Rokkuðu með AC/DC í Edinborg

Hjónin Kristín Sif Björgvinsdóttir og Stefán Jakobsson skelltu sér á …
Hjónin Kristín Sif Björgvinsdóttir og Stefán Jakobsson skelltu sér á tónleika með AC/DC í Skotlandi. Ljósmynd/Aðsend

Útvarpskonan Kristín Sif Björgvinsdóttir og eiginmaður hennar, tónlistarmaðurinn Stefán Jakobsson, eru mikið ævintýrafólk og nýta hvert tækifæri til að halda út á vit ævintýranna. Í ágúst fóru þau til Skotlands og hjóluðu yfir hálendi landsins.

Þau enduðu ferðina á tónleikum rokksveitarinnar AC/DC.

Kristín Sif sagði blaðamanni aðeins frá ævintýrinu.

„Við ákváðum að fara til Skotlands í hjólaferð, enda fjallahjólasjúkt fólk. Við skoðuðum vikuferðir þar sem fólk hjólar í allt að fimm klukkustundir á dag á stöðum eins og Króatíu, Skotlandi, Suður-Afríku og Sviss. Þar sem við vorum að ákveða að fara með stuttum fyrirvara og vorum barnlaus á þeim tíma hugsaði ég að ef slíkar ferðir væru í boði gætum við líklega sett þetta saman sjálf. Og það gerðum við.“

Hjónin hjóluðu yfir hálendi landsins.
Hjónin hjóluðu yfir hálendi landsins. Ljósmynd/Aðsend

Af hverju varð Skotland fyrir valinu?

„Ég bjó í Skotlandi í nokkur ár þegar ég var um tvítugt og þekki svæðið ágætlega. Við ákváðum því að leigja rafmagnsfjallahjól og upplifa töfrandi landslag skosku hálendanna. Það reyndist auðvelt að finna hjól til leigu, bæði rafmagns- og venjuleg, í Cairngorms, sem er þjóðgarður. Ég pantaði hjól hjá Bothy Bikes í smábænum Kingussie, í rúmlega tveggja klukkustunda akstursfjarlægð frá Edinborg. Við bókuðum flug og hótel með aðeins tíu daga fyrirvara.“

Hvernig gekk ykkur, hvernig var veðrið og hvað var erfiðast?

„Allt saman var þetta stórkostleg upplifun. Við lentum í Glasgow, leigðum bíl og ókum upp í hálöndin. Það tók smá tíma að venjast því að keyra á hinum vegarhelmingnum en við völdum fallegri leiðina, þjóðveginn A82 í gegnum Dumbarton og upp til Fort William. Þvílík náttúrufegurð!

Við stoppuðum við Loch Lomond en þar var mikið um fólk vegna Bank Holiday‑helgarinnar. Við ókum hægt og nutum útsýnisins yfir Ben Nevis, sólskins og fjallalyngis. Eftir æðislega góðan mat í Fort William héldum við á hótelið. Hjólabúðin okkar var þvert á götuna – mjög þægilegt.“

Að sögn Kristínar Sifjar er skoska landslagið einstakt.
Að sögn Kristínar Sifjar er skoska landslagið einstakt. Ljósmynd/Aðsend

Hvað stóð upp úr?

„Hjólaleiðirnar upp á fjöll og um geggjaða stíga voru algjörlega magnaðar.

Einnig var stórkostlegt að ná að sjá AC/DC í Edinborg – algjörlega sturluð upplifun! Brian Johnson og co. geta enn tryllt lýðinn og Angus getur enn fengið mann til að hoppa upp og niður. Það var meiriháttar og við vorum ótrúlega heppin að ná miðum.“

Hvað heillaði mest við land og þjóð?

„Náttúrufegurðin er ótrúleg. Edinborg er hlý og skemmtileg borg, sérstaklega þar sem við hittum á Edinborg Tattoo og Fringe Festival. Skotar eru líka mjög kurteisir og þolinmóðir í umferðinni – eitthvað sem við hér heima gætum tekið okkur til fyrirmyndar.“

Hjónin sáu skoskar Highland-kýr á ferð sinni.
Hjónin sáu skoskar Highland-kýr á ferð sinni. Ljósmynd/Aðsend

Náðuð þið að gera eitthvað fleira skemmtilegt?

„Við hjóluðum, skoðuðum okkur um, heilsuðum upp á skoskar Highland‑kýr og fórum á AC/DC tónleika."

Eruð þið miklir aðdáendur rokksveitarinnar?

„Heldur betur, og það kom skemmtilega á óvart að þeir spiluðu þegar við vorum þarna. Stefán syngur oft AC/DC‑tribute heima og er ótrúlega góður í því.

Eruð þið sammála um besta lag sveitarinnar?

Já… en þeir eiga mörg góð. Við elskum Rock 'n' Roll Ain't Noise Pollution, Hells Bells, Shoot to Thrill, For Those About to Rock, Let Me Put My Love Into You og ég gæti lengi talið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka