Fékk nóg af íslenska vetrinum og flutti til Tenerife

Hulda Ósmann er búsett á Tenerife og kann afar vel …
Hulda Ósmann er búsett á Tenerife og kann afar vel við sig í hlýjunni.

Margir kannast eflaust við að fá þá flugu í hausinn að flytja á suðrænni slóðir yfir vetrartímann, enda getur hann verið ansi strembinn hér á klakanum. Eftir stormasaman vetur árið 2018 fengu þau Hulda Ósmann og Jón Ósmann nóg af kuldanum og fluttu með fjölskylduna til Tenerife á Spáni. 

Þau fundu sjarmerandi sveitabýli uppi í fjöllum Tenerife og fluttu þangað vorið 2019, en í dag hafa þau fært sig nær sjónum og búa við ströndina á Adeje. Þar hafa þau komið sér vel fyrir ásamt börnunum sínum, þeim Ágústi og Gabrielu, og púðluhundunum Daisy og Lunu. 

Jón og Hulda hafa komið sér vel fyrir á Tenerife …
Jón og Hulda hafa komið sér vel fyrir á Tenerife ásamt fjölskyldu sinni.

„Ég og maðurinn minn erum mjög ævintýragjörn og „spontant“, en veturinn 2018 var veðrið alveg hrikalegt á Íslandi og þurfti fólk jafnan að halda sig innandyra dögunum saman vegna veðurs. Okkur fannst þetta ekki skemmtilegt eða uppbyggilegt frekar en öðrum og eftir að hafa verið pikkföst í stormi bókuðum við flug til Tenerife. Viku síðar vorum við búin að finna sveitabýli uppi í fjöllum Tenerife sem við fluttum síðan í um vorið,“ útskýrir Hulda.  

Fjölskyldan átti dásamlegan tíma í sveitinni þar sem þau voru umkringd ótal dýrum og framleiddu sitt eigið lífræna vín, grænmeti og ávexti. „Við vorum í raun í okkar eigin lokaða heimi og misstum eiginlega af kórónuveirufaraldrinum,“ segir Hulda. 

Fjölskyldan naut sveitasælunnar fyrstu árin á Tenerife.
Fjölskyldan naut sveitasælunnar fyrstu árin á Tenerife.

Sveitabýlið er í um 15 mínútna akstursfjarlægð frá amerísku ströndinni, en þegar Hulda varð ófrísk að Gabrielu fór þeim að langa að færa sig nær miðbænum sem þau svo gerðu. „Við erum núna búsett við ströndina þar sem auðvelt er að labba með kerru út um allt. Hér er allt í göngufæri sem kemur sér vel því við förum oft út að borða,“ segir Hulda. 

Hulda ásamt dóttur sinni Gabrielu á ströndinni.
Hulda ásamt dóttur sinni Gabrielu á ströndinni.

Varð heilluð af sólinni og kyrrðinni

Aðspurð segir Hulda útsýnið frá fjöllunum, sólina og kyrrðina hafa heillað sig upp úr skónum þegar hún flutti til Tenerife. „Sólin gefur svo jákvæða orku og fær mann til að brosa út að eyrum allan daginn. Það er eiginlega alveg ómögulegt að vera fúll og þreyttur þegar veðrið er alltaf svona dásamlegt,“ útskýrir hún. 

„Svo var það veðurfarið, en þó svo að ég vissi að það væri gott veður hér þá kom það mér samt á óvart. Tenerife er þekkt sem „The island of eternal spring“ og hér niður við Atlantshafið, sem temprar veðrið enn frekar, er besta og stöðugasta veðurfar í heimi. 

Af tilteknum ástæðum skoðuðum við að flytja tímabundið til Halifax í Kanada síðastliðinn vetur, en eftir nokkra daga í snjó og frosti settum við þá ákvörðun algjörlega á frost til framtíðar – og við erum enn að hlæja af því,“ bætir Hulda við og hlær. 

Hulda kann afar vel við sig í hlýjunni og sólinni …
Hulda kann afar vel við sig í hlýjunni og sólinni á Tenerife.

„Að búa hér er eins og að vera í draumi“

Hulda kann afar vel við sig á Tenerife og býst ekki við því að fjölskyldan munni flytja þaðan á næstunni. Hún segir marga kosti vera við það að búa á Tenerife, til dæmis milt loftslag allan ársins hring og hve oft er flogið þangað frá Íslandi á viku. 

„Mér finnst Tenerife í rauninni bara besti staður í heimi til að búa á. Eftir að við fluttum hingað þá tók það satt að segja smá tíma að trappa sig niður úr hraðanum og stressinu sem maður hefur átt að venjast á Íslandi. Aftur á móti gengur okkur mikið betur að sinna okkar vinnu héðan – það er minna suð og daglegt stress, aldrei umferðarteppa og við sleppum við að moka, skafa og klæða okkur í mörg lög af fötum,“ segir Hulda. 

„Að flytja hingað leysir þó ekki daglegu vandamálin og það er heldur ekki hægt að skilja þau eftir á Íslandi, en hér er óneitanlega mikið bjartara og auðveldara líf. Að búa hérna er eins og að vera í draumi. Ég er alltaf að segja hversu „high on life“ ég sé. Lífið er svo yndislegt og ég er svo þakklát fyrir fjölskylduna mína og að búa í þessari paradís umkringdu yndislegu fólki. En eins og allstaðar í lífinu þá verður grunnurinn að vera góður og rútínan líka,“ bætir hún við. 

Fjölskyldan í góðum gír á ströndinni, en þar líður þeim …
Fjölskyldan í góðum gír á ströndinni, en þar líður þeim alltaf vel.

Þó kostirnir við að búa á Tenerife séu margir að mati Huldu eru líka ákveðnir ókostir sem fylgja því. 

„Ókostirnir felast kannski helst í því hversu hægt allt gengur fyrir sig í opinbera geiranum. Rafrænu valkostirnir eru til að mynda afar takmarkaðir og allt sem varðar stjórnkerfið er á „gamaldags“ pappír, en maður þarf iðulega að taka upprunalega skjalið með til þess að fá einhverja þjónustu. En maður er fljótur að læra á kerfið og svo venst þetta bara, enda eitthvað sem við þurfum ekki að sinna nema 2-3 sinnum á ári,“ bætir hún við. 

Púðluhundurinn Daisy kann líka vel við sig á Tenerife.
Púðluhundurinn Daisy kann líka vel við sig á Tenerife.

Átti draumafæðingu á Tenerife

Hulda gekk með og eignaðist sitt fyrsta barn, Gabrielu, á Tenerife og segir meðgönguna hafa verið með því erfiðara sem hún hafi upplifað. „Ég var mestan hluta meðgöngunnar með ógleði og uppköst, en mín nánasta fjölskylda gekk í gegnum þetta með mér og ég er enn að þakka þeim fyrir. Sólin og hlýjan hjálpaði þó mikið og ég ákvað að verja heilmiklum tíma í meðgöngusundi,“ segir hún. 

„Þó að sjálf meðgangan hafi verið erfið þá gæti ég ekki hafa átt betri fæðingu. Við áttum pantaðan keisaraskurð og var gert að mæta á spítalann hinn 28. júní klukkan 8:00 um morguninn. Afslöppuð rólegheit en samt ákveðinn spenningur, vitandi að stelpan okkar væri væntanleg í heiminn þann dag. 

Þegar búið var að undirbúa mig í aðgerð þá voru um sex starfsmenn í herberginu og í þessari fallegu morgunstemningu fæddist svo þessi dásemd um ellefu leytið. Hún fór strax í fang Jóns mannsins míns í „skin to skin“ og svo hitti ég þau í herbergi sem ráðgert hafði verið að við myndum gista næstu fimm næturnar,“ útskýrir Hulda. 

Þó meðgangan hafi reynst Huldu erfið lýsir hún fæðingunni sem …
Þó meðgangan hafi reynst Huldu erfið lýsir hún fæðingunni sem draumafæðingu.

Hulda lýsir fyrstu dögunum með dóttur þeirra sem yndislegum, en þau voru saman í svítu með tveimur rúmum og svölum og fengu góðan mat og þjónustu frá ljósmæðrum og læknum allan sólahringinn. „Spítalinn leyfði meira að segja samstarfsmanni mínum að koma í heimsókn á spítalann og vinna við hliðina á mér svo við gætum klárað brýnustu verkefnin í vinnunni,“ segir hún. 

„Ég er svo þakklát fyrir það hvað læknarnir og spítalarnir eru góðir hér á Tenerife. Til þess að fá þessa æðislegu þjónustu þá greiði ég mánaðarlega fyrir tryggingar sem reyndar helmingi ódýrari en einn tími hjá kvensjúkdómalækni á Íslandi. Á bráðamóttökunni er jafnan um 30-60 mínútna bið og læknarnir hafa alltaf reynst mjög hjálplegir.

Hér eru tvennskonar kerfi, annars vegar almennt kerfi sem er á pari við Ísland og svo einkarekið kerfi sem er ekki dýrt, en þá kemst fólk samdægurs inn. Sem dæmi fengum við greiningu frá heimilislækni okkar um hádegi, fórum með tilvísun í blóðprufu, fórum því næst í myndatöku og hittum svo sérfræðing klukkan 10 morguninn eftir. Þó svo það séu ekki endilega allir sem tala góða ensku er lítið mál að bjarga sér með þýðingarforriti eins og Google Translate,“ útskýrir Hulda. 

Mæðgurnar alsælar í sólinni.
Mæðgurnar alsælar í sólinni.

Fegin að sleppa við mörg lög af hlýjum fötum

Huldu þykir dásamlegt að ala upp barn á Tenerife og segist fegin að sleppa við það að pakka dóttur sinni í ótal margar peysur og galla. „Gabriela æfir sund þrisvar í viku og hefur gert það síðan hún var þriggja mánaða og svo förum við fjölskyldan saman á ströndina um helgar. Hún fékk strax pláss á einkaleikskóla aðeins 10 mánaða gömul og þar eru leikskólagjöld svipuð og á Íslandi. Síðan eftir að börnin ná tveggja ára aldri fá þau frítt í ríkisreknum leikskólum,“ segir hún.

Sannkölluð paradís!
Sannkölluð paradís!

„Þegar Ágúst strákurinn okkar var 14 ára fór hann beint úr Réttarholtsskóla inn í Wingate, enskan einkaskóla hér á Tenerife. Skólinn er rekinn undir Cambridge Standard og fyrstu tvö árin var námið vægast sagt erfitt og vorum við Jón stundum að ströggla við það með honum fram eftir kvöldum, meðal annars um helgar.

Drengurinn okkar útskrifaðist í fyrra úr Wingate sem láði, hlaut fjölda viðurkenninga og komst síðan inn í Regent's University í Lundúnum 16 ára gamall og hóf þar nám í viðskiptafræði og nýsköpun,“ bætir hún við. 

Hulda, Jón og Ágúst á siglingu.
Hulda, Jón og Ágúst á siglingu.

Leynistaðir, rómantísk ferð á eldfjall og sjósund

Áttu þér uppáhaldsstað á Tenerife?

„Einn af mínum uppáhaldsstöðum á Tenerife er gamla eldfjallið El Teide sem er hæsta eldfjall Evrópu. Þegar við Jón giftum okkur fóru brúðkaupsgestirnir saman upp á El Tiede. Við keyrðum upp á fjallið í gegnum skýjahafið og þar sáum við sólsetrið, en síðan endaði ferðin á toppnum. 

Þar dáðumst við að Vetrarbrautinni og sáum Júpiter og Satúrnus saman. Að sjá stjörnurnar frá El Teide er eitt af undrum veraldrar samkvæmt Forbers og það stóð klárlega undir væntingum.“

Magnað sjónarspil frá eldfjallinu.
Magnað sjónarspil frá eldfjallinu.

Eru einhverjar faldar perlur á Tenerife?

„Á leið til Los Gigantes er klettur sem heitir Cueva la Vaca eða „kúahellir“ á íslensku. Þetta er eins konar leynistaður heimafólksins en þangað förum við fjölskyldan eða vinkonunar og stökkvum af klettunum með góða tónlist í eyrunum og fáum smá „adrenalínkikk“ beint í æð. Á þessu svæði eru fjölmargar náttúrulaugar.

Svo er annar hellir rétt hjá sem heitir Charco Tancón sem upplýsist fallegum bláum lit, en það er mun hættulegra að synda þar og ég hef eiginlega ekki þorað því ennþá. Ég bíð eftir deginum þegar sem öldurnar verða ögn rólegri en gengur og gerist.“

Hulda lumar á nokkrum leynistöðum á Tenerife sem fáir vita …
Hulda lumar á nokkrum leynistöðum á Tenerife sem fáir vita af.

Hvað er ómissandi að sjá og gera á Tenerife?

„Eitt af því skemmtilegasta við Tenerife er útivistin og allt útisportið. Það er svo skemmtilegt að vera undir berum himni með góðum hópi – hvort sem það er í golfi, tennis, á brimbrettum, paddle, kajak eða einfaldlega í gönguferð í fjöllunum. Stundum er líka gaman að taka fjallahjól og hjóla í slóðum utan í fjallshlíðunum.“

Hulda er dugleg að stunda útivist á Tenerife.
Hulda er dugleg að stunda útivist á Tenerife.

Hvernig er draumadagurinn á Tenerife?

„Draumadagurinn á Tenerife er að vakna um sjö leytið og labba niður á El Duque Beach og ein með sjálfum mér eða manninum mínum og synda í sjónum. Ef það er helgi, þá að fara með fjölskyldu og vinum í bröns, síðan á ströndina og taka svo jafnvel einn golfhring í lokin. Einfalt og afslappað.“

Draumadagur Huldu byrjar að sjálfsögðu á ströndinni.
Draumadagur Huldu byrjar að sjálfsögðu á ströndinni.

Bestu veitingastaðirnir á Tenerife

„Þrír bestu veitingastaðirnir að mínu mati eru Taberna Sushi, Resturante Habibi og Rosso Sul Mare Resturant & Wine Bar.“

Bestu kaffihúsin eða barirnir á Tenerife?

„Það eru Resturant Bahía Beach, Altamira Chillout og Maresía The Roof.“

mbl.is