Sæmundur Már Sæmundsson veit fátt skemmtilegra en að ferðast og vill helst alltaf hafa einhver spennandi ferðaplön á dagskrá. Hann var aðeins nokkurra mánaða gamall þegar foreldrar hans hófu að ferðast með hann um hæðir og hóla Íslands, og þótt hann muni ekki beinlínis eftir þeim ferðum er hann sannfærður um að þar og þá hafi ferðaáhuginn kviknað, áhugi sem hefur fylgt honum allar götur síðan.
Sæmundur hefur ferðast vítt og breitt um heiminn og byrjaði ungur að starfa í fluggeiranum, aðeins 18 ára gamall. Fyrst vann hann við ræstingu flugvéla, síðan í farþegaþjónustu og frá árinu 2022 hefur hann starfað sem flugþjónn hjá Icelandair samhliða námi. Hann er nú á fimmta ári í tannlæknisfræði við Háskóla Íslands og sé það ekki nóg þá er hann einnig menntaður atvinnuflugmaður.
Áður en við ræðum ferðalögin og ferðaáhugann skulum við heyra aðeins meira um Sæmund.
„Einmitt það, já. Ég er þrítugur, fæddur og uppalinn í Keflavík en nú búsettur á Vatnsleysuströnd ásamt eiginmanni mínum, Magnúsi Jónssyni Núpan. Við höfum verið saman í átta ár og giftir í eitt. Magnús starfar einnig sem flugþjónn hjá Icelandair og er jafnferðaglaður og ég. Hann býr í Þýskalandi um þessar mundir þar sem hann er í meistaranámi í landslagsarkitektúr.“
Eins og fram hefur komið er Sæmundur menntaður atvinnuflugmaður, þó hann starfi ekki sem slíkur.
„Ég lauk flugnámi hjá Keili árið 2019 og var mjög spenntur að hefja störf sem flugmaður, en atvinnuhorfir voru ekki beint bjartar á þeim tíma. Þetta var stuttu eftir gjaldþrot WOW air og Icelandair var ekki að ráða inn flugmenn. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall svo á, fljótlega á eftir, varð mér ljóst að það gæti liðið talsverður tími þar til ég fengi starf sem flugmaður. Ég ákvað því að snúa mér að öðru og rifjaði upp gamla æskuást, tannlæknisfræðina.
Þegar ég var yngri hafði ég lengi ætlað mér að verða tannlæknir, svo ég lét það verða að veruleika og sótti um í tannlæknadeildina. Í desember 2021 fékk ég besta símtal lífs míns þar sem mér var tilkynnt að ég hefði komist inn í námið. Nú er ég á fimmta ári og alsæll með þá ákvörðun. Ég finn að ég er á réttri hillu í lífinu og þetta starf á vel við mig. Flugið verður þó alltaf stór hluti af mér og áfram eitt helsta áhugamálið,“ segir hann.
Og þá að máli málanna – ferðalögunum.
Hvenær kviknaði ferðaáhuginn?
„Ég var aðeins nokkurra mánaða gamall þegar foreldrar mínir byrjuðu að ferðast með mig um landið, þannig að ferðalög hafa í raun verið stór hluti af lífi mínu frá fyrsta degi. Ég hef líka alltaf haft mikinn áhuga á flugi og utanlandsferðum. Þar sem ég er uppalinn í Keflavík hefur maður verið í mikilli nálægð við flugið. Það var alltaf spennandi að sjá flugvélarnar fljúga yfir bæinn og mig dreymdi snemma um að komast sjálfur í flugferð.“
Manstu eftir fyrsta ferðalaginu?
„Fyrsta utanlandsferðin mín var til Portúgal þegar ég var fimm ára. Það sem mér fannst langspennandi við þá ferð var að fá loksins að fljúga – hitt var eiginlega aukaatriði,“ segir hann.
Til hvaða landa hefur þú ferðast?
„Ég hef ferðast mest um Evrópu og Bandaríkin, en einnig komið til Mexíkó, Marokkó og Japan.“
Hvað hafa ferðalög kennt þér um heiminn – og um sjálfan þig?
„Ferðalög hafa kennt mér að ég er mjög heppinn að vera Íslendingur. Það eru forréttindi að búa í frjálsu, öruggu og friðsælu landi þar sem maður hefur tækifæri til að láta verða eitthvað úr sér.“
Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið þitt?
„Ég og maðurinn minn giftum okkur í október í fyrra og ákváðum að skella okkur í brúðkaupsferð til Tókýó. Við fórum í desember og dvöldum þar í eina viku. Tókýó er algjörlega mögnuð borg – þar er hægt að sjá og upplifa svo ótrúlega margt. Við fórum á söfn, skoðuðum hof, heimsóttum Capybara-kaffihús, sáum robot show og margt fleira. Við röltum líka um helstu hverfi borgarinnar, sem eru mörg og afar fjölbreytt.
Uppáhaldshverfið okkar var Shinjuku, eitt það litríkasta og líflegasta í borginni. Það var sérstaklega gaman að kynnast bar-menningunni í Japan, þar sem fullt er af pínulitlum börum, oft með pláss fyrir aðeins fimm til tíu manns, sem skapa mjög nána og heimilislega stemningu.
Við prófuðum líka karókí – sem er nánast þjóðaríþrótt í Japan – en heimamenn voru reyndar ekkert sérstaklega hrifnir af frammistöðunni okkar,“ segir hann og bætir við: „Það sem heillaði okkur mest var þó fólkið. Japanir eru líklega yndislegasta fólk sem við höfum kynnst – afar kurteisir og með mikla virðingu fyrir bæði fólki og umhverfi sínu. Í Tókýó sér maður til dæmis varla rusl á götum og alls staðar mættum við hlýju og kurteisi.“
Aðspurður um uppáhaldsborgirnar segir Sæmundur erfitt að gera upp á milli.
„Það er svo erfitt að velja bara eina borg.
Lundúnir eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég kom þangað fyrst þegar ég var nítján ára. Við fyrstu kynni fannst mér borgin alltof stór og yfirþyrmandi, en með tímanum hef ég lært að meta hana betur. Ég er mikill leikhúsunnandi og Lundúnir hafa svo ótrúlega margt að bjóða á því sviði.
Amsterdam er líka í miklu uppáhaldi. Hún er falleg, hlýleg og kósí – hvert einasta götuhorn er eins og póstkort. Ef ég flyt einhvern tímann frá Íslandi er ég nokkuð viss um að Lundúnir eða Amsterdam yrðu fyrir valinu. En ég passa líka að ferðast ekki bara til þessara dæmigerðu ferðamannaborga, því Evrópa hefur upp á svo margt að bjóða. Borgir eins og Vín, Gdansk og Valencia hafa til dæmis heillað mig mjög mikið.“
En fyrir utan Evrópu?
„Einn skemmtilegasti fylgifiskur flugþjónastarfsins eru stoppin í Bandaríkjunum. Á síðustu árum hef ég komið ansi oft til New York, sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Þar er endalaust hægt að sjá og gera – mannlífið er einstakt og fjölbreytt og maður upplifir sig eins og maður sé í nafla alheimsins. Fyrir einhvern sem kemur frá litla Íslandi er alveg magnað að standa innan um alla stóru skýjakljúfana í New York.
Aðrar bandarískar borgir sem ég mæli mikið með eru Washington D.C. og Chicago. Í Washington eru fjölmargir sögufrægir staðir og mikið af skemmtilegum söfnum. En Chicago er að mínu mati glæsilegasta borg Bandaríkjanna – þar er einstaklega fallegur arkitektúr og frábær stemning.“
Hvaða land eða borg kom þér mest á óvart – og af hverju?
„Fyrir nokkrum árum fórum ég og maðurinn minn á smá flakk um Bandaríkin og komum við í New Orleans. Franska hverfið þar er ótrúlega fallegt og líflegt. Við vorum þar þegar Mardi Gras-hátíðin stóð yfir – án þess að hafa áttað okkur á því fyrirfram – og það kom okkur skemmtilega á óvart.
Franska hverfið var þá iðandi af lífi, með skrúðgöngum, tónlist og gleði úti um allt. Þetta var klikkuð og einstök upplifun. Þar að auki er sagan í New Orleans bæði rík og áhugaverð.“
Sæmundur segist hafa fengið besta matinn í Grikklandi en þó ekki á fínu veitingahúsunum.
„Ég er mjög hrifinn af grískri matargerð og fékk frábæran mat í Aþenu. Það skemmtilega var að maturinn á fínu veitingahúsunum var ekkert sérstaklega eftirminnilegur heldur var besti maturinn sem ég fékk í matarvögnum úti á götu.“
Hver er draumaáfangastaðurinn þinn?
„Taíland. Mig hefur lengi dreymt um að koma þangað. Eftir útskrift verður það fyrsta mál á dagskrá að skipuleggja ferð til Taílands.“
Ef þú gætir búið hvar sem er í heiminum í eitt ár, hvar yrði það?
„Ég væri alveg til í að búa eitt ár í stórborg og Lundúnir yrðu líklega fyrir valinu. Mér finnst borgin ótrúlega heillandi – bæði vegna þess hve mikið hún hefur upp á að bjóða og líka vegna þess að mér þykir einstaklega vænt um England. Ég bjó í Bournemouth þegar ég var barn, þannig að í hvert sinn sem ég kem til Englands fæ ég ákveðna heimkomutilfinningu.“
Blaðamaður má til með að forvitnast um ýmislegt úr ferðalögum Sæmundar – besta og versta ferðafélagann, skrýtnasta minjagripinn sem hann hefur tekið með sér heim og þá þrjá hluti sem hann er alltaf með í ferðatöskunni.
„Besti ferðafélaginn er klárlega Maggi minn. Við „fúnkerum” mjög vel saman og kostir okkar vega upp á móti göllum hvors annars. Ég sé til dæmis um að panta flug og ganga úr skugga um að við séum mættir á réttum tíma á flugvelli, lestarstöðvar og þess háttar. Maggi er aftur á móti einstaklega ratvís og á auðvelt með að átta sig á hvernig landið liggur á nýjum stöðum. Það kemur sér vel, þar sem ég get verið ferlega áttavilltur og kemst ekki fet án þess að nota Google Maps.
En þegar kemur að versta ferðafélaganum, þá er ég svo lánsamur að hafa ekki farið í ferð með neinum sem gæti talist slæmur.
Og hvað varðar minjagripinn þá held ég að hann sé of dónalegur til að greina frá honum hér,“ segir Sæmundur og hlær.
„Já, og þeir þrír hlutir sem ég er alltaf með í ferðatöskunni eru:
Eins og fram hefur komið starfar Sæmundur sem flugþjónn hjá Icelandair og líkar lífið í
háloftunum vel.
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna í háloftunum?
„Það skemmtilegasta er hvað maður hittir mikið af skemmtilegu fólki, bæði samstarfsfólki og farþegum. Það er ný áhöfn á hverjum degi, þannig að maður er stöðugt að kynnast nýju fólki og engir tveir dagar eru eins.
Svo er auðvitað mjög skemmtilegt að fá að stoppa á öllum áfangastöðunum í Bandaríkjunum og Kanada.“
Var eitthvað sem kom þér á óvart við starfið?
„Kannski hversu miklar kröfur eru gerðar til flugfreyja og flugþjóna. Starfið snýst um miklu meira en að afgreiða veitingar. Við þurfum að vera undirbúin fyrir hvað sem er um borð – við erum þjálfuð í að slökkva elda, veita skyndihjálp og margt fleira. Þessi námskeið eru ekki einu sinni í upphafi starfsferilsins; við förum reglulega í endurþjálfun og þurfum til dæmis að standast verklegt hjartahnoðspróf tvisvar á ári.“
Og svona rétt í lokin má blaðamaður til með að spyrja hvernig Sæmundi leið þegar hann heyrði af falli Play.
„Jú, þetta voru mjög sorglegar fréttir. Ég á marga vini og kunningja sem störfuðu hjá Play og finn virkilega til með þeim – og öllum hinum sem misstu vinnuna.