„Stundum finnst mér smá eins og borgin sé lifandi tilraunastofa“

Eva Bergrín Ólafsdóttir í San Francisco-flóa.
Eva Bergrín Ólafsdóttir í San Francisco-flóa. Ljósmynd/Aðsend

Eva Bergrín Ólafsdóttir elti ástina til Kaliforníu fyrir sex árum og hefur hún lifað ævintýralegu lífi þar síðan. Eva og maki hennar, Helgi Hilmarsson, eignuðust sitt fyrsta barn fyrr á árinu, í San Francisco-borg, og síðastliðna mánuði hafa þau verið að fóta sig þar sem þriggja manna fjölskylda. Sumrinu vörðu þau á Íslandi en þau elska lífið sitt í fylkinu sólríka.

„Ég flutti fyrst í Kísildalinn árið 2019, þegar Helgi, maðurinn minn, hóf nám við Stanford-háskólann. Ég var stödd í lýðháskóla á Sansibar í Tansaníu þegar ég tók þá ákvörðun að elta hann til Kaliforníu þremur mánuðum síðar, ekki með hugmynd um hvað ég myndi gera. Hálfu ári eftir að við fluttum hóf ég sjálf nám í grafískri hönnun í skóla ekki langt frá Stanford-„kampusnum“. Það voru svo atvinnutækifæri og borgarmenningin sem drógu okkur að lokum til San Francisco!“

Hvernig var fyrsta árið í Kaliforníu?

„Fyrsta árið var mjög sérstakt því að kórónuveiran skall á skömmu eftir að við fluttum út. Við bjuggum í litlu stúdíói og vorum eiginlega bara föst heima, rétt nýbúin að koma okkur fyrir. Veðrið bjargaði okkur en það var skrýtið að vera í nýju landi í hálfgerðri einangrun. Á móti gaf það mér tíma til að einbeita mér að náminu, og við urðum líka nánari því fólki sem ákvað að vera eftir á Stanford á meðan aðrir fóru heim.

Síðan þá hefur lífið bara þróast hægt og rólega, maður lærði að standa á eigin fótum, engin mamma til að henda í þvottavélina eða elda kvöldmatinn. Íslenska menningin er að einhverju leyti alveg lík menningunni í Kaliforníu og því aðeins auðveldara að venjast. En ég held að ég venjist því seint að hugsa og tala annað tungumál allan daginn, alla daga,“ segir hún.

Eva og Helgi hófu dvölina vestanhafs í Kísildalnum og bjuggu …
Eva og Helgi hófu dvölina vestanhafs í Kísildalnum og bjuggu þar í um þrjú ár. Ljósmynd/Aðsend

Landaði draumastarfi

Eva lærði við Dóminíska háskólann í Kaliforníu og útskrifaðist þaðan með gráðu í grafískri hönnun.

„Á meðan ég var í skóla fór ég í alls konar starfsnám, vann á alþjóðlegu markaðsskrifstofu skólans og sá m.a. um samfélagsmiðlana þeirra, gerði umbúðir fyrir danskt fæðubótarefni og hannaði lógó fyrir rannsóknarverkefni í Stanford. Þetta var svolítið allt í bland, en þetta hjálpaði mér að byggja upp möppu og koma mér á framfæri.

Stuttu seinna fékk ég svo vinnu sem grafískur hönnuður hjá teymi sem sér um viðburði og afþreyingu hjá Meta, eða Facebook eins og það hét þá. Ég vann þar í rúm þrjú ár og lærði ótrúlega mikið. Það var eiginlega smá óraunverulegt að hugsa til þess að mörg þúsund manns sæju og notuðu hönnunina mína á hverjum einasta degi í vinnunni. Það hefði ég aldrei getað ímyndað mér þegar ég flutti út.“

Hún hefur vaxið mikið sem manneskja við það að búa …
Hún hefur vaxið mikið sem manneskja við það að búa langt frá Íslandi og sér ekki eftir því, að hafa tekið af skarið og flutt. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig finnst ykkur að búa í San Francisco?

„Það fer rosa vel um okkur hér! Við búum í Presidio Heights-hverfinu og njótum þess að vera í hverfi sem er mjög líflegt, með kaffihúsum, veitingastöðum og golfvelli í göngufæri. Við búum líka við stóran þjóðgarð þar sem við erum daglega með hundinn okkar, Klaka. Það er orðið svolítið eins og okkar eigin bakgarður.

Eins og er sjáum við fyrir okkur að vera áfram hér í nokkur ár í viðbót, bæði að elta atvinnutækifærin og njóta lífsins með fólkinu sem við höfum kynnst. Samt sem áður togar Ísland alltaf í okkur, sérstaklega eftir að sonur okkar fæddist. Það gerir það enn erfiðara að vera hinum megin á hnettinum, frá fjölskyldu og vinum,“ segir hún.

Hvernig myndirðu lýsa borginni?

„San Francisco er litrík, fjölbreytt og skapandi borg og hún kemur mér reglulega á óvart fyrir utan veðurfar, það er yfirleitt þoka eða sól. Stundum finnst mér smá eins og borgin sé lifandi tilraunastofa, full af kombucha-drekkandi forriturum og sjálfkeyrandi bílum.

San Francisco er skemmtileg blanda af stórborgarlífi og náttúru, það er alltaf eitthvað nýtt að sjá og upplifa. Borg með alltof brattar brekkur og mikla garða, og matarmenningu.“

Hér er Eva ásamt íslenskum vinkonum í góðum gír við …
Hér er Eva ásamt íslenskum vinkonum í góðum gír við vínekru. Ljósmynd/Aðsend

Yndislegt og erfitt tímabil

Sonur Evu Bergrínar og Helga, hann Leó, kom í heiminn í mars og fæddist hann í borg flóans. Hann fékk svo að hitta vini og fjölskyldu á Íslandi í sumar.

„Að verða mamma hérna úti var bæði stórkostleg og erfið upplifun á sama tíma. Þetta er mitt fyrsta barn þannig ég á erfitt með að bera það saman við að eiga á Íslandi, en ég er mjög heppin með lækninn minn sem fylgdi mér alla meðgönguna og eftir fæðingu. Mín reynsla af spítalanum er góð, þ.e. allir læknatímar, og fæðingin gekk bara vel. Erfiðast var að vera langt frá fjölskyldunni en það hefur verið sérstaklega gott að eiga góðar vinkonur heima á Íslandi, sem eignuðust börn á sama tíma.

Við heyrumst daglega, bæði til að tala um líðan og endalausar spurningar sem koma upp. En sem betur fer eigum við mjög gott stuðningsnet hérna úti og það var fólk til staðar fyrir okkur fyrstu vikurnar.“

Frumburðurinn kom í heiminn á spítala í San Francisco.
Frumburðurinn kom í heiminn á spítala í San Francisco. Ljósmynd/Aðsend

Þegar Eva er spurð að því hvað sé vinsælast að gera þegar fjölskylda og vinir koma í heimsókn situr hún ekki á svörunum.

„Það elska allir að labba um borgina, sjá Golden Gate-brúna, borða góðan mat og kíkja á hverfi eins og Pacific Heights, North Beach og Marina. Við tökum flesta gesti kannski í einn golfhring í sólinni og reynum svo að kíkja á tónleika eða skemmtilega íþróttaviðburði.

Rétt fyrir utan borgina er gaman að kíkja á Point Reyes, koma við á Hog Island og fá ferskar ostrur. Það slær samt alltaf í gegn að fara með gesti á vínekrurnar í Napa og Sonoma, og ef tíminn leyfir reynum við líka að fara með þá í Yosemite-þjóðgarð, sem er algjör náttúruperla.“

Hvað er það besta við að búa í borginni?

„Það besta við að búa í San Francisco er þessi ótrúlega fjölbreytni sem maður finnur alls staðar; í fólkinu, fallegum arkitektúr, matnum og menningunni. Svo er þetta líka borg sem er full af metnaði og tækifærum. Það er mjög hvetjandi að vera í umhverfi þar sem allir eru að reyna að skapa eitthvað nýtt og hugsa stórt.

Fyrir mig hefur það til dæmis þýtt að hafa fengið stórt og ábyrgðarmikið hlutverk sem hönnuður innan teymisins hjá Meta og að mæta á stærstu hönnunarráðstefnu heims, Adobe Max. Og fyrir Helga, sem vinnur við að þróa gervigreindarlíkön, er þetta klárlega einn heitasti og mest spennandi staðurinn í heiminum til að vera á. Öll þessi tækifæri gefa bæði innblástur og kraft í daglegu lífi.

Annars er dásamlegt hvað náttúran er nálægt, það er frelsistilfinning að geta skroppið út úr borginni og verið komin upp á fjöll eða út við strönd á hálftíma. Veðrið spilar líka stórt hlutverk, það er oftast svipað hitastig allt árið sem gerir það svo auðvelt að vera úti og njóta,“ segir Eva.

Hún kom sér inn á vinnumarkaðinn í Kaliforníu og landaði …
Hún kom sér inn á vinnumarkaðinn í Kaliforníu og landaði flottu starfi hjá Meta. Ljósmynd/Aðsend

Geturðu mælt með einhverjum stöðum í Kaliforníu?

„Við höfum eignast nokkra uppáhaldsstaði hér í Kaliforníu. Yosemite yfir sumarið er sennilega á toppnum en við dýrkum líka Lake Tahoe, sérstaklega yfir veturinn og vorið, þegar það er hægt að skíða.

Við mælum einnig með vínhéraðinu Sonoma, vínsmökkun í Gloria Ferrer er sérstaklega í uppáhaldi. Og svo er Highway 1 alveg einstakur að keyra; við reynum alltaf að stoppa í litla bænum Carmel-by-the-Sea, kíkja í lautarferð með eina vínflösku á ströndinni og rölta um bæinn.“

Móðir Evu Bergrínar hefur flogið yfir hafið og heimsótt þau.
Móðir Evu Bergrínar hefur flogið yfir hafið og heimsótt þau. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig var sumarið hjá þér?

„Við eyddum sumrinu á Íslandi þar sem Helgi var enn í fæðingarorlofi. Það var dásamlegt að vera heima og hitta fjölskyldu og vini og leyfa öllum að kynnast Leó í fyrsta skipti. En núna er líka gott að vera komin aftur út og komast smám saman í rútínu.

Þessa dagana er ég að bíða eftir nýju vinnuleyfi, á meðan ætla ég bara að njóta tímans með Leó. Við ætlum að vera dugleg að rölta um borgina, prófa nýja garða og kaffihús, og bara njóta þess að eiga þennan tíma saman áður en ég fer aftur út á vinnumarkaðinn,“ segir Eva.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert