Margrét hefur komið til 35 landa og er hvergi nærri hætt

Margrét Lilja Stefánsdóttir flugfreyja hjá Play.
Margrét Lilja Stefánsdóttir flugfreyja hjá Play. Ljósmynd/Aðsend

Margrét Lilja Stefánsdóttir hefur komið til 35 landa. Hún er fædd og uppalin á Sauðárkróki en er núna búsett í Reykjavík og starfar sem flugfreyja hjá Play. Kúba hafði mikil áhrif á hana þegar hún kom þangað. 

Hvenær byrjaði þú að hafa áhuga á ferðalögum?

„Ég hef alltaf haft gaman af ferðalögum en við fjölskyldan ferðuðumst mikið um Ísland öll sumur alveg síðan ég man eftir mér. Pabbi minn hefur mikinn áhuga á ferðalögum, að skoða fallega náttúru sem og ljósmyndun og ég myndi segja að minn áhugi komi þaðan. En hann tók okkur systkinin alltaf með sér í slíkt. Hann gaf mér einmitt fyrstu myndavélina mína þegar ég var 10 ára gömul og eftir það fórum við oft í bíltúr með það markmið að finna einhvern flottan stað og taka myndir. En utan Íslands var það í fyrstu heimsreisunni minni sem ferðaáhuginn kviknaði af alvöru og löngun til að skoða meira af framandi löndum. Ég hef ferðast mikið síðan þá en nýlegasta ferðalagið mitt var síðastliðið haust, þá fór ég með kærasta mínum, Cedric Petersen, til Filippseyja og Japans,“ segir hún. 

Margrét og Cedric dvöldu í Airbnb- villu í Siargao í …
Margrét og Cedric dvöldu í Airbnb- villu í Siargao í Filippseyjum sem bauð upp á þetta fallega útsýni. Ljósmynd/Aðsend

Ferðin hófst í Manila, höfuðborg Filippseyja, þar sem þau gistu eina nótt en svo var ferðinni heitið á eyjarnar Palawan og Siargao.

„Palawan er mjög stór eyja en við vorum þar í bænum El Nido og svo fórum við þaðan yfir á Siargao. Á báðum eyjunum gistum við í geggjað flottum villum en villan okkar á Siargao var algjör draumur! Hún er aðeins út fyrir strandarbæinn General Luna, í algjörri náttúruparadís og við vorum alveg út af fyrir okkur. Í villunni er einkasundlaug og útsýnið var virkilega flott, yfir ánna og skóginn sem þar er. Veröndin okkar lá niður að ánni og gátum við rölt þangað og farið á kajak með engan annan í augnsýn, bara við og náttúran. Við leigðum svo vespu og keyrðum á kvöldin inn í bæinn í menninguna og stemminguna. Við vorum líka dugleg að keyra um eyjuna og stoppuðum hjá fossum og fleiri gullfallegum stöðum. Palawan er þekkt fyrir stórkostlegar strendur og kristal tæran sjó. Það var magnað að sjá allt sjávarlífið og kóralinn. Við enduðum ferðina í Tokyo í Japan og borgin hefur algjörlega tekið sess sem mín uppáhalds. Það var ótrúlega gaman að sjá og upplifa japanska menningu. Mig langar mjög mikið að koma þangað aftur og þá ferðast meira um Japan.“

Margrét Lilja nýtur þess að ferðast með kærasta sínum, Cedric …
Margrét Lilja nýtur þess að ferðast með kærasta sínum, Cedric Petersen. Hér eru þau í Tokyo. Ljósmynd/Aðsend

Heimsreisa með tvíburasystur

Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið þitt?

„Það er erfitt að velja, en fyrsta heimsreisan mín á alltaf sérstakan stað í hjarta mínu. Þar sem það er ferðin sem ég féll algjörlega fyrir ferðalögum og að sjá það sem heimurinn hefur upp á að bjóða. Ég fór með Sigríði Láru tvíburasystur minni sem er einnig mín besta vinkona, í þriggja mánaða bakpokaferðalag um Asíu.“

Margrét segir að það standi líka upp úr þegar hún fór í sína aðra heimsreisu sem var átta mánaða ferðalag um Karíbahafið, Suður-Ameríku og Mið-Ameríku og Asíu. 

„Nokkrum árum síðar fór ég í sjálfboðaliðastarf í skóla í Suður Afríku sem var mjög lærdómsríkt. Ég hef upplifað margt ólíkt á mínum ferðalögum og er mikið af því eftirminnilegt. Þar ber að nefna loftbelgjaferð í Laos, köfun í Filippseyjum en þá kafaði ég með inn í skipsflök sem eru þar frá seinni heimsstyrjöldinni og sá þónokkra hákarla. Ég fékk að upplifa ljóskerahátíð um áramótin í Taílandi, skoðaði krúttleg kaffiþorp í sveitum Kólumbíu og ég sá stórbrotna náttúru í Kosta Ríka. Keyrði á vespu um fjallaþorp í Víetnam, sá sólarupprás við Angkor Wat hofið í Kambódíu og svo skemmti ég mér ótrúlega vel í safaríi bæði í Srí Lanka og í Suður Afríku, komst þar nálægt fullt af litríkum dýrum,“ segir hún. 

Tvíburasysturnar við Timbuna foss í Indónesíu.
Tvíburasysturnar við Timbuna foss í Indónesíu. Ljósmynd/Aðsend

Hefurðu fengið menningarsjokk?

„Ég hef vissulega séð mikla fátækt og öðruvísi lifnaðarhætti. Sem dæmi var Kambódía fyrsta landið í fyrstu reisunni minni og þar var mjög mikil fátækt. Það er örugglega það land í Asíu sem mér fannst ég sjá mesta menningar muninn. Fyrir þá sem eru að hefja sína fyrstu reisu, myndi ég mæla með að byrja t.d. frekar í Taílandi því þar er aðeins meiri túrismi.
Kúba finnst mér vera mest frábrugðin því sem ég er vön, en þrátt fyrir það er það eitt af uppáhalds löndunum mínum. Það var eins og að fara í tímavél lengst aftur í tímann. Ég sá eldgamla bíla, fólk átti hvorki sjónvarp né snjallsíma og stytti sér stundir á gamla mátann. Fólk safnaðist saman að spila fyrir utan heimilin sín, krakkar voru að leika sér í fótbolta úti á götu og bjuggu sér til mörk úr steinum á malarvegunum. Eldra fólk sat í ruggustólum fyrir utan heimili sín að fylgjast með lífinu, unglingar hópuðust saman úti á götu með risa útvarp á öxlinni og hlustuðu á tónlist. En samt voru allir svo lífsglaðir og ánægðir með sitt,“ segir hún. 

Margrét í safaríferð í Srí Lanka.
Margrét í safaríferð í Srí Lanka. Ljósmynd/Aðsend


Kúba er eitt af uppáhaldslöndum Margrétar og segir hún að ferð á eyjuna hafi opnað augu hennar. 

„Það opnar augu manns svo mikið fyrir hvað við erum heppin með það sem við höfum. Hlutir sem maður tekur sem sjálfsögðum en eru það svo sannarlega ekki, í mörgum löndum. Eins og t.d. bara það að hafa alvöru þak yfir höfðið, aðgengi að menntun sem og aðgengi að hreinu vatni, klósett- og sturtu aðstöðu. Maður lærir svo rosalega mikið bæði af því að sjá aðra menningarheima og einnig bara það að vera á ferðalagi til langs tíma, maður mætir krefjandi áskorunum og þarf að redda sér sjálfur. Það er ekki þetta öryggisnet sem yfirleitt er til staðar heima. Ég myndi segja að það sé mjög hollt og þroskandi fyrir alla að ferðast einhvern tímann á lífsleiðinni,“ segir hún. 

Kúba er í miklu uppáhaldi hjá Margréti.
Kúba er í miklu uppáhaldi hjá Margréti. Ljósmynd/Aðsend

Er einhver áfangastaður á óskalistanum þínum?

„Það er erfitt fyrir mig að velja en ef ég ætti að nefna nokkur lönd þá eru það Tansanía, Perú, Jórdanía, Nýja Sjáland og Maldíveyjar.“

Ertu með einver ferðaráð?

„Helsta ráð sem ég gæti gefið er að fara í ferðina sem þig dreymir um. Það er svo þess virði og þú munt ekki sjá eftir því. Ekki ofhugsa eða stressa þig á að bóka allt fyrirfram. Til dæmis voru báðar heimsreisurnar sem ég hef farið í þannig að við vorum aldrei með neitt bókað fram í tímann, bókuðum í mesta lagi næstu tvær nætur og leyfðum svo ferðinni að ráða hvernig planið væri eða hvert ferðinni væri heitið næst. Við vorum alltaf með einhverjar hugmyndir um hvert við vildum fara og hvað við vildum sjá en svo kom bara í ljós hversu lengi við værum á hverjum stað fyrir sig. Ég mæli mjög mikið með þessum ferðahætti, það er mjög frelsandi og ævintýralegt að leyfa ferðinni bara svolítið að ráðast og geta verið eins lengi eða stutt á hverjum stað fyrir sig eins og maður vill.“

Sigríður Lára Stefánsdóttir er tvíburasystir Margrétar og hennar besta vinkona.
Sigríður Lára Stefánsdóttir er tvíburasystir Margrétar og hennar besta vinkona. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert