Ég fór út fjórum dögum fyrir flugið ásamt frábæru teymi til þess að halda fyrirlestra og þjálfa starfsfólkið á flugvellinum. Þetta var svo spennandi og mikið í húfi – maður vildi að allt myndi ganga upp, sem það gerði. Allt gekk vel og ég hef aldrei verið jafn stolt af því að tilheyra svona flottu teymi eins og þá.“

Bergdís Rún hefur ferðast mikið vegna starfs síns sem þjónustustjóri …
Bergdís Rún hefur ferðast mikið vegna starfs síns sem þjónustustjóri Play. Ljósmynd/Bergdís Rún Jónasóttir

Hvert dreymir þig um að fara?

„Ég á eftir að ferðast um Ítalíu, mig dreymir um að keyra um Ítalíu og skoða alla fallegu staðina.“

Og svona í lokin, hvort er betra Play eða Lufthansa?

„Bæði betra! Play mun ávallt eiga sérstakan stað í hjarta mínu. Ég er samt ofboðslega spennt fyrir komandi tímum hjá Lufthansa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert