Gift í 52 ár og ferðast saman um heiminn

„Við byrjuðum að ferðast saman árið 1987 en það var …
„Við byrjuðum að ferðast saman árið 1987 en það var fyrsta ferðin mín erlendis,“ segir Magnús. Hjónin hafa verið dugleg að ferðast saman í þessi 36 ár frá fyrstu ferð Magnúsar og stoppað víða. Hér eru þau sólbrún og sælleg í Capri. Ljósmynd/Magnús Steingrímsson

Hjónin Magnús Steingrímsson og Lilja Pálsdóttir hafa verið gift í heil 52 ár og vita fátt betra en að ferðast. Það býr í þeim heilmikil ævintýralöngun og eru hjónin hvergi nærri hætt að ferðast saman og upplifa nýja heima. 

Hjónin eru ekki ein af þessum Spánarsjúku Íslendingum þar sem þeim finnst skemmtilegra að fara í annars konar upplifunarferðir og heimsækja ólíka menningarheima fremur en að liggja í sólbaði á strönd. 

Magnús starfar sem verkstjóri hjá Loftorku Reykjavík en Lilja er komin á eftirlaun en hún starfaði sem hjúkrunarfræðingur alla sína starfsævi. Hjónin eiga þrjú börn og níu barnabörn sem þeim finnst ánægjulegt að ferðast með en sömuleiðis njóta þau fjölskyldusamverustunda nálægt heimili sínu í Kópavogi en þar er stutt í fallega náttúruparadís. 

Ferðast saman í 36 ár og hvergi nærri hætt

„Við byrjuðum að ferðast saman árið 1987 en það var fyrsta ferðin mín erlendis. Lilja hafði verið skiptinemi í Bandaríkjunum þegar hún var 18 ára gömul. Þá fór hún víða um Bandaríkin með fjölskyldu sinni. 

Eftir þessa fyrstu ferð okkar vaknaði áhugi á frekari ferðalögum og okkur langaði að skoða fleiri lönd og framandi staði,“ segir Magnús um upphafið á ævintýrum hjónanna. 

„Fyrstu árin fórum við mikið á eigin vegum og leigðum okkur bílaleigubíla og keyrðum bara um Evrópu. Þegar fram liðu stundir, fórum við að ferðast meira með Bændaferðum, þar sem okkur fór að líða betur í skipulögðum hópferðum með góðum fararstjórum. Við höfum farið í ótalmargar ferðir með Hófý, hún er einn besti fararstjóri sem við ferðumst með.“

Hjónin heimsóttu Vínarborg fyrir ein jólin.
Hjónin heimsóttu Vínarborg fyrir ein jólin. Ljósmynd/Magnús Steingrímsson

„Teljum okkur nokkuð ævintýragjörn“

Magnús og Lilja hafa heimsótt ótal lönd og farið víða um heiminn. Hjónunum finnst alltaf ánægjulegast að upplifa hvern stað á eins fjölbreyttan máta og hægt er og reyna því alltaf að fara í margs konar útsýnis- og kynnisferðir. 

„Við teljum okkur vera ævintýragjörn. Við höfum meðal annars heimsótt Ástralíu, Kína, Kúbu, Balí, Havaí, Kanada og Bandaríkin. Við erum ekki Spánarsjúk. Við viljum upplifa ólíka menningarheima og sjá nýja staði fremur en að liggja bara í sólbaði.

Við erum dugleg að fara í skoðunarferðir ef það er í boði í þeim ferðum sem við förum í. Ef við erum að ferðast sjálf þá reynum við alltaf að fara í ferðir um borgirnar á eins margbreytilegan hátt og hægt er,“ segja Magnús og Lilja sem leggja mikið upp úr því að kynna sér sögu, menningu og samfélag þeirra staða sem þau heimsækja. 

Hjónin á eyjunni Balí.
Hjónin á eyjunni Balí. Ljósmynd/Magnús Steingrímsson

Ekkert jólalegt við jóladag á ströndinni

Hjónin fóru í eitt minnisstæðasta ferðalag sitt til þessa ásamt dætrum sínum, Ríkeyju Huld og Ingibjörgu, eiginmanni Ingibjargar og þá þriggja ára dóttur þeirra, undir árslok 1998. Þau héldu í langa reisu hinum megin á hnöttinn til Ástralíu þar sem þau eyddu jólahátíðinni innan um framandi dýr og í gjörólíku veðurlagi og andrúmslofti en þau voru vön á þessum árstíma. Ingibjörg dóttir þeirra hafði verið skiptinemi í Ástralíu árum áður og enduðu þau ferðalagið á heimsókn til skiptinemafjölskyldu hennar í Suður–Ástralíu. 

„Eftirminnilegasta ferðalagið var án efa þegar við fórum til Ástralíu. Við fórum í mánaðarlangt ferðalag með dætrum okkar, tengdasyni og barnabarni. Við flugum til Sidney og vorum þar í nokkra daga og tókum svo rútuna áfram til Canberra. Þaðan flugum við til Melbourne þar sem við eyddum jólunum í 40+ stiga hita. 

Hitabylgjujól

Það var mjög áhugavert að halda jólin í sól og miklum hita. Það gekk hitabylgja yfir Ástralíu þegar við vorum þar. Við kíktum á ströndina á jóladag, það var ekkert jólalegt við það en skemmtilegt að upplifa öðruvísi jól. 

Eftir jólin leigðum við bílaleigubíl og keyrðum eftir Great Ocean Road, sem er mjög falleg leið til Adelaide og enduðum í bæ sem heitir Gawler þar sem Ingibjörg var skiptinemi árið 1990. Það var mjög gott að vera ferðamaður í Ástralíu. Ef fólk sá okkur með landakort, kom það rakleiðis yfir til okkar og bauðst til að hjálpa,“ segja hjónin um þetta eftirminnilega ferðalag. 

Sonur hjónanna Sigurjón Hólm, var á þessum tíma nýbúinn að eignast lítinn dreng og fór þar af leiðandi ekki með í þetta mikla ferðalag ásamt fjölskyldu sinni. Fjölskyldurnar hafa þó mikið ferðast saman síðan þá og fóru til Tenerife um síðustu jól og fengu Magnús og Lilja þar af leiðandi að endurtaka jól og áramót í sól og hita ásamt öllum börnum og barnabörnum. 

Magnús og Lilja ásamt börnum og barnabörnum á Tenerife síðustu …
Magnús og Lilja ásamt börnum og barnabörnum á Tenerife síðustu jól. Barnabörnin eru frá 5 - 27 ára. Ljósmynd/Ingibjörg Magnúsdóttir

Með ólæknandi ferðabakteríu

Þegar fólk hefur ferðast jafn vítt og títt og hjónin, getur oft verið erfitt að gera upp á milli uppáhaldsborga. Magnús og Lilja eru þó sammála um að í Evrópu standi Berlín og Wiesbaden ofar öðrum borgum. „Við höfum ferðast oft þangað og eigum góðar minningar frá báðum borgum.

Berlín er svo áhugaverð borg með mikla sögu og fallegar gamlar byggingar. Það er alltaf eitthvað að sjá og upplifa. Við höfum farið í nokkrar skoðunarferðir með Berlínum og ein ferð stendur upp úr fyrir okkur. Það er Þriðjaríkisferðin, sem sagði frá því hvernig Hitler komst til valda, hún er okkur mjög minnisstæði. Og Wiesbaden er bara svo notaleg borg til að heimsækja á jólaföstu, fallegir jólamarkaðir og mjög gott glühwein,“ segja hjónin hlæjandi. 

Hér eru hjónin ásamt Dísu vinkonu sinni með góðan bolla …
Hér eru hjónin ásamt Dísu vinkonu sinni með góðan bolla af glühwein. Ljósmynd/Magnús Steingrímsson

„Við höfum heimsótt Þýskaland, Austurríki og Ítalíu oftar en fimm sinnum, langoftast heimsótt Þýskaland, það er alltaf eins og að koma heim, okkur líður svo vel þar.“

Í einni af ferðum sínum til Ítalíu voru hjónin stödd í fallegri útsýnissiglingu hjá þorpunum fimm, Monterosso al Mare, Vernazza, Corniglia, Manarolo og Riomaggiore þegar aðstæður snögglega breyttust. „Við höfum ekki lent í neinni hættu á ferðalögum en höfum þó lent í eftirminnilegum atvikum. Þegar við vorum á siglingu hjá þorpunum fimm, var svo mikill sjógangur að enginn gat hreyft sig, allir urðu bara að halda sér fast og margir um borð urðu sjóveikir.“

Kínamúrinn var stórbrotinn en draumastaðurinn er Galápagoseyjar

„Mesta menningarsjokkið var þegar við ferðuðumst til Kína. Að sjá aðstæðurnar sem margt fólk lifði við tók á og bæði húsnæðin og maturinn var mjög ólíkur því sem við vorum vön. Það var margt mjög áhugavert að skoða þar og Kínamúrinn var mikilfenglegur og það er gaman að hafa upplifað að hafa gengið eftir honum.“

Hjónunum dreymir um að ferðast til Galápagoseyja og stefna á að fara þangað í framtíðinni þegar gott tækifæri býðst. Staðurinn hefur lengi heillað Magnús og Lilju sem hafa stefnt þangað lengi. „Galápagos er mjög framandi, bæði með spennandi dýralíf og mikla náttúrufegurð. Það stóð til að við færum þangað í janúar árið 2009 en þá var hrunið í öllu sínu veldi svo við hættum við þá ferð,“ segja hjónin sem eru spennt að heimsækja þennan eyjaklasa undan strönd Ekvador.

Hjónin á Kínamúrnum.
Hjónin á Kínamúrnum. Samsett mynd

„Yfirleitt sammála“

Hjónin segjast vera með svipaðan smekk þegar kemur að ferðalögum. „Við erum dugleg að ræða málin og erum yfirleitt sammála um í hvaða ferðir okkur langar að fara. Þar sem við erum dugleg að ferðast náum við yfirleitt að gera það sem báða aðila langar að gera í ferðunum,“ segja þau. 

Magnús og Lilja eru á leið til Ljubljana á næstu dögum og erum með allnokkur skemmtileg ferðalög á dagskrá á næstu mánuðum. „Næsta ferð hjá okkur er núna í maí. Síðan höldum við í ferð sem kallast Konungleg sigling á Signu og er ferð með Bændaferðum þar sem siglt er á Signu um Normandí í Frakklandi frá París að Ermarsundi og til baka. 

Í sumar ætlum við að skella okkur á tónleika með hinum magnaða tónlistarmanni André Rieu, í Maastricht í Hollandi og síðasta skipulagða ferðin í ár er í september en þá förum við í ferð sem kallast Ítalíudraumur.“ Og það er alls ekki slæmt að enda þetta á góðum draumi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert