Síðastliðið haust ferðaðist Tanya Kristín Carter Kristmundsdóttir til Marokkó. Hún segir ferðina vera þá mögnuðustu sem hún hafi farið í, enda hafi landið boðið upp á allt annan menningarheim en þann sem hún er vön.
Tanya segir hér frá ferðaáhuganum, draumaáfangastaðnum og fleiru úr ferðalögum, meðal annars frá því þegar símanum og veskinu hennar var stolið á fyrsta kvöldinu í Mexíkó.
Tanya er 21 árs gömul, einhleyp og búsett í Reykjavík. Hún er útskrifuð frá Menntaskólanum í Kópavogi og starfar nú við sölu- og markaðsmál hjá fyrirtæki móður sinnar, Vera Design. Hún hyggst setjast aftur á skólabekk eftir ár og segist hafa brennandi áhuga á sálfræði og geðsviði.
Aðspurð hvenær ferðaáhuginn hafi kviknað segir Tanya að hún hafi fengið hann nánast í vöggugjöf.
„Við fjölskyldan höfum ferðast mjög mikið síðan ég var ungbarn, svo það þurfti lítið til að kveikja áhuga hjá mér – ég fékk hann eiginlega bara í vöggugjöf. Þegar ég varð eldri fór ég síðan að ferðast sjálf, með vinkonum mínum, tvíburasystur minni og frænku,“ segir hún.
Þegar hún er spurð hvort hún muni eftir sínu fyrsta ferðalagi svarar Tanya hiklaust:
„Ætli það hafi ekki verið til Spánar, þar sem við áttum lítið, sætt fjölskylduhús sem amma mín og afi byggðu. Við vorum þar mjög mikið og ég lít eiginlega á þetta svæði sem mitt annað heimili. Mér þykir mjög vænt um það og reyni að halda í þá hefð að heimsækja staðinn eins oft og ég get.“
Til hvaða landa hefur þú ferðast?
„Ég hef ferðast til Portúgals, Spánar, Frakklands, Bandaríkjanna, Bretlands, Danmerkur, Króatíu, Marokkó og Mexíkó.“
Eins og fram kom í byrjun hreifst Tanya af framandi menningu Marokkó þegar hún heimsótti landið. Þegar hún er spurð hvaða ferðalag hafi verið það eftirminnilegasta kemur sú ævintýraferð strax upp í huga hennar.
„Ég fór síðastliðið haust til Suður-Frakklands og Marokkó. Hið síðarnefnda stendur gjörsamlega á toppnum af öllum þeim stöðum sem ég hef heimsótt. Menningin þar er engu lík – lyktin, fólkið, maturinn, göturnar. Það er ekkert óalgengt að rekast á asna eða belju úti á miðri götu, á milli bíla sem troða sér þrír eða fjórir á tveggja akreina vegi,“ segir hún.
„Að fara í eyðimörkina á fjórhjóli var mögnuð upplifun og að sitja á úlfalda og horfa á sólsetrið yfir Sahara var eitthvað sem ég gleymi aldrei. Birtan og fegurðin þarna úti eru ólýsanleg. Að ganga um þröngar götur og sjá fátæktina með berum augum en á sama tíma finna svo mikla hamingju í fólkinu – það fannst mér fallegt.
Hvort sem það var kona að baka pönnukökur, maður að reyna að selja „Rolex“-úr eða kona með lítil börn að betla, þá virtist gleðin yfirgnæfa allt.“
Hver er uppáhaldsborgin þín í Evrópu?
„Það er ábyggilega Nice í Frakklandi, þótt ég eigi svolítið erfitt með að gera upp á milli Kaupmannahafnar og Nice. Báðar eru þær geggjaðar borgir en mjög ólíkar.“
En fyrir utan Evrópu?
„Ég myndi segja Marrakech. Hún er svo ótrúlega ólík öllum öðrum borgum sem ég hef komið til – bæði menningarlega og veðurfarslega séð. Byggingarstíllinn þar er eins og úr ævintýri.“
Hvaða land eða borg kom þér mest á óvart og af hverju?
„Marokkó kom mér mest á óvart – bæði vegna menningarinnar og umhverfisins í heild sinni. Það er erfitt að lýsa þessu með orðum; það er einhver stóísk ró þarna þrátt fyrir allt kaosið. Að heyra bænahöldin fimm sinnum á dag er ótrúlega fallegt. Ég mæli svo mikið með!“
Hefur þú lent í einhverju hættulegu á ferðalögum?
„Kannski flokkast það ekki beint sem hættulegt en það var mjög ógnvekjandi að vera símalaus og peningalaus í níu daga úti í Mexíkó. Símanum mínum og veskinu var stolið á fyrsta kvöldi – og ég ætla ekki að ljúga, það var alvöru panik!
Þetta minnir mann á að vera passasamur, því það er ekkert frábært að lenda í því að vera rændur. Sem betur fer var ég með gott fólk sem aðstoðaði mig, en síminn og veskið fundust aldrei aftur.“
Hvernig ferðalögum ert þú hrifnust af?
„Ég er hrifnust af sólarferðum þar sem ég kemst á bát og hef lítil plön – bara að vera til og njóta. Mér finnst líka gaman þegar hlutir gerast spontant, án þess að allt sé skipulagt fyrirfram. Það getur verið stressandi að hafa þétta dagskrá og koma jafnvel þreyttari heim en þegar maður fór út – það getur verið bömmer.“
Ef þú þyrftir að lýsa þér sem ferðamanni í þremur orðum – hvaða orð myndirðu nota?
„Ég myndi segja að ég væri forvitin, afslöppuð og stemningskona.“
Hvað hafa ferðalög kennt þér um heiminn – og um sjálfa þig?
„Ferðalög hafa kennt mér að þó að heimurinn sé risastór og fólk og menning mjög ólík, þá erum við öll svo lík. Við erum öll að reyna að njóta og gera okkar besta í þessu lífi – sama hvar við erum stödd. Það er svo mikilvægt að sjá fegurðina í öllu, sama hvar maður er, og bera virðingu fyrir ólíkum menningarheimum.“
Hver er draumaáfangastaðurinn þinn?
„Draumaáfangastaðurinn minn væri Bora Bora eða Balí – tær sjór, náttúran og hreinn matur hljómar fullkomlega.“
Ef þú gætir búið hvar sem er í heiminum í eitt ár – hvar yrði það?
„Það væri í Suður-Frakklandi. Það væri draumur að keyra um frönsku Rivíeruna og stoppa á milli lítilla sætra bæja sem eru dreifðir um allt þarna. Þó svo að þar sé sól og hiti, þá er stutt að keyra upp til Ítalíu eða niður til Spánar á falleg skíðasvæði – fyrir mér væri það draumaheimili.“
Hver er besti ferðafélaginn?
„Það er alltaf notalegt að ferðast með fjölskyldunni minni.“
En versti?
„Ég geri ráð fyrir að einhverjir lesi þessa grein, svo ég ætla bara að segja pass… En svona án djóks þá hafa allir ferðafélagarnir mínir verið ágætir á sinn hátt. Ég umgengst einfaldlega ekki leiðinlegt fólk.“
Og að lokum ef þú mættir fá einn frægan aðila með þér í ferðalag, hver væri það?
„Omægad, það yrði Steindi Jr.! Ég er ekkert að grínast – það væri Steindi Jr.“