„Ég vil helst alltaf eiga flugmiða út“

Lilja fór meðal annars á tónleika með Lewis Capaldi.
Lilja fór meðal annars á tónleika með Lewis Capaldi. Samsett mynd

Lilja Gísladóttir veit fátt skemmtilegra en að ferðast og nýtir hvert tækifæri til að fljúga út á vit ævintýranna. Hún er nýkomin heim úr viðburðaríkri vinkonuferð til Manchester þar sem hún sótti tónleika með poppstjörnunni Lewis Capaldi og fylgdist jafnframt með Liverpool sigra Atlético Madrid – sem gladdi að sjálfsögðu hjarta sanns stuðningsmanns.

Ferðin var þó ekki sú eina sem Lilja hefur lagt í síðustu vikur. Hún fór nýlega í mæðgnaferð til Lundúna og aðeins örfáum dögum eftir heimkomu hélt hún Póllands þar sem hún studdi íslenska landsliðið í körfuknattleik ásamt föður sínum og bróður á EuroBasket.

Blaðamaður sló á þráðinn til Lilju og fékk að heyra um ferðaáhugann og skemmtiferðirnar.

Lilja ásamt móður sinni, Guðbjörgu Rósu Björnsdóttur, og systur, Dagnýju …
Lilja ásamt móður sinni, Guðbjörgu Rósu Björnsdóttur, og systur, Dagnýju Rún Gísladóttur, fyrir utan Buckingham-höll. Ljósmynd/Aðsend

En áður en við förum að kafa í meginatriðin er gott að kynnast Lilju aðeins betur.

Lilja er 34 ára, fædd og uppalin í blómabænum Hveragerði. Hún flutti til Reykjavíkur þegar hún hóf nám við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Hún starfar í markaðsdeild Hagkaups og er einnig sminka hjá Sýn, en Lilja lærði förðunarfræði í Reykjavík Makeup School.

Jæja, það er óhætt að segja að þú hafir verið á ferð og flugi síðustu vikur – hvað er það við ferðalög sem heillar þig mest?

„Ferðalög eru mjög stórt áhugamál, ég bara elska að ferðast og vil helst alltaf eiga flugmiða út. Ég viðurkenni þó að síðustu vikur eru ekki alveg „normið“, ég ferðaðist óvenjumikið í sumar, sem mér fannst samt ekkert leiðinlegt.”

Þú byrjaðir á því að fara í mæðgnaferð til Lundúna – hvernig var stemningin og upplifunin?

„Já, ég ferðaðist til Lundúna ásamt móður minni, systur og frænkum. Við fórum á Mamma Mia! The Party í O₂-tónleikahöllinni, enda móðir mín og frænka miklir ABBA-aðdáendur – kvöldinu verður seint gleymt, og ég mæli eindregið með sýningunni.

Ferðin sjálf var í alla staði æðisleg, bara sannkölluð skvísuferð. Við borðuðum góðan mat, nutum sólarinnar og röltum um götur Lundúna.“

Lilja kíkti í „afternoon tea“ á Cloud 23.
Lilja kíkti í „afternoon tea“ á Cloud 23. Ljósmynd/Aðsend

Ein vika var liðin frá heimkomu Lilju frá Lundúnum, þegar hún stóð aftur með pakkaðar ferðatöskur og stefndi til Póllands – Katowice var næsti áfangastaður.

Varstu búin að jafna þig á ferðaþreytunni þegar þú lagðir aftur af stað?

„Já, algjörlega! Ég var líka svo spennt að hvetja strákana okkar til dáða úr stúkunni.“

Ertu mikill körfuboltaaðdáandi?

„Já, ég er það. Ég fylgist bæði með körfubolta og fótbolta og það var ótrúlega gaman að fylgjast með íslenska landsliðinu á stórmóti – það er sannarlega mikil upplifun.“

Lilja fyrir utan íþróttahöllina í Katowice.
Lilja fyrir utan íþróttahöllina í Katowice. Ljósmynd/Aðsend

Eins og fram kom í byrjun þá er Lilja nýkomin heim úr síðustu sumarferðinni.

„Já, ég var í Manchester, þeirri líflegu borg. Ég fór ásamt vinkonu minni, Sigrúnu Önnu Guðnadóttur, í tónleikaferð – við erum báðar miklir aðdáendur Lewis Capaldi. En svo enduðum við óvænt á því að fara á leik í Meistaradeildinni, og það var alveg geggjað. Ég átti eftir að haka í það box.“

Hvernig var stemningin á vellinum?

„Heyrðu, hún var frábær. Við sátum nálægt stuðningsmönnum Atlético Madrid, sem gerði upplifunina enn skemmtilegri. Það var gaman að upplifa alvöru boltabullustemningu.“

Lilja ásamt vinkonu sinni, Sigrúnu Önnu Guðnadóttur.
Lilja ásamt vinkonu sinni, Sigrúnu Önnu Guðnadóttur. Ljósmynd/Aðsend

En aðeins aftur að Lewis Capaldi-tónleikunum.

Hvar voru þeir haldnir, og voru þetta fyrstu stórtónleikarnir sem þú fórst á?“

„Nei, þetta voru ekki fyrstu stórtónleikarnir. Ég fór að sjá Taylor Swift í Póllandi í fyrra.

Capaldi-tónleikarnir voru haldnir í Co-op Live-tónleikahöllinni í Manchester. Ég er mikill aðdáandi hans – uppgötvaði hann á TikTok fyrir einhverjum árum og fannst hann ótrúlega skemmtilegur.

Ég átti einmitt miða á tónleika með honum fyrir tveimur árum, líka í Manchester, en þeim var því miður aflýst vegna veikinda hans. Því var það sérstaklega gaman að sjá hann á sviði núna.“

Er einhver tónlistarmaður/hljómsveit sem þig dreymir um að sjá á sviði?

„Sko, ég er með mjög sérstakan tónlistarsmekk. Ég hlusta mikið á íslenska tónlist, en ekki neitt svakalega mikið á erlenda. Taylor Swift og Lewis Capaldi eru kannski þeir tónlistarmenn sem ég vildi hvað mest sjá „live“ á en ég væri alveg til í að sjá Adele,“ segir Lilja að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka