Geta orðið öryrkjar af netnotkun

Björn starfar á barna- og unglingageðdeild.
Björn starfar á barna- og unglingageðdeild. Hanna Andrésdóttir

„Þetta er gríðarlega öflug og góð tækni, en hún getur verið viðsjárverð fyrir þá sem ofnota hana. Ég held að það sé mikil þörf fyrir opna samfélagslega umræðu um þessa tækni, þannig að við lærum að umgangast hana,“ segir Björn Hjálmarsson barnalæknir, sem starfar á barna- og unglingageðdeild Landspítalans.

Björn segir að óhófleg tölvu- og snjalltækjanotkun sé orðin vandamál meðal íslenskra ungmenna. 

„Við sjáum tvær myndir af þessu. Annars vegar unglingsstúlkurnar sem eru orðnar háðar því að fá viðgjöf í gegnum netið og eru nánast orðnar þrælar símanna sinna. Þær þurfa að svara hverju tísti og vaka jafnvel á nóttunni til að sinna þessari þörf. Þetta verður eins konar vítahringur, þær verða háðar lækum og gera allt til að fá sem flest læk. Um leið og ólag er komið á svefninn hrakar síðan námsárangri, eða frammistöðu í starfi, mjög hratt. Þetta eru jafnan gáfaðar stúlkur sem allt í einu heltast úr lestinni í skólanum og enginn veit af hverju. Íslenskar rannsóknir benda til þess að hjá þessum hópi stúlkna sé kvíði og svefnvandi vaxandi vandamál, en kvíðinn virðist rista dýpra en áður,“ segir Björn og bætir við að því fylgi mikið óöryggi að vera háður ytri viðmiðum um eigin persónu.

Björn bendir á að vandi drengja lýsi sér yfirleitt með öðrum hætti, en þeim er hættara við að ánetjast tölvuleikjum.

„Það er merkilegt hvað þessi vandi er kynbundinn, en það eru sérstaklega þessir fjölspilunarleikir sem virðast vera skeinuhættastir fyrir piltana okkar. Þetta eru tölvuleikir þar sem einstaklingar skipa sér í lið með liðsmönnum sem geta verið hvaðanæva úr heiminum, þar sem þeir svo etja kappi við annað lið. Þetta eru svo krefjandi leikir að einstaklingar geta varla farið á klósettið meðan á leik stendur því þá eru þeir að svíkja liðsfélaga sína. Þessir leikir rústa gjarnan reglunni á sólarhringnum, því það er ekki hægt að hætta í leiknum fyrr en hann er búinn. En þá er nóttin jafnvel úti.“

Björn kann enga skýringu á því hvers vegna vandinn birtist með svo ólíkum hætti. Hann bendir þó á að hugsanlega séu karlar meiri adrenalínfíklar en konur og sæki þar af leiðandi í tölvuleikina. Þá segir hann að önnur möguleg skýring sé sú að konur séu heilt yfir meiri tengslaverur en karlmenn og sæki því hugsanlega meira í samfélagsmiðla. En hvaða afleiðingar getur óhófleg snjalltækjanotkun og netfíkn haft í för með sér?

„Alvarlegasta myndin af þessu er beinlínis örorka þegar krakkar ná 18 ára aldri. Það snýst bókstaflega allt um tölvu- eða snjalltækjanotkunina og ekkert annað kemst að. Ég hef það á tilfinningunni að þetta eigi þó frekar við um pilta en stúlkur,“ segir Björn og bætir við að brjóstvit foreldra sé jafnan besti mælikvarðinn þegar kemur að því að meta hvort snjalltækjanotkunin sé komin úr böndunum.

„Þegar foreldrar fá það sterkt á tilfinninguna að snjalltækjanotkunin sé orðin of mikil er ástæða til að grípa inn í. Bandarísku barnalæknasamtökin hafa verið vakin og sofin yfir þessari þróun og hafa gefið út alþjóðlegar leiðbeiningar. Þar er meðal annars talað um að snjalltækja- og tölvunotkun fyrir 18 mánaða aldur eigi ekki að eiga sér stað. Þá er mælt með því að börn frá tveggja til sex ára eigi að vera að hámarki einn klukkutíma á dag í frjálsum leik í þessum tækjum. Síðan er talað um tvær klukkustundir á dag fyrir sex til 18 ára. Við höfum kannað þetta inni á BUGL og sjáum að notkun skjólstæðinga okkar er langt umfram þessi mörk.“

Mikil sjónræn örvun hefur neikvæð áhrif á ímyndunaraflið

Björn segir að breyting sé að verða á hegðun barna í leik- og grunnskólum, en börn nú til dags eiga til að mynda orðið erfiðara með að fylgjast með í sögustundum vegna þess að þau vantar sjónræna örvun.

„Maður þarf að hugsa um tvenns konar áhrif í því samhengi, það eru annars vegar þessi beinu áhrif sem þessi mikla sjónræna skynörvun hefur á börnin okkar. Og hins vegar eru það ruðningsáhrif sem eiga sér stað þegar skjátíminn verður of langur. Við verðum að hafa í huga hvaða virkni er verið að ryðja í burtu í staðinn. Við vitum til dæmis að snerting við náttúruna og frjáls leikur er gríðarlega þroskaörvandi fyrir börnin okkar. Ef við ryðjum þessari virkni í burtu getur tæknin beinlínis verið þroskaletjandi,“ segir Björn.

„Sjálfur á ég einn níu ára hnokka sem ég spurði eitt sinn hvað væri það dýrmætasta sem hann ætti, en hann svaraði ímyndunaraflið. Ég hef síðan heyrt frá kennurum sem starfa við leik- og grunnskóla að það sé að verða breyting á hegðun barna í dag. Sögustundin, þar sem lesinn er upp texti, gengur verr fyrir sig því börnin ná ekki að fylgjast með hinu lesna orði. Þessi mikla sjónræna mötun virðist deyfa ímyndunarafl barna þannig að þau geta ekki búið sér til sögu í huganum. Við vitum líka að ung börn, á fyrsta, öðru og þriðja ári, sem horfa mikið á sjónvarp, hafa seinkaða máltöku. Þessi rannsókn hefur verið endurtekin fyrir snjalltæki en þar kom fram að þau börn sem eru mest í spjaldtölvum eru einnig seinni til máls. Tæknin er svo öflug að hún hefur áhrif á heilaþroskann, þess vegna finnst mér svo brýnt að það verði opin samfélagsleg umræða um þessi mál,“ segir Björn og bætir við að víða í Austurlöndum fjær sé litið á netvæðingu sem lýðheilsumál og þar séu jafnvel að spretta upp stafrænar afvötnunarstöðvar.

Tölvu- og netfíkn er vaxandi vandamál.
Tölvu- og netfíkn er vaxandi vandamál. Getty Images

Kynslóð af kjánum

„Einstein heitinn sá þetta fyrir, en hann sagðist óttast þann tíma þegar tæknin tæki yfir samskipti fólks því þá myndum við eignast kynslóð af kjánum. En hann sagði bara eina kynslóð, sem þýðir að auðvitað munum við í tímans rás læra að umgangast þessi tæki skynsamlega. Það er þó ekki hægt að horfa fram hjá því að það er margt gríðarlega skaðlegt sem fer fram á netinu. Það hefur til dæmis sýnt sig að þeir piltar sem eru mest í ofbeldisleikjum eru hneigðari til að beita ofbeldi en þeir sem eru minna í þessum leikjum. Netklám er heldur alls ekki gott fyrir börnin okkar,“ segir Björn og bætir við að kynslóðabilið hafi breikkað, enda séu börn og ungmenni jafnan fljótari að tileinka sér nýja tækni en fullorðnir.

„Við erum að útsetja kynslóð fyrir nýrri tækni, en vitum ekki hvaða áhrif hún mun hafa því við höfum ekki reynsluna. Rannsóknir erlendis sýna þó að ef foreldrar fá öfluga ráðgjöf virkar það vel. Þá reisa þeir frekar mörk um þessa notkun hjá börnunum,“ segir Björn, en hvað geta foreldrar gert til að fyrirbyggja vandann?

„Ég tel að það sé í fyrsta lagi mikilvægt að skoða þessa ráðgjöf frá bandarísku barnalæknasamtökunum. Hún er byggð á fjölda rannsókna. Leiðbeiningarnar eru vel meintar og ekki stefnt til höfuðs þessari nýju tækni, heldur einmitt til þess að við getum notað hana skynsamlega. Ég held að mikilvægasta atriðið sé að finna kjöragann. Ég óttast að núna sé of mikil óreiða á þessari notkun. Hún sé stjórnlaus. Hjá börnum sem veikjast af henni er hún allt of mikil og beinlínis skaðleg. Óreiðan gerir þannig frelsið að engu. Á sama hátt væri það ofuragi að banna þessa tækni. Kjöragi er þessi gullni meðalvegur sem hámarkar frelsi okkar. Svo held ég að það skipti miklu máli í þessu samhengi að við sem foreldrar erum fyrirmyndir. Það er glórulaust að banna börnunum að vera á netinu, en vera þar síðan alltaf sjálfur,“ segir Björn og bætir við að ábyrgðin sé mest foreldranna, enda fari notkunin að mestu leyti fram á heimilinu.

Hanna Andrésdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert