Á átta þunganir að baki

Solveig Thelma og dóttir hennar, Elín Erna.
Solveig Thelma og dóttir hennar, Elín Erna. Hanna Andrésdóttir

Hársnyrtimeistarinn Solveig Thelma Einarsdóttir á tvö börn, hinn 12 ára Ólíver og Elínu Ernu sem nýverið fagnaði fyrsta afmælinu sínu. Solveig þurfti að hafa talsvert meira fyrir því að koma börnum sínum í heiminn en gengur og gerist, en hún hefur margoft misst fóstur auk þess sem börnin hennar fæddust töluvert fyrir tímann. Þá á hún að baki alls átta þunganir og fjórar meðgöngur. 

„Ég varð ófrísk í fyrsta skipti þegar ég var 17 ára, það var reyndar algert slys, en ég ákvað samt að takast á við það og eiga barnið. Í 20 vikna sónarnum kom síðan í ljós að það barn var með mikla fósturgalla, það vantaði litla heilann auk þess sem barnið var með klofinn hrygg. Sú meðganga var því sett af stað þar sem barnið, sem var stúlka, var ekki talið lífvænlegt. Þetta er þó óskylt öllu sem kemur á eftir,“ segir Solveig þegar hún er spurð að því hvenær hún hafi áttað sig á því að hún myndi eiga erfitt með að ganga með barn.

„Þetta lýsir sér þannig að ég verð ófrísk og missi yfirleitt mjög fljótlega, eða innan 12 vikna. Ég er með legslímuflakk og ef ég næ að halda út þessar 12 vikur þá er ég yfirleitt örugg. En þá tekur annað við,“ segir Solveig og á þá við bilun í leghálsi sem gerir það að verkum að hún nær ekki að ljúka fullri meðgöngu.

„Þegar ég gekk með Ólíver, sem í dag er 12 ára, hafði ég einu sinni fengið utanlegsfóstur og var tvisvar búin að missa mjög snemma. Meðgangan gekk rosalega vel framan af, ég hafði verið dugleg að æfa og var í góðu líkamlegu formi. Þegar ég var síðan komin 28 vikur fór ég fyrst af stað. Ég fékk fyrirvaraverki og fór niður á spítala þar sem mér voru gefin lyf til að stoppa fæðinguna. Það gekk vel og ég var send heim og sagt að taka það rólega. Í kjölfarið hætti ég að vinna og einbeitti mér einfaldlega að því að slaka á. Svo þegar ég var komin rúmlega 33 vikur fór ég aftur af stað, þá gekk illa að stoppa mig af og þegar ég var komin 34 vikur var hann tekinn með keisara. Læknarnir sögðu mér að það væri grunur um leghálsbilun og ef ég ætlaði að eiga fleiri börn þyrfti að fylgjast mjög vel með mér á meðgöngunni,“ segir Solveig og bætir við að pilturinn hafi dafnað vel þrátt fyrir að hafa fæðst sex vikum fyrir tímann.

„Hann hefur alltaf verið heilbrigður. Hann er reyndar með undirliggjandi astma og var svolítið erfiður í lungunum, en það var ekkert áhyggjuefni. Hann var 9 merkur þegar hann kom í heiminn og var mjög stór miðað við meðgöngulengd. Hann var reyndar stuttur í annan endann, ekki nema 44 cm þannig að hann var eiginlega bara kringlóttur þegar hann fæddist,“ segir Solveig og hlær.

Solveig Thelma ásamt börnunum sínum.
Solveig Thelma ásamt börnunum sínum. Hanna Andrésdóttir

Var reið í mörg ár

Talsverður aldursmunur er á Ólíver og Elínu Ernu, yngri dóttur Solveigar, sem eins og áður sagði er rúmlega ársgömul. Í millitíðinni missti Solveig bæði fóstur og fæddi stúlkubarn fyrir tímann en stúlkan, sem skírð var Perla, lést skömmu eftir fæðingu.

„Ég var ein í svolítið langan tíma eftir að Ólíver fæddist og ætlaði að bíða með næsta barn. Þegar hann var farinn að nálgast sex ára aldurinn fékk ég þá flugu í höfuðið að reyna aftur. Mér hafði verið sagt að þetta væri hægt, en það þyrfti að fylgjast mjög vel með mér. Á þessum tíma bjuggum við í Noregi og ég ákvað að verða ófrísk þar. Þegar ég var síðan komin sjö vikur á leið missti ég fóstur en varð strax aftur ólétt í næsta tíðarhring. Sú meðganga gekk þokkalega, en þegar ég var komin tæpar 12 vikur byrjaði að blæða. Ég fékk ofboðslega lítið eftirlit þótt ég ætti þessa sögu og hefði greint frá því að ég ætti fyrirbura. Það var afar erfitt að fá þá þjónustu sem er í boði hér á landi, svo á endanum pantaði ég mér sjálf tíma hjá kvensjúkdómalækni til þess að láta athuga blæðinguna. Hún framkvæmdi sónarskoðun og sá að það var allt í lagi með fóstrið en ráðlagði mér að taka það rólega í nokkra daga. Ef frá er talin þessi læknisheimsókn var ég aldrei skoðuð almennilega á þessari meðgöngu. Mér var einfaldlega sagt að ef eitthvað gerðist yrði fylgst með mér,“ segir Solveig.

„Þegar ég var komin 18 vikur fór ég síðan í sónar og fékk að vita að ég gengi með stelpu. Allt virtist vera í himnalagi, en þegar þarna var komið hafði ég enn ekki farið í neina skoðun á leghálsi. Þegar ég var svo komin rúmar 22 vikur byrjaði ég að fá samdráttarverki. Ég fór beina leið á spítalann og óskaði eftir því að ég yrði skoðuð. Ég var hins vegar send heim vegna þess að það var svo mikið að gera á kvennadeildinni og var einfaldlega sagt að koma aftur morguninn eftir. Ég barðist fyrir því að vera lögð inn, enda handviss um að fæðingin væri að hefjast. Ég sagði þeim að ég ætti fyrirbura, en var engu að síður send heim. Um nóttina var ég komin með harða samdrætti og fór því aftur á spítalann þar sem ég var loksins skoðuð. Þetta var í rauninni í fyrsta skipti sem ég var skoðuð almennilega á meðgöngunni. Það kom í ljós að leghálsinn var farinn að gefa sig, belgurinn var kominn niður og fæðingin hafin. Þarna var ég komin með tvo til þrjá í útvíkkun. Læknarnir reyndu að setja upp neyðarsaum, en það gekk ekki þar sem fæðingin var of langt gengin,“ segir Solveig.

Samkvæmt norskum lögum eru börn sem fæðast innan við 23 vikna meðgöngu ekki talin lífvænleg. Solveig tók því þá ákvörðun að halla sjúkrarúminu aftur, harka af sér og reyna að halda í sér í þá örfáu daga sem vantaði upp á meðgöngulengdina.

„Það gekk ekki eftir, vatnið gaf sig á öðrum eða þriðja degi og þá var þetta búið. Í Noregi er það þannig að barnið er ekki einu sinni skoðað sé það ekki gengið 23 vikur, eða hafi náð 500 grömmum. Þegar dóttir mín fæddist var hún 470 grömm og vantaði því aðeins örlítið upp á að hún fengi möguleika. Eftir að hún kom í heiminn rétti læknirinn mér hana og hún dó í fanginu á mér skömmu síðar. Það var ekkert reynt og ekkert gert,“ segir Solveig.

„Þetta er allt í mikilli móðu. Ég var orðin fárveik og komin með yfir 40 stiga hita. Í ofanálag fékk ég miklar innvortis blæðingar og þurfti að fara beint í aðgerð eftir að hún fæddist. Ég fékk því bara rétt að kveðja hana á meðan hún var að fara. Í mörg ár á eftir var ég reið því það var ekki hlustað á mig. Hún var orðin þetta stór og þess vegna hefði átt að skoða hvort hún ætti einhvern möguleika á að lifa. Í krufningunni kom síðan í ljós að hvorki hún né ég vorum með sýkingu, en það er sagt að það sé erfitt að bjarga fyrirburum séu þeir með sýkingu. Það var hins vegar komin sýking í fylgjuna, en það hefði þó átt að meta aðstæður betur,“ segir Solveig og bætir við að framkoma heilbrigðisstarfsfólks hafi ekki auðveldað henni að takast á við missinn.

„Læknirinn sem annaðist mig kom ömurlega fram. Mér hafið verið haldið á spítalanum yfir helgi, en á sunnudeginum þegar átti að útskrifa mig bauðst hún til að skrifa upp á veikindavottorð fyrir mig. Ég þáði það, enda treysti ég mér ekki strax aftur í vinnu. Hún bauðst þá til þess að skrifa upp á vottorð fyrir mánudaginn, en ætlaðist til þess að ég mætti aftur til vinnu á þriðjudeginum. Ég var svo reið að ég spurði hvort þessi framkoma stafaði af því að ég væri útlendingur eða hvort þetta tíðkaðist almennt. Síðan henti ég henni út,“ segir Solveig og bætir við að himinn og haf séu á milli þjónustunnar sem hún fékk í Noregi og þeirri sem henni hefur boðist hér á landi.

„Norðmenn mega þó eiga það að mér hafði verið úthlutað viðtölum hjá sálfræðingi þegar þetta gerðist, enda var ég orðin verulega hrædd eftir atvikið á 12. viku. Syni mínum var einnig boðið upp á fjölskylduhjálp. Þeir mega líka eiga það að börn sem fæðast eftir 22. viku teljast andvana í Noregi, og eru því jörðuð. Við fengum útfararkostnaðinn greiddan en upphæðin var ekki nægilega há til þess að við gætum greftrað hana hér heima,“ segir Solveig, en henni þykir afar erfitt að geta ekki vitjað leiðis dóttur sinnar.

„Hin dóttir mín er í duftreitnum í Fossvoginum, í fósturreit. Þetta var þó allt öðruvísi lífsreynsla. Þetta barn var lífvænlegt og átti í raun og veru alltaf von. Hún var lifandi þegar hún fæddist, hin stúlkan var dáin. Þó að það muni ekki nema fjórum vikum á meðgöngulengd var þetta mun erfiðara því þetta voru heilbrigðar aðstæður. Hitt var vonlaust,“ segir Solveig sem flutti aftur til Íslands skömmu eftir að dóttir hennar var jörðuð. Hún hafði þá tekið þá ákvörðun að eiga ekki fleiri börn.

Sú litla braggast vel.
Sú litla braggast vel. Hanna Andrésdóttir

Óskaði eftir ófrjósemisaðgerð

„Ég kom aftur heim til Íslands þegar ég var 35 ára. Þá var ég nýskilin við manninn minn og einstæð móðir. Ég fór til læknis og óskaði eftir ófrjósemisaðgerð því ég ætlaði hvorki að leggja þetta á mig eða aðra á ný. Þetta var nefnilega ekki bara erfið lífsreynsla fyrir mig, heldur einnig fyrir son minn og alla fjölskylduna. Ég óskaði því eftir því að vera tekin úr sambandi. Læknirinn sem ég leitaði til, sem er yndislegur, sannfærði mig um að ég ætti enn fimm góð ár eftir og að mér gæti snúist hugur. Hann sagði mér að það væri hægt að grípa inn í þegar þetta væri vitað með svona mikilli vissu. Síðan sagði hann mér að koma aftur þegar ég væri orðin fertug, þá myndi hann framkvæma aðgerðina. Ég fór því aftur heim með það í huga. Síðan kynntist ég núverandi manninum mínum, en hann á eina dóttur úr fyrra sambandi sem er 17 ára í dag. Hann langaði mikið að eignast fleiri börn og þegar ég tók þessa ákvörðun óð ég blint í sjóinn. Ég vissi ekki út í hvað ég væri af fara, sem betur fer, því þá hefði ég ekki gert það. Þetta var rosalegur rússíbani því fram að 28. viku var ég ekki viss um að ég myndi fá að fara með dóttur mína heim,“ segir Solveig um Elínu Ernu. Meðgangan var verulega erfið en mæðgunum heilsast þó báðum vel í dag.

„Ég var afar heppin í þetta skiptið því ég varð ófrísk og náði að halda henni alla leið. Það var einnig fylgst ofboðslega vel með mér á meðgöngunni. Ég fór í skoðanir á minnst tveggja vikna fresti og oft í sónar. Á áttundu viku kom í ljós að það þyrfti að setja leghálsinn upp. Venjulega er það gert í gegnum leggöngin, en þá er saumað fyrir leghálsinn neðan frá. Þegar nær dró kom í ljós að það var ekki hægt hjá mér því það var einfaldlega ekkert að binda í. Leghálsinn var strax fullstyttur. Það var því ákveðið að aðgerðin yrði gerð með róbóta í gegnum smásjá og það yrði farið í gegnum gamla keisaraskurðinn. Þessar aðgerðir þurfa að fara fram fyrir 14. viku, en hjá mér var hún framkvæmd seint á 13. viku,“ segir Solveig og bætir við að aðgerðin hafi þó ekki farið alveg eftir áætlun.

„Ég var töluvert lengur í aðgerðinni en til stóð, en þegar ég vaknaði var mér sagt að þetta hefði verið afar erfið aðgerð. Legið var orðið svo stórt og þar af leiðandi var erfitt að komast að. Það endaði því með því að þeir þurftu að skera. Þegar ég vaknaði var mér ekki strax sagt hvernig ég var skorin. Svo þegar bráði aðeins af mér sagði maðurinn minn að ég hefði verið skorin frá lífbeini og upp fyrir nafla. Það reyndist þurfa að kalla út annað skurðteymi, enda aðgerðin mun stærri en gert hafði verið ráð fyrir í byrjun. Mér skilst að annar læknirinn hafi þurft að lyfta leginu, með barninu í, og halda á því meðan hinn saumaði fyrir. Svo var legið sett aftur inn og mér tjaslað saman. Þetta var svo mikið inngrip að læknarnir voru dauðhræddir um að ég myndi fara af stað. Ég fékk því lyf sem stöðva samdrætti þegar ég vaknaði. Saumurinn hjálpar nefnilega til, en hann heldur ekki ef maður fer í fæðingu. Ég fór af stað einu sinni eftir þetta og var þá komin rúmar 27 vikur. Þá var ég lögð inn og við vorum undirbúin fyrir að þetta gæti verið að gefa sig. Ég var í viku á spítalanum en það náðist að stöðva fæðinguna. Síðan fór ég heim þar sem ég þurfti að vera meira og minna rúmliggjandi það sem eftir var meðgöngunnar,“ segir Solveig.

„Ég var í rauninni bara með klósettleyfi og mátti ekkert gera. Til að byrja með langaði mig mikið að viðra mig aðeins og fékk stundum leyfi til að fara í bíltúr. Það olli því þó ég fékk svolitla samdrætti. Ég hætti því að þora út, enda var það ekki þess virði. Ég var ekki tilbúin að fórna þessu. Það voru allir búnir að leggja rosalega mikið á sig til þess að þetta barn gæti fengið að komast í heiminn og ég ætlaði ekki að klúðra því. Frá 27. viku og fram að 35. viku steinlá ég síðan. Ég hreyfði mig ekki. Það eina sem ég gerði var að fara í skoðun. Það var rosaleg viðhöfn, ég farðaði mig því það hafði enginn séð mig í margar vikur. Þegar ég var síðan komin 35 vikur var ég búin að fara nokkrum sinnum niður eftir vegna þess að ég var komin með samdrætti. Undir lokin átti ég lyfin sem notuð eru til að stöðva samdrættina heima, og tók þau þegar á þurfti að halda.“

Á þessum tíma var Solveig orðin örþreytt enda hafa lyfin miklar aukaverkanir. Þá var hún einnig með stærðarinnar ör á kviðnum sem olli henni miklum óþægindum.

„Þegar ég var komin 35 vikur var ég orðin mjög þreytt á lyfjunum. Þeim fylgja miklar aukaverkanir og manni líður ofboðslega illa af þeim. Örið á maganum var líka að gera mér lífið leitt. Það var þykkt og kominn mikill ofvöxtur í það. Ég leit út eins og ég væri með rauðan snák á maganum, en farið var að springa úr örinu og blæða. Kviðurinn er auðvitað að vaxa allan tímann og skurðurinn með. Daginn sem ég var komin 35 vikur fór ég síðan í skoðun og sagði lækninum að ég gæti eiginlega ekki meir. Ég var með samdrætti, það blæddi úr örinu og mig verkjaði í það. Hún horfði bara á mig og sagði að ég hefði verið rosalega dugleg. Þetta væri komið gott og þau myndu taka stelpuna. Þegar maður er kominn yfir 34 vikur er ekki reynt að stoppa mann af. Sérstaklega ekki í tilfellum sem þessum. Þarna var ég um það bil að fara af stað og var bara gjörsamlega búin. Ég átti ekki meira eftir. Stelpan var síðan tekin með keisara út um örið á kviðnum sem var lagað í leiðinni, enda kominn mikill ofvöxtur í það,“ segir Solveig sem hefur ákveðið að fá sér fallegt húðflúr yfir örið.

„Undanfarið hef ég verið hjá lýtalækni, en hann hefur sprautað sterum í örið svo það komi ekki aftur ofvöxtur í það. Það er búið að ganga ofboðslega vel og nú er það orðið mjög fínt. Það er ennþá smá litur í örinu, en það á eftir að verða ljóst. Um leið og það er komið ætla ég að fá mér eitthvert fallegt húðflúr yfir. Ég er að hugsa um að fá mér engil, sem á rosalega vel við. Ég er búin að stúdera þetta núna í eitt og hálft ár, eða alveg síðan ég var skorin upp.“

Mikið grátið á meðgöngunni

Eins og við er að búast reyndi meðgangan einnig mikið á andlegu hliðina, enda fylgdi henni mikil óvissa og ótti.

„Maðurinn minn á skilið fálkaorðu fyrir að hafa búið með mér á þessum tíma. Þetta var mjög erfitt, það var ofboðslega mikið grátið og mikill ótti á meðgöngunni. Ég hugsa að ef þessi meðganga hefði farið illa hefði ég hreinlega ekki verið fólki bjóðandi næstu árin. Mamma stóð líka yfir mér, ég var alltaf í gjörgæslu. Þegar maðurinn minn þurfti að vinna keyrði hann mig stundum heim til mömmu, þannig að ég var aldrei ein. Ég held að ég hefði ekki höndlað það ef eitthvað hefði komið upp á í þetta sinn,“ segir Solveig og bætir við að þetta muni hún þó ekki gera aftur.

„Ég lét taka mig úr sambandi í aðgerðinni. Ég bað lækninn að klippa á, því ég myndi ekki vilja eiga það á hættu að verða óvart ófrísk og þurfa að taka ákvörðun þá um hvað ég ætti að gera í framhaldinu. Ég vil aldrei aftur upplifa neitt í líkingu við þetta.“

Í dag hefur litla fjölskyldan það þó ofboðslega gott og segir Solveig að Elín Erna, eða Ella eins og hún er gjarnan kölluð, sé alger gleðigjafi.

„Hún er frískari en allt sem frískt er. Hún er bara ótrúlega flott, heilbrigð og fín. Lífið í dag er dásamlegt. Hún er þvílíkur gleðigjafi en það hefur orðið þvílík breyting á lífi okkar allra. Bæði hefur reynslan sett mark á mig, en svo fékk ég loksins að fara heim með þessa stelpu sem ég ætlaði að gera þegar ég var 17 ára. Ég fékk að fara heim með hrausta stúlku og mér líður eins og ég hafi klárað verkefnið,“ segir Solveig sem ákvað að deila sögu sinni bæði vegna þess að hana langaði að koma henni frá sér, en einnig vegna þess að hún gæti nýst einhverjum sem hefur verið í sömu sporum.

„Það er gott að vita að maður er ekki einn, en það er líka gott að vita að það hafa fleiri gengið í gegnum svipaða reynslu og það hafi haft farsælan endi.“

Hanna Andrésdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert