„Fyrst þegar þessi hugmynd kom upp þá var þetta bara djók“

Sölvi Jónsson segir skemmtilegra að djamma á Íslandi en í …
Sölvi Jónsson segir skemmtilegra að djamma á Íslandi en í Sviss. Ljósmynd/Aðsend

Þeir Óskar Máni Davíðsson, Sölvi Jónsson, Bergur Ingi Óskarsson, Guðmundur Óli Ólason og Kristófer Daði Davíðsson fóru í heldur óhefðbundna strákaferð þegar þeir keyrðu um, klifu fjöll og gistu undir berum himni í Sviss í maí.  

„Fyrst þegar þessi hugmynd kom upp þá var þetta bara djók,“ segir Óskar Máni Davíðsson í samtali við blaðamann. Hann segir algengt að búin séu til hópspjöll fyrir ferðir sem aldrei séu farnar en í þessu tilviki hafi hópspjallsferðin orðið að veruleika.  

Einn strákanna, Sölvi, er fæddur og uppalinn í Sviss og þar af leiðandi lá beinast við að fara þangað. „Við vorum mjög heppnir að geta fengið fría gistingu í nokkra daga og bíl að láni. Annars hefði þetta verið svo dýrt,“ segir Óskar.  

Sölvi Jónsson, Bergur Ingi Óskarsson, Guðmundur Óli Ólason, Óskar Máni …
Sölvi Jónsson, Bergur Ingi Óskarsson, Guðmundur Óli Ólason, Óskar Máni Davíðsson og Kristófer Daði Davíðsson. Ljósmynd/Aðsend

Fjallgönguferð innblásin af hernum

„Þetta varð að fjallgönguferð af því Sölvi var búinn að vera í hernum,“ segir hann en Sölvi er svissneskur ríkisborgari og þurfti því að sinna herskyldu í Sviss.  

Félagarnir fimm flugu til Basel nóttina eftir úrslitakvöld Eurovision sem haldið var þar. Óskar segir stemninguna á vellinum hafa verið skrautlega. Þeir hafi séð langar leiðir hverjir væru að koma úr Eurovision-partýi.  

Beint af flugvellinum var ferðinni heitið til Brugg, þar sem foreldrar Sölva eru með annan fótinn. Þar fengu strákarnir bíl að láni og keyrðu á tjaldsvæði nálægt Matterhorn-fjallinu sem þeir svo klifu. „Við fórum upp að grunnbúðunum,“ segir Sölvi. Veðrið var gott þann dag og segir hann þetta hafa verið einn hápunkt ferðarinnar. „Við sáum líka múrmeldýr, það var ógeðslega gaman.“  

„Það var lokað þegar við fórum, við áttum ekkert að fara þangað,“ segir Óskar, „en við gengum bara samt upp.“

Veðrið var gott þegar dregirnir gengu upp að grunnbúðum Matterhorn-fjallsins.
Veðrið var gott þegar dregirnir gengu upp að grunnbúðum Matterhorn-fjallsins. Ljósmynd/Aðsend

Gistu úti í hellidembu 

Ætlunin var að gista í tjaldi allar næturnar en veðrið lék ekki við drengina svo þeir enduðu á að gista á farfuglaheimili og leigja sér Airbnb-íbúð. Eina nóttina gistu þeir þó uppi á fjalli undir berum himni.  

Sölvi var þaulvanur, enda hafði hann oft gist úti í hernum. „Okkur fannst þetta bara spennandi,“ segir Óskar. Þeir gengu upp fjall nálægt þorpinu Appenzell og bjuggu um sig í laut í 1600 metra hæð. „Þetta var mjög brött og erfið ganga. Þetta var alveg rúmlega 800 metra hækkun. Við vorum líka allir með fulla poka,“ segir Óskar. 

Strákarnir gengu upp fjall til að sofa undir berum himni.
Strákarnir gengu upp fjall til að sofa undir berum himni. Ljósmynd/Aðsend

Strákarnir gistu á útilegudýnum og höfðu nánast fyrir tilviljun tekið með sér plastyfirbreiðslu sem þeir spenntu yfir sig. Þeir þökkuðu fyrir það um nóttina því þrátt fyrir góða veðurspá hellirigndi.

„Sumir sváfu betur en aðrir,“ segir Óskar. „Ég svaf til dæmis mjög vel og var að mestu leyti þurr en Bergur var á jógadýnu og vatnið fór bara í gegnum botninn á dýnunni svo hann var holdvotur. Ég myndi gera þetta aftur en ég myndi þá taka með mér svartan ruslapoka til að sofa ofan í.“  

Skemmtilegra að djamma á Íslandi 

Óskar segist klárlega frekar vilja fara aftur í svona ferð en í hefðbundna djammferð. „Allt það góða sem þú færð í djammferð er líka hægt að fá í öðrum ferðum,“ segir Óskar. „Þetta er alveg svona „bonding“ dæmi að klifra upp á fjöll.“ Hann segir þá strax vera komna með hugmynd um að fara í sambærilega ferð til Argentínu.  

Strákarnir tóku þó út sinn skammt af djammi í bænum Lugano. „Það var bara fínt en allt hitt var miklu skemmtilegra, að vera í fjöllunum og skoða náttúruna,“ segir Óskar. Sölvi tekur undir, hann segir skemmtilegra að djamma á Íslandi en í Sviss. „Það var ekki gaman að djamma í Lugano,“ segir hann. „Það voru einhvern veginn allir í sínum hópum og það vildi enginn tala við neinn. Það var erfitt að tengjast fólki.“  

Aðspurður hvort þetta sé lýsandi fyrir Svisslendinga segir Sölvi svo vera. Þessi menningarmunur kristallaðist síðasta kvöld ferðarinnar þegar drengirnir voru komnir aftur á heimaslóðir Sölva í Brugg og buðu vinum hans í Raclette kvöld.

„Það mætti enginn,“ segir Óskar. Hann segir Svisslendinga þurfa heldur lengri fyrirvara fyrir plön en Íslendinga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert