„Ég varð einfaldlega hálfheltekinn af fjallalífinu“

Hermann Gunnar ásamt uppáhaldsgöngufélaganum, eiginkonu sinni, Elínu.
Hermann Gunnar ásamt uppáhaldsgöngufélaganum, eiginkonu sinni, Elínu.

Hermann Gunnar Jónsson er mikill göngugarpur og veit fátt skemmtilegra en að reima á sig gönguskóna og arka upp á fjöll. Hann hefur ferðast um á tveimur jafnfljótum um fjöllin í nágrenni sínu síðustu ár og gekk meðal annars á alla fjallatinda í Grýtubakkahreppi fyrir nokkrum árum. Sú hugmynd kviknaði fljótlega eftir að Hermann Gunnar fékk hina alræmdu göngubakteríu, eða rétt eftir að hann fylgdist með Þorvaldi Víði Þórssyni, eða Olla, ganga á hundrað hæstu tinda landsins.

Hermann Gunnar er borinn og barnfæddur Bárðdælingur. Hann er menntaður búfræðingur og húsasmiður en starfaði lengst af sem sjómaður, eða í heil 20 ár. Hann er búsettur á Grenivík ásamt eiginkonu sinni, Elínu Jakobsdóttur, og syni þeirra hjóna, Jóni Þorra, og segir lífið fyrir norðan afskaplega ljúft og þægilegt.

Hvað heillar þig við að búa á Norðurlandi, þá sérstaklega Grenivík?

„Ég er fæddur og uppalinn í Bárðardal og kann vel við rólega lífið á Grenivík. Þetta er algjör útivistarparadís. Ég loka útidyrahurðinni og er lagður af stað í fjallgöngu um leið, sem mér leiðist alls ekki. Hér er líka allt til alls, gott samfélag, heilmikil þjónusta og stutt að fara til Akureyrar, sá bær er góður nágranni.“

Hermann Gunnar á toppi Gjögurfjalls.
Hermann Gunnar á toppi Gjögurfjalls.

Ferðaáhuginn alltaf verið til staðar

Aðspurður hvenær ferðaáhuginn hafi kviknað segir Hermann Gunnar hann alltaf hafa verið til staðar.

„Maður ólst upp í sveitinni og við sveitastörf, hlaupandi um fjöll og firnindi og ríðandi á hestum. Hestamennskan var aðaláhugamálið þar til fyrir svona tíu til fimmtán árum en þá færðist áhuginn meira yfir í fjallagöngur og nú síðast fjallahlaup.“

Hvað heillaði þig svona mikið við fjallgöngur?

„Æ, veistu ég bara veit það hreinlega ekki, eða man það ekki,“ segir Hermann Gunnar og hlær. „Árið 2007 kviknaði einhver óútskýranlegur áhugi og ég varð einfaldlega hálfheltekinn af fjallalífinu.“

Hermann Gunnar tekur mikið af ljósmyndum á ferðalögum sínum um …
Hermann Gunnar tekur mikið af ljósmyndum á ferðalögum sínum um hálendið.

Er mikil ævintýraþrá í þér?

„Svona, já og nei. Ég er rólyndismaður og mjög passasamur, fer ávallt varlega. En ég bara elska að arka upp á fjöll og njóta útiveru í íslenskri náttúru, hvort sem er einn, með eiginkonunni eða hópi fjallagarpa.“

Hermanni Gunnari fannst ekki mikið mál að byrja að ganga á fjöll.

„Þetta var lítið mál. Ég er sveitamaður í mér, búinn að fara ríðandi í göngur alla tíð og það að ganga á fjöll var ekkert nýtt fyrir mér, þannig lagað. En þegar ég byrjaði að ganga á fjöll þá voru auðvitað leiðir sem reyndust mér krefjandi en ég lagði upp úr því að vera varkár.“

Hvar hefur þú mest verið að ganga á fjöll?

„Maður hefur mest verið að labba „á heimasvæði“, það er sem sagt skaginn okkar, Gjögraskagi/Flateyjarskagi, sem liggur á milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa. Það er yndislegt svæði sem býður upp á fjölbreyttar og skemmtilegar gönguleiðir, fyrir byrjendur sem og lengra komna.“

Ekki slæmt útsýni.
Ekki slæmt útsýni.

Ferðu mest einn á fjöll?

„Ég tilheyri engum gönguhópum og fer mikið einn en á síðustu árum höfum við hjónin gengið mikið saman á fjöll. Í langan tíma fór ég bara einsamall, ef það var gott veður á virkum degi þá bara skellti ég mér af stað, sem var mjög þægilegt. Maður fékk útrás og gleymdi dagsins amstri í eitt andartak.“

Eru fjallgöngur besta leiðin til að hreinsa hugann?

„Já, að mínu mati. Maður kemur endurnærður til baka úr góðri göngu. Fjallgöngur eru líka góð leið til að halda sér í formi, sem skiptir mig máli. Ég vil halda mér í fjallaformi, eða þannig formi að ég geti tekið með góðu móti krefjandi sex til átta tíma fjallgöngu án þess að vera uppgefinn á eftir. Maður vill sömuleiðis geta horft til baka og séð að maður hafi lagt sig fram um að gera eitthvað fyrir heilsuna og auka líkurnar á að vera frískur gamall.“

Hópur göngugarpa á leið niður af Kaldbak.
Hópur göngugarpa á leið niður af Kaldbak.

„Ég skrásetti ferðalagið“

Hermann Gunnar hélt af stað í fyrstu fjallgönguna í hinu svokallaða fjallaverkefni árið 2009 og sex árum síðar náði hann á topp síðasta fjallsins í hreppnum og árið 2023 hafði hann lokið við að ganga á alla fjallatoppa Gjögraskaga/Flateyjarskaga.

„Þetta var góður tími,“ segir hann.

Áttu þér uppáhaldsfjallaleið á Norðurlandi?

„Það er dagsfjallaleið um Svínárhnjúk, Útburðarskálarhnjúk og Kaldbak; þessi leið er fyrir þá sem eru vanir fjallgöngum. En svo er einn staður, ekki alveg á Norðurlandi, við erum eiginlega dottin inn á Austurland eða Norðausturland, en það er þriggja tíma göngutúr um Þerribjörg á Héraði. Það er einn flottasti staður sem ég hef komið á. Gangan er krefjandi en vel þess virði.“

Og svona í lokin varð blaðamaður að forvitnast um það sem má ekki vanta í bakpokann.

„Skyndihjálparpakkann og kakó,“ segir Hermann Gunnar að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert