Hjónin Bjarni Gunnarsson og Kristín Aðalheiður Símonardóttir, sem er oftast kölluð Heiða, hafa búið á Dalvík í 35 ár. Heiða er þaðan en Bjarni er frá Grenivík og í dag reka þau
kaffihúsið Gísla, Eirík, Helga sem er samkomuhús fyrir heimafólk, Íslendinga sem ferðast innanlands og erlenda túrista
„Við höfðum rekið gistingu fyrir ferðamenn frá árinu 2010 og okkur fannst vanta eitthvað sem myndi vera eins og samnefnari fyrir sveitarfélagið, nokkurs konar sérstaða eða einkenni staðarins sem aðrir væru ekki að nota sem aðdráttarafl. Þegar kom að því að velja nafn á kaffihúsið datt okkur í hug að nota bræðurna frá Bakka í Svarfaðardal. Okkur finnst þeir tilheyra Svarfaðardal eða Dalvíkurbyggð, og engu öðru, þótt heimildir og sögur segi þá hugsanlega eiga uppruna t.d. í Fljótum,“ segir hún.
„Heiða vildi fyrst búa til sögusetur um þá bræður, stað þar sem væri að finna sambland af sögusafni og skemmtilegu efni og viðburðum tengdum sögunum af Bakkabræðrum. Hún fann húsnæði, gamalt fjárhús og hlöðu rétt við Dalvík sem við skoðuðum og fengum reyndar yfirráðarétt yfir með það fyrir augum að gera upp og byggja sögusetur Bakkabræðra. Það kom nú fljótt í ljós að þetta verkefni yrði of dýrt og erfitt í uppsetningu á þessum stað og það væri vænlegra að tengja sögusetrið annarri starfsemi sem gæfi einhverjar tekjur af sér. Nokkru seinna bauðst okkur að leigja hluta af húsinu Sigtúni við Grundargötu á Dalvík af Dalvíkurbyggð og þá ákváðum við að láta af þessu verða, byggja sögusetur og kaffihús þar sem gestir gætu notið veitinga og upplifana í bland við að kynna sér allt um Bakkabræður,“ segir Bjarni.
Hjónin segja að þau hafi lagt upp með að hafa kaffihúsið gamaldags og heimilislegt og að þar yrðu hlutir sem minntu á Bakkabræður og sögurnar af þeim sem mætti tengja öðrum þjóðsögum.
„Við reynum að bjóða upp á úrval af heimagerðu brauði og kökum, gott kaffi og súkkulaði í bland við aðra drykki þar sem bjórinn úr heimabyggð, Kaldi, er í öndvegi. Fljótlega kom í ljós að það var eftirspurn eftir hádegisverði eða meiri mat en bara kaffi og kökum og þá ákvað Heiða að byrja með súpur, og þá aðallega fiskisúpu. Á endanum einskorðaðist þetta við fiskisúpuna okkar með fersku salati. Við bökum brauð úr bjórnum Kalda, sem fylgir súpunni. og þessi einfaldi pakki hefur alla tíð slegið í gegn þannig að gestir víða að koma til okkar, eingöngu til að njóta hans en komast svo að því að kaffihúsið er fullt af upplifunum og skemmtilegheitum, sem hefur glatt ferðamenn nú í rúm 12 ár,“ segir Bjarni.
Þau segjast vera ánægð með að hafa valið þetta nafn á kaffihúsið.
„Þetta er rammíslenskt nafn sem passar við það sem við erum að gera. Það er allt of mikið um að reynt sé að höfða til gesta með því að nefna staði erlendum nöfnum og við erum alfarið á móti því,“ segir Heiða.
Húsið Sigtún á sér langa sögu en það var byggt árið 1937 og var áður þekkt sem Siggabúð.
„Hér var fyrst íbúð á efri hæðinni en verslun Sigurðar P. Jónssonar var á neðri hæðinni. Það er gaman að segja frá því að Siggi þessi var langömmubróðir Heiðu. Hann rak hér verslun til ársins 1967 en eftir það var hér bæði rafmagnsverkstæði og glergallerí. Einnig hafa listamenn fengið að hafa hér aðstöðu sem og leikfélagið á Dalvík. Rekstur kaffihússins okkar hófst árið 2013 en tveimur árum síðar keyptum við allt húsið af Dalvíkurbyggð og stækkuðum þá við okkur, þar sem við bættum efri hæðinni við,“ segir hann.
Hjónin reka kaffihúsið allan ársins hring og segja að skíðavertíðin sem byrjar í mars komi sterk inn.
„Það er auðvitað mest að gera yfir sumartímann, eins og á flestum stöðum, en við erum svo heppin að hafa hér ferðamennsku yfir vetrartímann, bæði skíðafólk sem sækir skíðasvæðið heim og svo fjallaskíðamenn sem hafa nánast gert kaffihúsið okkar heimsfrægt með því að fylla það á hverjum degi árlega í mars, apríl og maí. Það er afar skemmtilegur tími þar sem kaffihúsið verður að samkomustað fjallaskíðafólks og margir koma við á hverjum degi meðan á dvöl þeirra stendur. Við fáum mikinn fjölda Íslendinga í heimsókn en það verður að segjast að meirihlutinn er trúlega erlendir gestir á ferð um landið. Við rekum líka gistingu fyrir tæplega 50 manns og þeir gestir eru duglegir að nýta kaffihúsið,“ segir hún.
Þótt fiskisúpan sé langvinsælust segja þau að erlendir ferðamenn séu spenntir fyrir því rammíslenska og nefna rúgbrauð.
„Erlendu ferðamennirnir eru forvitnir um rúgbrauð og flatbrauð sem við smyrjum auðvitað með hangikjöti og silungi reyktum í Ólafsfirði.“
Heiða og Bjarni eru metnaðarfull og iðin við að halda í söguna og sjarmann sem fylgir húsinu. Hluta úr árinu leigja þau húsnæði Ungó af Dalvíkurbæ en það er leikhús og var bíó Dalvíkur á árum áður, en það er áfast kaffihúsinu.
„Við sýnum gestum og gangandi Ungó og stundum höldum við þar viðburði eins og tónleika eða sýningar og oft eru sýndir íþróttaviðburðir þar á skjá. Gömlu sýningarvélarnar, sem nú eru ekki lengur í notkun, eru sýnilegar gestum af efri hæð kaffihússins. Þær eru mjög merkilegar og góður minnisvarði um bíómenninguna eins og hún var áður fyrr. Vélarnar eru svokallaðar kolbogaljós-vélar og eru mjög gamlar, trúlega elstu kvikmyndasýningarvélar í sínu upprunalega umhverfi á Íslandi,“ segir hún.
Hvað finnst ykkur skemmtilegast við vinnuna ykkar?
„Það er fjölbreytileikinn, það er enginn dagur eins. Maður sofnar með ákveðna hugmynd að verkefnum næsta dags, en eitt símtal að morgni getur breytt öllum deginum. Það er svo gefandi og gaman að vera í þessu starfi sem ferðaþjónustan er og hitta allt þetta skemmtilega fólk sem heimsækir okkur. Við finnum hvað það gefur líka gestum okkar mikið að tala við heimafólk og heyra sögu okkar sem byggjum þetta land og þennan bæ, og hvernig lífið og tilveran gengur á þessari litlu eyju okkar lengst norður í Atlantshafi. Í tengslum við gistinguna okkar erum við að gera upp gamalt hús sem við byggðum við, og nú er farið að sjá fyrir endann á því stóra og fallega verkefni. Það verður góð viðbót við þau hús sem við bjóðum nú þegar upp á í gistimöguleikum hjá okkur. Dagarnir eru oft ansi langir og vinnustundirnar margar, því skiptir miklu máli að hafa gaman af því sem maður er að fást við alla daga. Við höfum tengst mörgum gesta okkar sem koma ár eftir ár miklum vináttuböndum og eigum reyndar heimboð úti um allan heim sem við getum vonandi nýtt okkur einhvern tímann,“ segir hún.