Lærði meira en hún bjóst við í Oxford

Nína fékk hlutverk í bandarískum þáttum.
Nína fékk hlutverk í bandarískum þáttum. Ljósmynd/Kristín Ásta Kristinsdóttir

Nína Ísafold Daðadóttir hefur síðastliðið ár stundað nám við Leiklistarháskólann í Oxford (The Oxford School of Drama) í Bretlandi. Hún segist hafa lært meira en hún bjóst við og að spennandi verkefni séu fram undan.

Hvernig fannst þér að vera námsmaður í Oxford?

„Það er náttúrulega mikil upplifun að vera í Oxford þar sem þetta er mikil háskólaborg og þekkt fyrir það. Þeir sem búa alveg inni í Oxford eru flestir námsmenn, flestar fjölskyldur búa rétt fyrir utan. Það var ekkert of mikið að gera þarna um helgar en samt alltaf eitthvað um að vera.“

Nína segir Oxford virkilega fallega borg.
Nína segir Oxford virkilega fallega borg. Ljósmynd/Aðsend

Varstu að vinna með skólanum?

„Nei, en ég kom heim um jólin og vann, það var eiginlega ekki hægt að vinna með skólanum. Það voru sumir sem unnu með skólanum en það var þá bara aðra hverja helgi eða eitthvað svoleiðis. Ef ég hefði verið lengur hefði ég örugglega byrjað að vinna.“

Miklu fleiri sem taka strætó

Hvað kom þér mest á óvart þegar þú fluttir út?

„Ég vissi ekki að ég myndi læra svona mikið! Það kom mér líka á óvart hve margir nota strætó þarna. Það eru einhvern veginn allir á bíl heima á Íslandi, en ekki þarna.“

Afslappaðri tíska

„Svo var enginn eitthvað fínn, maður er ekkert að mæta í hælum á djammið, fólk hefur sig alveg til en það er bara öðruvísi, miklu afslappaðri klæðaburður.

Nína ásamt góðum vinum í Oxford.
Nína ásamt góðum vinum í Oxford. Ljósmynd/Aðsend

Myndirðu mæla með því fyrir Íslendinga að fara í nám í Oxford?

„Já, hundrað prósent, þetta er mjög gömul og falleg borg þar sem það er mikið fallegt að sjá. Háskólarnir eru mjög flottir, mikið af gömlum flottum húsum og þetta er bara virkilega fallegt umhverfi. Þetta er heldur ekkert alltof stórt, það væri öðruvísi að fara til London, þetta er miklu minni borg og því minna stökk að flytja frá Íslandi.“

Það er mikið af dýrum í kringum Oxford.
Það er mikið af dýrum í kringum Oxford. Ljósmynd/Aðsend

Hvað fannst þér gaman að gera um helgar?

„Bretar eru náttúrulega með þá skemmtilegu hefð að fara í „sunday roast.“ Ég fór alltaf á veitingastaðinn Turf Tavern sem hefur lengi verið vinsæll meðal háskólanema í Oxford. Um helgar fór ég líka alltaf út að hlaupa eða í göngutúr um bæinn eða í Bury Knowle-garðinum sem var nálægt heimilinu mínu.“

Gaman að geta skroppið til London

„Mér þótti líka gaman að fara inn til London um helgar. Það er mjög þægilegt að taka bara rútu sem heitir „Oxford tube“ og hún fer beint til London frá Oxford. Það var fínt að geta breytt aðeins um umhverfi þar sem Oxford er hálfgerð sveit.“

Nína ásamt skólafélögum við Oxford School of Drama.
Nína ásamt skólafélögum við Oxford School of Drama. Ljósmynd/Aðsend

„Þegar maður er heima finnur maður að allir eru alltaf á hundrað, allir þurfa alltaf að vera í öllu og alltaf brjálað að gera en þarna úti voru allir bara að gera sitt og það var miklu meiri tími til að anda.“

Áttirðu þér einhvern uppáhalds veitingastað í Oxford?

„Við fórum mjög oft á ítalska staðinn Gusto Italian, hann er ekkert það dýr, en við fórum oft þangað því það var svo góð ostakaka sem við fengum okkur alltaf,“ segir Nína kímin.

„Svo er mjög góður „bröns“ á veitingastaðnum Cozy Club.“

Það er mikil hefð hjá Bretum að fara í sunday …
Það er mikil hefð hjá Bretum að fara í sunday roast. Ljósmynd/Aðsend

Leikur í þáttum fyrir bandaríska streymisveitu

Hvað ertu að gera núna og hvað er fram undan?

„Ég er að leika í þáttum fyrir bandaríska streymisveitu eins og stendur en ég get ekki sagt alveg strax hvaða þættir það eru en þetta er klárlega frábært tækifæri og ég hlakka til að geta sagt meira frá því seinna. Svo komst ég inn í leiklistarskóla í New York en ákvað að núna væri ekki rétti tíminn til að flytja þangað og svo má maður ekki vera í neinum verkefnum á meðan maður er í flestum skólunum þarna úti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert